Reimleiki við sæluhús
Í tímaritinu Bergmál árið 1948 fjallar Magnús Gíslason um „Reimleika við Sæluhús“ og er þar átt við sæluhúsið við Draugatjörn undir Húsmúla, vestan Kolviðarhóls:
„Áður en Kolviðarhóll var byggður og sæluhús þar, hafði Gísli Eyjólfsson, bóndi að Kröggólfsstöðum í Ölfusi, látið gera sæluhús á svo nefndum Húsmúla, vestan undir Hengli, skammt frá Kolviðarhóli.
Gísli var uppi um og fyrir miðja síðustu öld [1900]. Hafði hann á sinn kostnað látið gera sæluhús þetta; var það fremur lítið, en þó gátu nokkrir menn verið þar inni ásamt fáeinum hestum. — Annan sæluhúskofa hafði hann gert við Ölvesárósa, sem nú er aflagður.
Sæluhúsið á Húsmúlanum, kom oft í góðar þarfir fyrir menn, sem fóru yfir fjallið, einkum að vetrarlagi, því oft höfðu menn áður orðið úti á fjallveginum milli Mosfellssveitar og Ölfus, þegar óveður höfðu skollið á þá, eður annað orðið til farartálmunar.
En ekki hafði sæluhús þetta staðið lengi, þegar reimleiki nokkur fór að gjöra vart við sig þar í kring. Ónáðaði hann einkum þá, sem einir voru á ferð, og ætluðu sér að gista í sæluhúsinu. Var það einkum á þann hátt, að þeir heyrðu högg og bresti og sáu stundum reyk eður lítinn mann vera þar á gangi í kring. Sagt var að hann héldi sig einkum við smátjörn, sem var þar skammt frá, og sáu menn hann jafnvel vera að þvo sér í tjörninni.
Eitt sinn var vinnumaður, Beinteinn Vigfússon, er þá átti heima á Völlum í Ölfusi, á ferð þar um að vetrarlagi. Er hann kom upp á Bolavelli, var komið fram á nótt, snjór var yfir allt, gangfæri gott, veður hagstætt og óð tungl í skýjum. Samt hugði Beinteinn sér að gista í sæluhúsinu til næsta dags. Fór hann því þangað, og er hann hafði lokað dyrum, tók hann að hressa sig á nesti sínu, en í sömu svipan heyrir hann, að barið er að dyrum. Gengur hann þá til dyra og opnar hurðina, sem hann hafði lokið að sér og slegið dragbrand fyrir, að innanverðu. En er hann sér engan úti, lokar hann aftur hurðinni, og hyggur sig hafa misheyrt, fer hann svo aftur að hægindi sínu, en varla er hann setztur er hann heyrir annað högg ríða á hurðina, sýnu meira en hið fyrra.
Aftur gengur hann til dyra og opnar, og er hann sér engan úti, hyggur hann, að einhver kunni að gera það af glettum við sig, að hlaupa frá hurðinni, í hvarf við húsið. Gengur hann því í kringum það, en fær ekkert séð, gengur hann því inn og lokar að sér og gengur ennþá til sætis síns.
En þá er barið enn þá á hurðina, og er nú högg það svo mikið, að honum fannst liúsið skjálfa, og hundur, sem með honum var, tók til að ýlfra og leið auðsjáanlega illa. Beinteinn sér nú að ekki muni verði næðissamt fyrir sig í húsinu, um nóttina; tekur því saman dót sitt, bindur á sig poka sinn, er hann bar í varning þann, sem hann hafði verið sendur eftir. Yfirgefur hann nú sæluhúsið eftir að hafa gengið frá því og lokað dyrum.
Heldur hann þá svo sem leið lá, upp Hellisskarð. Veður var hið sama, og þar sem gangfæri var ágætt, gekk allt að óskum. Hundur hans fór á eftir honum, sá hafði „hringspora“ á fótum og var trú manna, að þeim hundum kæmist ekkert illt að. Er Beinteinn var kominn upp í mitt skarðið, verður honum litið aftur; sér hann þá hvar á eftir sér kemur dökkleit vofa, er helzt líktist slagkápu, er þanin væri út á krosspýtu. Vera þessi hoppaði áfram, en gekk ekki. Beinteinn fann ekki til neinnar hræðslu við þetta, sýndist vofan frekar skringileg, en til þess að óttast hana. Er hann leit á hana stanzaði hún. Reiddi hann þá upp staf sinn og ætlaði að slá til hennar; en hún hrökklaðist, líkt og af ótta, undan honum. Snéri hann þá baki við henni og hélt áfram leið sinni upp á brúnina á Hellisheiði. Þar leit hann í annað sinn aftur, en sá þá ekkert. En allt til þessa hafði hundur hans farið á eftir honum og þakkaði Beinteinn honum það, að sér varð ekki meint við, að vofan elti hann.
Eftir það rann hundurinn á undan honum, allt til þess að heim var komið. En rétt áður en Beinteinn náði heim til sín, að Völlum, skall á bylur, er hélzt í þrjá daga, og taldi hann það hafa orðið sér til lífs, að hann hélt heim um nóttina; því svo var þá frost mikið og illt veður, að vart mundi hann hafa lífi haldið í sæluhúsinu, allan þann tíma.
Reimleikinn við sæluhúsið á Húsmúlanum hélzt nokkuð eftir þetta, en þau voru sögu endalok hans, að eitt sinn, sem oftar, var Grímur Þorleifsson, bóndi á Nesjavöllum í Grafningi, þar á ferð. (Hann var annáluð dýra- og fuglaskytta, og, fenginn til þess að vinna refagren um allar nálægar sveitir). Hugði hann sér þá, að gista í sæluhúsinu, eina nóttina, því dagur var að kveldi kominn. En er hann hafði lagt sig til hvílu, var farið að berja húsið að utan og einkum á dyrnar.
Grímur hafði heyrt talað um reimleika þann, er sagður var á sveimi þar við tjörnina og sæluhúsið. Hann hafði og heyrt, að stundum hefði heppnazt að afmá fylgjur og drauga með því að skjóta með silfri á óvætti slíka. Hugsar hann sé því að gera tilraun til þess að afmá reimleik þennan með þeim hætti, ef hann kæmi auga á hann. Sker hann í þeim tilgangi silfurhnapp af peysu, er hann var í, og hefur hann fyrir kúlu í byssu sína. Síðan gengur hann til dyra og opnar þær. Sýnist honum þá reykur, líkur hálfvöxnum manni, fyrir utan dyrnar. Skýtur hann á strók þennan, sem var ekki í meira en tveggja faðma færi frá honum. „Og var svo sem lambsherðablað félli í snjóinn“, sagði Grímur síðan er hann sagði söguna. Hvarf svipurinn við þetta, og reimleikans við sæluhúsið varð ekki vart eftir það.“
Heimild:
-Bergmál, 10. hefti, 01.10.1948, Reimleiki við Sæluhús, Magnús Gíslason, bls. 26-28.

















