Reykjavegurinn
Þegar ekið er eftir Reykjanesbraut, á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, virðist Reykjanesskaginn hrjóstrugur og ekki vel fallinn til gönguferða og útivistar. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngu- og útivistarfólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl, ekkert síður en gróskumikið gróðurlendi, þótt á annan hátt sé.
Á honum leynast einnig víða fallegar gróðurvinjar. Mosinn í hraununum er sérkennilegur. Einstök náttúrufyrirbrigði er þar líka að finna eins og hraunsprungur og misgengi, eldgíga, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hella, fuglabjörg og fleira. Helsti gallinn við svæðið sem útivistarsvæði er sá, að vatn er víðast hvar af skornum skammti. Þetta þarf þó ekki að vera vandamál ef fyrirhyggja er höfð í þeim efnum.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar.
Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.
Árið 1995 var ákveðið að stika gönguleið um Reykjanes og reisa skála við hana. Gönguleiðin hlaut nafnið Reykjavegur.
Nákvæm tildrög að þessari ákvörðun verða ekki rakin hér en aðeins sagt að árið 1993 kom Ari Trausti Guðmundsson þessari hugmynd á framfæri við Ferðamálanefnd Reykjavíkur sem leiddi til þess að Ferðamálasamtök á höfuðborgarsvæðinu tóku málið að sér og stofnuðu framkvæmdanefnd á vegum nær allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum undir forystu Péturs Rafnssonar. Þessi sveitarfélög hafa fjármagnað framkvæmdina. Auk þess komu Ferðamálasamtök Suðurnesja, Útivist, Ferðafélag Íslands og fleiri aðilar að málinu.
Leiðin var stikuð sumarið 1996 og reistir hafa verið tveir skálar við hana auk þess sem ætlunin var að fá afnot af skálum sem nú þegar eru við leiðina, t.d. í Bláfjöllum og á Hengilssvæðinu. Vonandi heldur uppbyggingin áfram. Einn helsti kostur þessarar gönguleiðar er hvað hún er nálægt byggð og aðkoma að henni þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hún liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks að vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins. Áreynslu getur hver sniðið við sitt hæfi, gengið alla vegalengdina í einni ferð á átta dögum eða í styttri áföngum.
Dagsgöngur eftir hlutum Reykjavegarins henta vel þar sem víða er auðveld aðkoma að leiðinni á bíl. Dagleiðirnar, eins og þeim er lýst hér, miðast við að gengið sé á milli skála sem framkvæmdanefndin reiknaði með að koma upp við gönguleiðina. Heildarvegalengd Reykjavegarins er um 125 km frá Reykjanesi til Nesjavalla en um 145 km löng ef gengið er alla leið til Þingvalla. Reykjavegurinn er þannig hátt í þrisvar sinnum lengri en Laugavegurinn margfrægi.
Hér á eftir er stutt lýsing á leiðinni frá vestri til austurs. Þessari grein er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á þessari leið fremur en að vera nákvæm leiðarlýsing eða heildarúttekt á landsvæði því sem hún liggur um. Margar bækur hafa verið skrifaðar um Reykjanesskagann, jarðfræði hans, sögu og náttúru sem hægt er að lesa til frekari fróðleiks.
1. dagleið: Reykjanes – Þorbjarnarfell
Ef Reykjavegurinn er farinn frá vestri til austurs hefst gangan við Reykjanesvita. Þar eru nokkur kennileiti sem vert er að minnast á. Vitinn stendur á Bæjarfelli. Gott útsýni er af fellinu yfir nágrennið. Í vestri blasa við Valahnúkar og Eldey úti í hafi. Í suðri Vatnsfell og Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu er Sýrfell.
Á Valahnúk var fyrsti viti á Íslandi, reistur árið 1878 en hann hrundi í jarðskjálfta og undirstaða hans er nú horfin þar sem sjórinn brýtur úr hnúknum. Austan Bæjarfells og norðan Skálafells er mikið jarðhitasvæði með gufu- og leirhverum og Gunnuhver sennilega þeirra þekktastur enda þjóðsagan um Gunnu sem var komið fyrir í hvernum, vel þekkt.
