Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu
Húsið við Tjarnargötu 32 sem nefnt er Ráðherrabústaðurinn var reist af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, árið 1906 og flutti hann þangað inn með fjölskyldu sína 26. mars 1907.
Húsið var upphaflega reist af Norðmanninum Hans Ellefsen hvalveiðiforstjóra á Sólbakka við Önundarfjörð árið 1892 en hann flutti starfsemi sína þaðan 1901 og bauð síðar vini sínum, Hannesi Hafstein sem verið hafði sýslumaður Ísfirðinga, húsið að gjöf að því er talið er eða til kaups á eina krónu, aðrir segja 5 krónur. Var húsið þá tekið sundur og flutt suður en það hafði verið einlyft bjálkahús með myndarlegum miðjukvisti, líklega upphaflega keypt tilsniðið frá Noregi.
Í Reykjavík var húsið endurbyggt með nýju lagi. Nú var það tvílyft með hærra og brattara þaki en áður og með þremur kvistum eða burstum á framhlið. Húsið er dæmigert fyrir svokallaðan bárujárnssveitser en drekaskrautið gefur því þjóðlegan rómantískan blæ.
Eftir að Hannes Hafstein lét af embætti 1909 beitti Björn Jónsson sem þá tók við embætti ráðherra Íslands sér fyrir því að Landssjóður keypti húsið í því skyni að gera það að föstum ráðherrabústað.
Ráðherrar Íslands bjuggu í Ráðherra-bústaðnum eftir þetta. Jón Magnússon, sem myndaði fyrsta íslenska ráðuneytið 1917 og bar því fyrstur heitið forsætisráðherra, kaus ekki að flytjast í Ráðherrabústaðinn en fékk hann samráðherrum sínum til bústaðar. Frá 1926 bjuggu allir forsætisráðherrar í Ráðherrabústaðinn til ársins 1942.
Fyrir Alþingishátíðina 1930 voru gerðar breytingar á neðri hæð hússins.
Ólafur Thors sem tók við af Hermanni Jónassyni sem forsætisráðherra 1942 flutti ekki í Ráðherrabústaðinn eins og forverar hans og ekki heldur Björn Þórðarson sem tók við af honum. Hermann fékk því að búa þar áfram allt fram í nóvember 1943. Nokkrum dögum seinna eða 1.des 1943 var haldin þar hin árlega þingmannaveisla.
Þegar utanríkisráðuneytið var stofnað 1944 var Ráðherrabústaðurinn afhentur því. Einungis einn utanríkisráðherra notaði þó húsið til íbúðar en það var Bjarni Benediktsson á árunum 1947-1948. Síðar bjó þar í nokkur ár Hans G. Andersen þá skrifstofustjóri utanríkisráðuneytis.
Ráðherrabústaðurinn var upp frá þessu notaður sem móttökuhús utanríkisráðherra og ríkisstjórnar. Allt fram til 1972 hafði ríkisstjórnin opið hús í Ráðherrabústaðnum fyrir gesti og gangandi á 17. júní.
Árið 1956 urðu nokkur tímamót í sögu Ráðherrabústaðarins. Þá stóð fyrir dyrum fyrsta opinbera heimsókn erlends þjóðhöfðingja á lýðveldistímanum. Þetta voru dönsku konungshjónin, Friðrik IX og Ingiríður, og þótti mjög áríðandi að hafa móttökurnar sem höfðinglegastar. Ákveðið var að þau skyldu búa í Ráðherra-bústaðnum. Hann var rækilega gerður upp, keypt ný húsgögn og veggir prýddir listasverkum eftir fremstu listamenn þjóðarinnar, þar á meðal var stórt Kjarvalsmálverk sem Íslendingar gáfu Alexandrine drottningu árið 1930 en hún skilaði svo Íslendingum aftur í arfleiðsluskrá. Íbúð konungshjónanna sem útbúin var 1956 var á efri hæðinni.
Skömmu fyrir 1980 komst Ráðherrabústaðurinn aftur í umsjón forsætisráðuneytisins. Enn gegnir Ráðherrabústaðurinn miklu hlutverki sem móttökuhús og fundarstaður.
Húsið Sólbakki á Flateyri fyrir miðju 1898 – síðar Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu í Reykjavík.