Reykjanes – hringferð 11 – Ögmundarhraun – Krýsuvík
11. Ögmundarhraun – Krýsuvíkurkirkja
-Ögmundarhraun – 1151
Hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi ( Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.
Áður en það var rutt varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
-Selatangar – útgerð
Gömul verstöð miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars reru þar skip frá Skálholtsbiskupi. Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn þar. Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880. Allmiklir verbúðarústir eru þar og viða hefur verið hlaðið fyrir hraunhella sem vermenn höfðu til ýmissa nytja, má þar nefna Mölunarkór og Sögunarkór. Minjar þar eru friðlýstar. Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas. Mikill reki er við Selatanga. Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana. Þangað liggur ógreiðfær vegarslóði af Ísólfsskálavegi.
Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling um Selatanga þar sem lýst er minjum og aðstæðum þar.
-Selatangar– Tanga-Tómas
Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.
Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:
„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
-Landeyðing, uppblástur, ofbeit
Mesta jarðvegseyðing á Reykjanesskagagnum hefur verið að eiga sér stað á Krýsuvíkurheiði. Nú er hins vegar verið að reyna að snúa vörn í sókn með uppgræðslu. Landvern í samstarfi við sveitarfélögin, Grindavík og Hafnarfjörð, hefur verið að sá og bera áburð í gróðurvana svæði. Flæmið er mikið og eflaust tekur langan tíma að græða það allt upp. Áður hefur verið reynt að sá fræum og bera á svæðin með flugvélum og sjást þess m.a. merki austan við Selöldu. Þar hefur um nokkurt skeið verið beitarhólf fyrir fé Hafnfirðinga og nú er svo komið að allt fé á Reykjanesskagnum hefur verið sett í afgirt beitarhólf frá og með þessu vori. Menn hafa því horft bjartsýnni augum á meiri möguleika upgræðslu á svæðinu en verið hefur.
-Reykjanesfólkvangur
Þegar ekið er austur frá Grindavík um Ísólfsskálaveg verður fyrst fyrir okkur Festarfjall mjögmyndrænt fjall. Þegar komið er framhjá Ísólfsskálatekur Ögmundarhraun við. Selatangar eru út viðsjóinn fornt útræði og greinilegar rústir vistarveraog fiskihjalla frá fyrri öldum. Héðan er hægt að velja um tvær leiðir um fólk-vanginn. Annars vegar Djúpavatnsleið um Vigdísarvellisem er falleg óbyggðaleið. Frá Djúpavatni erskemmtileg gönguleið um Sog á Grænavatnseggjar,Grænudyngju og Trölladyngju. Á leiðinni er Hrúta-gjá sem er mjög áhugaverður staður.Hin leiðin er um Krísuvík, Grænavatn (sprengjugígur líkt og Kerið) og Kleifarvatn, mikið hverasvæði. Leiðirnar koma saman við norður enda Sveifluhálss. Af Sveifluhálsi er stórbrotið útsýni tilnorð austurs og er rétt eins og af hálendinu.Áður en haldið er til Krísuvíkur er skemmtilegt að fara niður á Krísuvíkurberg, eitt af fuglabergumlandsins. Þá er líka hægt að halda áfram austur ísveitir um Selvog og nálgast hringveginn á þannhátt.Segja má að á Reykjanesi er að finna þverskurðaf Íslandi ef stór ám og jöklum er sleppt. Margar gönguleiðir eru á Reykjanesi og umfólkvanginn sem er um 300km2 að stærð. Sérstaklega er vert að benda á fornar þjóðleiðir á Reykja-nesi en þær njóta mikilla vinsælda hjá göngufólki ídag.Á Reykjanesi eru ótæmandi ferðamöguleikar.Gangið vel um íslenska náttúru – njótið Reykjaness og eignist góðar minningar.
-Moshóll – klepragígur
Ágætt dæmi um eyðileggingu náttúruverðmæta í þáguvegagerðar fyrri tíma.
-Núpshlíðarháls – myndun undir jökli
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.