Frá Valahnúk er ströndinni fylgt norður á Önglabrjótsnef og áfram norður Stampahraun og yfir gossprunguna sem Stamparnir eru á og hraunið tekur nafn sitt af. Talið er að Stampahraun yngra hafi runnið á 14. öld. Frá Kistubergi er ströndinni fylgt norður í Stóru-Sandvík. Aðeins austar í hrauninu er gömul bílaslóð sem nú er lokuð fyrir bílaumferð, sem einnig er hægt að ganga eftir ef fólk vill hafa sléttara undir fæti.
Stóra-Sandvík er allstór vík með sandfjöru og skeljum. Austur af víkinni er tjörn sem vert er að gefa gaum. Í austur frá henni er lægð í hraunið sem leiðin liggur um. Þarna þarf að fara yfir bílveginn og stefnan tekin á Haug, sem er lítið eldvarp sunnan Haugsvörðugjár. Þar er komið inn á Prestastíg (Hafnarleið) sem er gömul leið á milli Húsatófta í Grindavík og Kalmannstjarnar. Þessi leið er greinileg og vel vörðuð. Henni er fylgt sunnan Sandfellshæðar með jaðri Eldvarpahrauns á kafla en síðan inn í hraunið hjá Rauðhól. Prestastígurinn liggur þaðan til suðurs niður að Húsatóftum en Reykjavegurinn beygir hins vegar norður með Eldvarpasprungunni að austan, að borholu Hitaveitu Suðurnesja sem þar er.
Á toppi Sandfellshæðar er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu.
Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.
Aðeins um það bil 1 km austur/suðaustur af þessum helli eru húsarústir í Sundvörðuhrauni sem vert er að leggja leið sína að. Þær eru skammt vestur af Sundvörðunni, vel faldar í dálítilli hraunkvos. Þetta eru 10 tóftir, flestar vestanundir hraunbrún en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð.
Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Frá Eldvörpum liggur leiðin austur yfir Sundvörðuhraun. Fljótlega er farið yfir Árnastíg, sem er vörðuð leið á milli Húsatófta í Grindavík og Njarðvíkurfitja. Þegar komið er nokkuð austur í hraunið er farið inn á Skipstíg, sem liggur í átt til Grindavíkur, að skála undir Lágafelli suðvestan við Þorbjarnarfell. Þessi dagleið er um það bil 20 km og hækkun sáralítil.
2. dagleið: Þorbjarnarfell – Leirdalur
Frá náttstað undir Lágafelli liggur leiðin norður með Þorbjarnarfelli að vestan, norður fyrir það og austur um Baðsvelli. Á þessari leið er gott að rifja upp þjóðsöguna um útilegumennina 15 sem sagt er að hafi hafst við í Þjófagjá og stolið fé Grindvíkinga.
Þjófagjá er sigdalur eða sprungur sem kljúfa Þorbjarnarfell að endilöngu. Baðsvellir eru grasi grónir vellir norður af Þorbjarnarfelli þar sem gróðursett hafa verið tré á undanförnum árum. Skammt norður af Baðsvöllum er orkuver Hitaveitu Suðurnesja úti í Illahrauni, kennt við Svartsengi. Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld. Varla er hægt að fara hjá Svartsengi án þess að fara í bað í Bláa lóninu.
Frá Baðsvöllum liggur leiðin upp að heitavatnsgeyminum í skarðinu á milli Þorbjarnarfells og Hagafells. Þegar þangað er komið, er beygt í austur, farið yfir Grindavíkurveginn og upp á Hagafell. Leiðin liggur austur með hamravegg, sem er misgengi sem klýfur fellið, en undir hamraveggnum eru Gálgaklettar. Af hæðinni opnast útsýni í austur. Svartsengisfell er nú á vinstri hönd og Sundhnúkur beint framundan. Sunnan hans er Vatnsheiðin og austur af henni blasir Fiskidalsfjall við.
Héðan liggur leiðin yfir á Vatnsheiðina sunnan Sundhnúks. Efst á henni er gígur sem vert er að skoða áður en haldið er austur af henni niður í Beinavarðahraun. Þar liggur leiðin á milli hrauns og hlíðar, austur í krikann vestan undir Hrafnshlíð. Hér er ákaflega fallegt og vel þess virði að staldra við í hraungjótu áður en haldið er áfram norður með Hrafnshlíðinni. Fljótlega lækkar hlíðin og aftur er beygt í austur og gengið yfir Borgarhraun með stefnu á Borgarfjall, sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Vestan í Vatnsheiðinni, sunnan Sundhnúks, er farið yfir Skógfellaveg sem var gömul alfaraleið á milli Grindavíkur og Voga og Vatnsleysustrandar.
