Rauðhólar – skilti
Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Rauðhóla er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
Gervigígar
Rauðhólar eru gervigígar. Þeir myndast þegar hraun rennur yfir grunn stöðuvötn, votlendi eða í árfarvegi.
Gervigígar eru jafnan í óreglulegum þyrpingum. Oft má styðjast við skipulagsleysið og legu í dældum eða dölum til að greina gervigíga frá eldgígum.
Myndunarsaga Rauðhóla
Fyrir fimm þúsund árum varð eldgos í gígnum Leiti, sem er suðaustan í Bláfjöllum. Hraunið nefnist Leitarhraun. Hraunstraumurinn rann niður Sandskeið og þaðan með farvegum Hólmsár og síðan Elliðaáa allt í sjó fram í Elliðavogi.
Þegar hraunkvikan rann yfir hið forna Elliðavatn snöggkólnaði hún og dró í sig vatn í gufuformi. Gufan kom af stað ólgu og suðu í kvikunni svo hún tættist í sundur og varð að gjalli. Við þetta hlóðust upp um 80 gjallgígar, sem mynda Rauðhólana.
Norðaustan í Rauðhólunum var stór og merkilegur gígur, sem hét Kastali og er hann mikið skemmdur. Þar vestur af var Stóri-Rauðhóll, en af honum sést ekki urmull og þar suðaustur af Miðaftanshóll, sem nú er óþekkjanlegur.
Á árinu 1949 flutti Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur erindi um náttúrvernd. Þar fjallaði hann m.a. um eyðileggingu Rauðhóla og taldi að þeim yrði ekki bjargað. Erindið vakti mikla athygli og hafði m.a. áhrif til að flýta gildistöku náttúrverndarlaga á Íslandi.
Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 og sem fólkvangur á árinu 1974. Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.“