-Latur – Sæluhús
-Latfjall – Latstögl – Latsfjall
-Ögmundarstígur – dys
Sagan af Ögmundi…
-Krýsuvíkur-Mælifell – greni…
-Húshólmi – saga – aldur minja og hrauns…
Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling um Húshólma og minjarnar þar, sögðu staðarins, aldur þeirra o.fl….
-Krýsuvíkurheiði – gróðureyðing
Þar sem hraun þekur mest af yfirborði Reykjanesskagans og lítið er um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofaná hrauninu vegna þess hve það er ungt. Dæmigert úthafsloftslag og veturnir sem eru yfirleitt mildir eru plöntum í hag en hins vegar blæs mikið og lítið er um heita og sólríka sumardaga sem rýrir vaxta skilyrði gróðursins verulega.
Því er algengasta plantan gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki sérstaklegavið Straumsvík og í Herdísarvíkurhrauni. Votlendisgróður finnst aðeins á smá blettum fyrir utan mýrarnar við Kleifarvatn og í við Krísuvík. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.
Melar eru gróðurlendi þar sem undirlagið er grýtt eða sendið og gróður venjulega mjög strjáll. Þó eru ætíð ákveðnar plöntur sem einkenna mela, og oftast vaxa á þeim um 15 til 20 tegundir plantna. Gróður melanna er nokkuð mismunandi eftir því hversu fastir þeir eru í sér, eða sendnir og lausir, og eins eftir hæð yfir sjó, og eftir því hvort þeir eru við landrænt eða hafrænt loftslag. Lausa og sendna mela einkenna oft tegundir eins og geldingahnappur, skeggsandi, holurt, melanóra, melskriðnablóm og jafnvel melgresi, en á fastari melum eru holtasóley, blóðberg, melakræða, blásveifgras, krækilyng, kornsúra, vetrarblóm, hvítmaðra og axhæra einkennandi. Túnvingull, lambagras, músareyra og lógresi vaxa á flestum melum, hvort sem þeir eru sendnir eða fastir í sér. Á hálendismelum eru þúfusteinbrjótur, vetrarsteinbrjótur og snæsteinbrjótur oft áberandi ásamt melskriðnablómi, ólafssúru, axhæru, geldingahnappi og kornsúru. Holtasóley er algengari á melum við landrænt loftslag, en blávingull og er oftar áberandi við hafrænt loftslag, jafnvel gamburmosi þar sem loftraki er mikill. Allar þær melaplöntur sem nefndar hafa verið eru algengar um land allt. Fáar sjaldgæfar tegundir vaxa á melum, en í þeim hópi eru melasól sem er á melum á Vestfjörðum, og finnungsstör sem er á melum hátt til fjalla við landrænt loftslag.
Hér á eftir eru nokkur helstu atriði varðandi gróðurfar á Reykjanesi.
1. Sérkenni gróðurfars:
Á miklum hluta láglendisins eru eldhraun. Eldhraunin eru hriplek. Vindasöm sumur – umhleypingasamir vetur.
Gamburmosinn er einkennisplanta Reykjanesskagans því gamburmosi er einkennisgróðurlendið. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar smám saman jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Mosaþemba útbreiddasta gróðurlendið. Skiptist í fernt: mosaþemba í einföldustu mynd, mosaþemba með lyngi, mosaþemba með lyngi og kjarri og mosaþemba með grasi. Mólendi austast á svæðinu. Graslendi á köflum. Kjarrlendi í Almenningum. Votlendi við Kleifarvatn. Ógróið land (meirihluti Reykjanesskagans er gróinn þótt gróðurþekjan geti oft verið lítil). Ógróið á melum, skriðum, úfnum hraunum, efri brúnum fjalla og á uppblásnu landi.
Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari og fer það saman við bergmyndun hans: Móbergssvæði, grágrýtissvæði og Miðnesheiðina.