Farið er yfir Sandakraveg, sem lá á milli Ísólfsskála og Stapa austur við Borgafjall, en talið er að hann hafi komið inn á Skógfellaleiðina norðan við Stóra-Skógfell. Hér kunna þó nöfn á þessum leiðum að hafa breyst þar sem heimildir eru misvísandi. Fyrir austan Borgarhraun breytir landið um svip, við taka blásnar hlíðar og melar með Slögu og Skálamælifell á hægri hönd en Langahrygg, Lyngbrekkur og síðar Einihlíðar á þá vinstri. Ekki er úr vegi að staldra við hjá Drykkjarsteini en sagt er að rigningarvatn, sem safnast í holu í honum, þrjóti aldrei. Austan Einihlíða er misgengi og vesturbarmur þess nefnist Méltunnuklif og eftir því er gengið að skála í Leirdal. Hér er ekkert drykkjarvatn svo hugsa þarf fyrir því. Þessi dagleið er um það bil 14 km og liggur hæst í rúmlega 120 m y. s. á Vatnsheiði.
3. dagleið: Leirdalur – Djúpavatn
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Leiðin norður með Höfða liggur þar á milli hrauns og hlíðar. Yfir hraunhaftið sunnan Sandfells er greiðfær leið og áfram norður með því að austan.
Þegar komið er spölkorn norður með fellinu er beygt til hægri yfir hraunið í átt að Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem á þessum stað heitir Skólahraun. Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar en gatan kemur að Núpshlíðarhálsi, er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tótt sem er minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti.
Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli. Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls úti í hrauninu er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna.
Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.
Frægastur er Hverinn eini í hrauninu sunnan Oddafells. Hann var áður vellandi leirhver en lætur nú lítið yfir sér. Hér liggur leiðin upp hæðardrög meðfram gígaröðinni sem m.a. Afstapahraun er runnið úr og upp á Núpshlíðarháls (Vesturháls).
Í einum þessara gíga, norður undir Grænudyngju, er Sogasel en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Nyrsti hluti hálsins heitir Trölladyngja, 402 m.y.s. Milli hennar og Grænavatnseggja opnast lægð í hálsinn sem heitir Sog. Þar er mikil ummyndun eftir jarðhita og litadýrð mikil. Lækur rennur norður Sog sem getur þrotið í þurrkatíð. Á brúnunum vestan við þetta skarð liggur leiðin þvert yfir Núpshlíðarháls og niður á Lækjarvelli norðan Djúpavatns, sem er allmikið vatn í kvos í Móhálsadal austan undir Núpshlíðarhálsi. Á leiðinni yfir hálsinn er farið fram hjá Spákonuvatni, sem er í gömlum gíg. Á Lækjarvöllum er skáli og þar er einnig gott að tjalda. Nægilegt drykkjarvatn er í læknum sem rennur um vellina og þeir taka nafn af. Þessi dagleið er stutt eða um það bil 14 km og mesta hækkun tæplega 300 m.y.s. þar sem farið er yfir Núpshlíðarháls undir Grænavatnseggjum.
4. dagleið: Djúpavatn – Kaldársel
Þegar farið er frá Lækjarvöllum liggur leiðin til vinstri, norður Móhálsadal á milli Fíflavallafjalls og Hrútafells. Til að byrja með er slétt og gott undir fæti en norðar ýfist hraunið heldur. Farið er í gegnum Hrúthólma, sem er óbrynnishólmi í hrauninu austur af Mávahlíðum. Þar er komið á gamla leið sem lá á milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og nefnist Hrauntungustígur.
Nokkru norðan Hrúthólma lá önnur leið út af henni niður að Straumi og nefndist Straumsselsstígur. Frá Hrúthólma er farið yfir að Hrútagjá og þaðan norður að Sandfelli. Hrútagjá er sigdalur sem liggur í vesturjaðri mikillar eldstöðvar, Hrútagjárdyngju, í norðanverðum Móhálsadal. Þarna er ákaflega skemmtilegt umhverfi og ástæða til að gefa sér tíma til að skoða sig um. Við Sandfell er komið á aðra forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur sem heitir Stórhöfðastígur.