2. Helstu orsakir gróðureyðingar:
Ofnýtt af mönnum og af skepnubeit. Ástæður einnig sandfok, kuldi, vatns- og vindrof, frost, gos og jökull. Mest er jarðvegseyðingin í mólendi og grasbrekkum. Um Reykjanesfóksvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins. Jarðvegur er rýr og að mestu myndaður úr gosefnum og því fokjarn. Veðrátta jafnan óhagstæð og umhleypingasöm veður.
3. Landgræðsla og skógrækt:
1938 var sáð í sandinn í Stóru-Sandvík, uppsprettu sandfoksins á vestanverðum skaganum. Girðingar voru settar upp. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur stuðlað mjög að landgræðslumálum. Grindavíkurgirðingin (landgræðslugirðing) varð til þess að stemma stigum við ágangi búfjár handan hennar. Gróður tók fljótlega við sér. Uppgræðsla innan landgræðslugirðingarinnar á Reykjanesi var algerlega uppblásið. Nú endurgrætt. Ýmis áhugamannafélög og fyrirtæki hafabeitt sér í landgræslu, einnig einstaklingar. Flugvél landgræðslunnar hefur verið notuð af og til frá 1975. Skógræktarfélag Suðurnesja frá 1950 (Sólbrekkur) og Skógræktarfélag Grindavíkur (Selskógur). Auk þess Háibjalli og Álaborg.
–Krýsuvíkurbjarg – Ræningjastígur – Heiðnaberg – þjóðsaga
Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“
Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.
-Krýsuvík – búsetusaga – Suðurkot – Norðurkot – Hnausar – Lækur – Snorrakot – Stóri-Nýibær – Litli-Nýibær – Brekka – Fell
Fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn. Það lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Í upphafi stóð Krýsuvíkurbær allmiklu vestar upp af vík sem heitir nú Hælsvík en hefur ef til vill heitið Krýsuvík til forna. Bæinn tók af þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar. Jarðhitasvæði er mikið í Krýsuvíkurlandi. Þar hefur verið borað eftir gufu og hefur verið um það rætt að virkja gufuaflið fyrir Hafnarfjörð eða önnur nærliggjandi byggðarlög. Brennisteinsnáma var þar um skeið og brennisteinninn fluttur til Hafnarfjarðar en þaðan til útlanda.
Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogsósum og göldrum hans).
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938). Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
-Herdís og Krýsa – þjóðsaga
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.
Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.
Herdís og Krýs
Herdís og Krýs hétu konur tvær í fyrri daga; þær bjuggu í víkum þeim í Gullbringusýslu sem við þær eru kenndar síðan, Krýs í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík.
Þar er vatn eitt uppi á heiðunum sem þá var veiði í. Þóktust báðar kerlingarnar eiga veiðina í vatninu og notuðu hana hvor um sig eftir megni.
Einu sinni mættust þær á leiðinni til vatnsins í hrauninu milli víkanna; þar deildu þær út af veiðinni og heituðust og urðu loks sín að hvorum steini. Standa þar steinarnir sinn hvorumegin við götuna í hrauninu, og heitir hinn syðri Herdís en hinn nyrðri Krýs.
-Krýsuvíkurkirkja
Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan, sem stendur enn þá, var reist 1857. Byggð af Beinteini Stefánssyni frá Arnarfelli. Hún var endurbyggð og endurvígð 1964 og afhent þjóðminjaverði til varðveizlu.
Í dag er tæp 90% þjóðarinnar er lútherstrúar, og um 2% kaþólskrar trúar. Skráð trúfélög utan þjóðkirkjunnar voru árið 2003 samtals 21, en tíu árum fyrr voru þau aðeins 11.
-Skátar
Hafnarfjarðarskátar – Hraunbúar – Skýjaborgir – Hverahlíð.
-Krýsuvíkurskóli
Afvötnunarstöð og meðferðarheimili rekið af Krýsuvíkursamtökunum fyrir fíkneifnaneytendur. Ætlunin var að setja þarna upp heimavistarskóla á vegum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en ekkert varð af því. Húsnæðið var notað undir svín um tíma.