Ekki fylgjum við henni lengi þar sem Reykjavegurinn liggur austur með Sandfelli og Fjallinu eina að Krýsuvíkurvegi nokkru norðan Vatnsskarðs. Farið er yfir hann og gengið austur að Undirhlíðum og þar er komið á enn eina forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, Undirhlíðarveg. Héðan er leiðin greið og auðrötuð eftir gömlum götum með Undirhlíðum niður í Kaldársel. Þegar komið er á móts við Helgafell er farið fram hjá eldgígum á sprungu sem gaus á 12. öld. Vestan undir Undirhlíðum, suður undir Vatnsskarði, á Kapelluhraun hins vegar upptök sín. Það rann í sjó fram hjá Straumsvík eftir landnám.
Eins og menn munu taka eftir, sem ganga þessa leið, hefur gróðurfar hér breytt um svip. Sést hér trjágróður í fyrsta skipti við Reykjaveginn allt frá Reykjanesi. Í Kaldárseli hefur KFUM rekið sumarbúðir fyrir börn í langan tíma og þar er skilarétt Hafnfirðinga. Hér er vatnsból þeirra einnig og gömul vatnsleiðsla frá því til bæjarins. Úr því rennur Kaldá ofanjarðar á nokkur hundruð metra kafla en hverfur síðan aftur í hraunið. Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.
Frá Kaldárseli er ágæt gönguleið á Helgafell sem er 328 m.y.s. Í Kaldárseli er Reykjavegurinn um það bil hálfnaður. Þessi dagleið er um 18 km löng og öll undan fæti.
Önnur skemmtileg leið austur eftir Skaganum er að þræða hæstu tinda. Þá væri farið upp sunnan á Fagradalsfjall, yfir það og austur um Þráinsskjöld og gengið á Keili. Þaðan væri farið um Reykjaveginn austur yfir Núpshlíðarháls. Frá Djúpavatni væri síðan aftur farið af Reykjaveginum austur yfir Móhálsadal og Sveifluháls (Austurháls) um Ketilstíg að Seltúni. Þaðan liggur leiðin síðan sunnan Kleifarvatns upp á Vörðufell og um Brennisteinsfjöll í Bláfjöll. Þetta væri nokkuð löng dagleið eða 25-30 km.
5. dagleið: Kaldársel – Bláfjöll
Fimmta dagleiðin hefst með göngu austur fyrir Valahnjúka með Búrfell og síðan Húsfell á vinstri hönd og Valahnjúka og Helgafell á þá hægri, inn á Selvogsgötu. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7000 árum.
Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og elvogs og liggur um Grindaskörð sem héðan bera við himinn í suðri. Ekki er er leið að líta við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.
Selvogsgatan liggur hér um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Áberandi kennileiti á þessum stað er Stóribolli, Tvíbollar og Grindaskörð á milli þeirra og Syðstubolla, beint fram undan. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri. Lengra í burtu ber Hvirfill (621 m.y.s.) við himinn. Leiðin fylgir hér Selvogsgötu upp á brúnina hjá Draugahlíðum en beygir þar útaf henni til austurs og stefnir nú beina leið á suðurhluta Bláfjalla. Þegar nær dregur Bláfjöllum er farið hjá Strompum, sem er gömul eldstöð, en hraunið sem er farið um er helluhraun, nokkuð greiðfært yfirferðar.
Í þessu hrauni er mikið um hella og þeirra frægastir eru Strompahellar. Þeir verða þó ekki skoðaðir að neinu gagni nema með sé sérstakur búnaður til hellaskoðunar. Dagleiðinni lýkur síðan á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þessi dagleið er um það bil 17 km löng og hækkunin nálægt 450 m.
Þegar komið er upp úr Grindaskörðum er einnig hægt að leggja lykkju á leið sína og fara að Þríhnjúkum sem eru norður á fjallsbrúninni ofan við Kristjánsdali. Undir Þríhnjúkum er gríðarstór hellir, sá stærsti sem vitað er um. Á yfirborðinu lætur hann lítið yfir sér, aðeins gat niður í jörðina um það bil 10 m í þvermál en ofan í hann er ekki hægt að fara nema í sigvað. Hann víkkar þegar neðar dregur og dýpt hans er um 120 m. Full ástæða er til að fara varlega við hellisgatið þar sem landinu hallar að því. Frá Þríhnjúkum liggur leiðin vestan og sunnan Stóra-Kóngsfells að Bláfjallaskála.
6. dagleið: Bláfjöll – Sleggjubeinsdalur
Frá Bláfjallaskála er best að fara aðeins vestur með Bláfjallahorni og yfir það við skíðalyftuna í Suðurgili. Þá er komið upp á fjallsbrúnina, sem er hæsti hluti Reykjavegarins, en þaðan er frábært útsýni til allra átta í björtu veðri. Þaðan liggur leiðin á milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks niður með Bláfjöllum að austan.
Fljótlega er komið á kindagötur við fjallsræturnar sem liggja áfram niður í skarðið á milli Bláfjalla og Fjallsins eina. Þaðan er mikið og fagurt útsýni norður yfir, þar sem Lambafell, Syðri Eldborg og Blákollur blasa við nær, en Hengilsvæðið fjær. Þá er skammt á Ólafsskarðsveg, sem liggur um Ólafsskarð upp úr Jósepsdal nokkru norðar, með hlíðum Bláfjalla og áfram austan Geitafells suður af hálendisbrúninni.
Við fylgjum nú Ólafskarðsvegi norður með Bláfjöllum allt norður að Leiti. Á þessari leið eru sérkennilegar tjarnir úti í hrauninu sem stinga mjög í stúf við þetta vatnslausa svæði.
Frá Leitum rann mikið hraun fyrir um það bil 4700 árum. Það rann víða um svæðið, suður af hálendisbrúninni á milli Geitafells og Litlameitils og í þeirri hvísl er Raufarhólshellir. Einnig norður á milli Lambafells og Blákolls allt norður að Húsmúla og ein tunga þess rann alla leið í sjó fram í Elliðavogi. Í þeirri tungu Leitahrauns eru Rauðhólar við Elliðavatn. Í Leitahrauni eru Eldborgirnar tvær, Nyrðri-Eldborg og Syðri-Eldborg. Frá þeim er Svínahraunsbruninn runninn árið 1000 og það er því hið eiginlega Kristnitökuhraun.
Frá Leiti er farið norður hraunið með stefnu á Syðri-Eldborg, en hún er mjög fallegur gígur. Fara verður varlega því mosinn er viðkvæmur og fljótur að traðkast niður ef gengið er um af gáleysi. Frá Syðri-Eldborg liggur leiðin áfram norður og niður að Nyrðri-Eldborg sem var ekki síður skemmtileg en sú syðri en er því miður búið að skemma með efnistöku. Síðan er stefnan tekin í skarðið á milli Lambafells og Lambafellshnjúks, yfir þjóðveg nr. 1. Svínahraunsbruninn er úfinn en vel fær í nágrenni þjóðvegarins. Þegar hrauninu sleppir er síðasti spöluninn í náttstað í Sleggjubeinsdal auðveldur yfirferðar og auðrataður undir vesturhlíð Reykjafells og Skarðsmýrarfjalls.
Farið er um hlað á Kolviðarhóli þótt bæjarhúsin standi ekki lengur uppi. Þar var fyrst byggt sæluhús 1844 en síðar var þar frægur greiðasölustaður langt fram á tuttugustu öld. Að húsabaki er Hellisskarð og um það lá gömul alfaraleið úr Ölfusi um Hellisheiði.
Í Kjalnesingasögu segir frá því þegar Kolviður á Elliðavatni sat fyrir Búa Andríðarsyni undir Hellisskarði og vildi drepa hann þar sem þeir vildu báðir eiga sömu stúlkuna. Búi varðist vel þar sem síðan heitir Búasteinn og drap Kolvið og menn hans alla en Kolviðarhóll heitir síðan eftir honum.
Hér í Sleggjubeinsdal lýkur sjöttu dagleiðinni á Reykjaveginum. Þetta er lengsta dagleiðin, yfir 20 km löng en að mestu undan brekku að fara.
7. dagleið: Sleggjubeinsdalur-Nesjavellir
Sjöunda dagleiðin hefst í Sleggjubeinsdal, sem er dalverpi sem gengur inn að Hengli á milli Skarðsmýrarfjalls og Húsmúla. Úr Sleggjubeinsdal er góð gönguleið um Sleggjubeinsskarð inn í Innstadal og áfram upp á Hengil. Á undanförnum árum hefur Orkuveita Reykjavíkur staðið fyrir því að merkja gönguleiðir á Hengilsvæðinu. Ein þessara leiða, og sú sem kemur inn á Reykjaveginn, liggur úr Sleggjubeinsdal, vestur fyrir Húsmúla og inn í Engidal norðan hans.
Önnur mjög skemmtileg leið og styttri liggur yfir Húsmúlann, undir Sleggju. Þegar upp á Húsmúlann kemur opnast sýn norður yfir Engidal og Þjófahlaup vestan undir Hengli. Engidalur er grösugur og mýrlendur. Úr norðri kemur Engidalshvísl, sem er samsafn lækja úr vesturhlíðum Hengils. Hana er oftast hægt að stikla. Við suðurenda Þjófahlaups, vestan Engidalshvíslar er nýlegt hús sem Orkuveita Reykjavíkur á. Það er til afnota fyrir gesti og gangandi sem gera vilja stuttan stans á leið sinni um svæðið. Austan árinnar, langleiðina uppi við Hengil, rís upp úr grónu landinu sérkennilegur klettadrangur sem minnir á risavaxna höggmynd af skepnu einni mikilli og er vel þess virði að staldra við og skoða.
Eftir að hafa kastað mæðinni í húsi Orkuveitunnar liggur leiðin norður með Þjófahlaupi eftir dal eða lægð vestan undir Hengli. Allnokkru norðar undir Skeggja er Marardalur. Dalur þessi er umluktur hömrum á alla vegu, gróðursæll og marflatur í botninn eftir framburð lækja úr fjallinu. Í honum er haglendi gott enda notaður til beitar fyrir geldneyti hér áður fyrr. Grjótgarður, sem hlaðinn hefur verið fyrir eina sæmilega útganginn úr honum sunnanverðum, ber vitni um þetta. Gangandi fólki er þó vel fært upp úr honum að norðan.
Þegar kemur norður fyrir Hengil er um tvær leiðir að velja. Önnur liggur norður í Dyradal og um Dyr og Dyraveg hinn forna niður að Nesjavöllum. Ef þessi leið er valin er dagleiðin um 18 km. Hin leiðin beygir til austurs undir Skeggja og liggur í hlíðum Hengils fyrir botni Skeggjadals og Kýrdala, austur af hálendinu. Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út kort um gönguleiðir á Hengilssvæðinu þar sem hægt er að kynna sér þessar leiðir nánar.
Á Nesjavöllum hefur Orkuveita Reykjavíkur reist virkjun til framleiðslu á heitu vatni til hitunar húsa á Reykjavíkursvæðinu og einnig hefur verið hafin raforkuframleiðsla í virkjuninni.
Á Nesjavöllum lýkur stikuðu leiðinni um Reykjaveginn og á korti framkvæmdanefndarinnar um Reykjaveginn, sem gefið hefur verið út, er reiknað með að Reykjavegurinn liggi á milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Hins vegar er freistandi fyrir göngufólk að halda áfram til Þingvalla. Einnig væri gaman að framlengja þessa gönguleið upp á Miðhálendið. Þannig væri hægt að fara upp hjá Skarðsheiði og austur um Hlöðuvelli, sunnan Langjökuls og tengja leiðina Kjalvegi hinum forna um Hveravelli, norður í land. Þaðan væri hægt að fara hvort heldur sem væri niður í Blöndudal í Húnavatnssýslu eða Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls að Laugafelli og annað hvort niður í Austurdal í Skagafirði eða um Vatnahjallaveg niður í Eyjafjörð.
Aðrar leiðir eru og tengdar Reykjaveginum.
Hér að framan hefur Reykjaveginum verið lýst í mjög stuttu máli. Auk þess vona ég að verði stikuð leið yfir Fagradalsfjall, Keili, Núpshlíðarháls og Sveifluháls yfir Brennisteinsfjöll til Bláfjalla eins og minnst er á hér að framan. Ef það er gert verður hægt að fylgja fjallatoppum eftir endilöngum skaganum. Nú þegar er stikuð leið yfir Hengil ef menn vilja halda áfram úr Bláfjöllum og fara yfir hann.
Sjá meira um Reykjaveginn HÉR.
Gunnar H. Hjálmarsson – úr tímaritinu Útivist (utivist.is).