Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili
Í Fjarðarpósturinum 1998 segir m.a.: „Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu„:
„Ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa hluta úr landi Þórustaða virðist hafa farið mjög leynt og kom ráðamönnum í Hafnarfirði verulega á óvart. Einn viðmælanda Fjarðarpóstsins orðaði það svo að menn hefðu komið af fjöllum eða Keili, sem mun fylgja í kaupunum.
Bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson, var nýkomin til landsins á þriðjudagskvöld þegar vinnslu blaðsins var að ljúka og hafði því ekki heyrt fréttirnar. Magnúsi komu þessi landakaup á óvart, þar sem hann hefði nýlega átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra um málefni Jarðgufufélagsins. Magnús sagði að á þeim fundi hefði ekki verið minnst á þessi landakaup sem óneitanlega snertu málefni Jarðgufufélagsins þar sem umrædd spilda nær inn á háhitasvæðið í Trölladyngju.
Landeigendur hefðu sér vitanlega ekki boðið Hafnarfjarðabæ landið til sölu. Magnús sagði þessi landakaup snerti ekki beint hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar þar sem Þórustaðir væru utan lögsögu bæjarins. Hins vegar mætti líta svo á að vilji ráðamanna Reykjavíkurborgar til samstarfs við þá sem land eiga að háhitasvæðinu þ.m.t. Hafnarfjarðabæjar sé undirstrikuð með þessum kaupum.
„Það er því ljóst að viðræður um nýtingu á þessu sameiginlega háhitasvæði hljóta að vera í augsýn“ sagði Magnús.
Blaðið hafði einnig samband við Eyjólf Sæmundsson sem hefur áður lagt til bærinn keypti lönd sunnan Hafnarfjarðar til þess að tryggja sér þau jarðhitasvæði sem tengjast Trölladyngjusvæðinu, til að byrja með Hvassahraun og Vatnsleysujarðirnar. Eyjólfur hefur verið formaður viðræðunefndar Jarðgufufélagsins um landakaup. „Þetta kemur mér óvart“, sagði Eyjólfur „þar sem ekkert hefur verið um þetta fjallað á þeim vetvangi sem Hafnarfjörður og Reykjavík hafa skapað til samstarfs um nýtingu á jarðhita á þessu svæði.
Ég sé þó ekki að þessi landakaup spilli neitt fyrir því samstarfi, þó vissulega hefði mér fundist eðlilegt að samráð hefði verið milli sveitarfélaganna um þessi mál.“
Í Morgunblaðinu 1998 er grein; „Keili heim“:
„Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja efna til mótmælagöngu í dag, fimmtudag, við fjallið Keili á Reykjanesi. Nemendur og kennarar vi]ja með göngunni vekja athygli á því að þeir vilja fá Keili heim!
„Það er í umræðunni að selja Keili til Reykjavíkur og því viljum við mótmæla. Keilir er Suðurnesjabúi og við viljum alls ekki að hann fari. Keilir er aðalfjallið okkar hér á Suðurnesjum og við viljum ekki að hann verði ein af blokkunum í Reykjavík. Hvert eitt og einasta Suðurnesjabarn hefur alltaf álitið að hinir einu sönnu jólasveinar búi í Keili. Hver í ósköpunum ætlar að vera svo vondur að eyðileggja jólastemmningu Suðurnesjabarna og flytja jólasveinana til Reykjavíkur?“ segir Viktoría Ósk Almarsdóttir, ritari nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Farið verður með langferðabíl frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja að Keili um klukkan 10 í dag og stendur gangan til klukkan 14. Við Keili munu þátttakendur mótmælagöngunnar sýna tilfinningar sínar í garð Keilis, og þeir sem vilja geta gengið á hann. „Sumir munu klappa og kyssa Keili en aðrir munu flytja ræður og ýmsan áróður,“ segir Viktoría, sem er um þessar mundir að vekja athygli á málstað Suðurnesjabúa í Keilismálinu.“
Í Fréttablaðinu 2020 segir af Keili; „Fagurt fjall sem er fella“, grein eftir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson:
„Í þýskumælandi löndum og þá sérstaklega í Ölpunum er gjarnan talað um bæjar- eða borgarfjall (Hausberg), sem flestir í Reykjavík myndu telja vera Esjuna. Annað fjall sem ekki er síður í uppáhaldi borgarbúa er Keilir á Reykjanesskaga. Hann blasir við suður af Reykjavík og sést til dæmis vel þegar keyrt er eftir Suðurgötu út í Skerjafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er Keilir formfagur og 379 m hátt fjallið gnæfir upp úr umhverfi sínu á miðju Reykjanesi.
Orðið keila kemur víða fyrir í íslensku máli. Þannig eru keilulaga eldfjöll sem gjósa endurtekið eins og til dæmis Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull, kölluð eldkeilur. Keilir er ekki slík eldkeila, heldur myndaðist hann við stakt gos undir ísaldarjökli og er gerður úr móbergi. Í stærðfræði er keila notað yfir þrívítt form og rúmmál hennar táknað með R=1/3*?*h*r^2. Í augnbotni kallast taugafrumur sem skynja liti í miðgróf sjónhimnu keilur og fisktegundin keila hefur löngum verið veidd við Ísland og þykir herramannsmatur. Loks er keila vinsæl íþrótt, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig hér á landi. Þá er reynt að skjóta niður 10 keilur með kúlu og eru tvö skot í hverri umferð. Ef tekst að fella allar keilurnar í fyrsta skoti kallast það fella en feykja ef það næst í tveimur skotum.
Allir sem gengið hafa á Keili geta vottað að hann er sannkölluð fjallafella og umhverfi hans sömuleiðis. Þetta er auðveld ganga en að vetri til er skynsamlegt að taka með mannbrodda og ísöxi. Aðeins tekur hálftíma að aka að gönguleiðinni við Höskuldsvelli og er fylgt ójöfnum malarslóða frá Vatns[leysu]strandarvegi. Frá bílastæðinu tekur um það bil 45 mínútur að ganga að fjallinu og hálftíma upp fjallið.
Efst eru brekkur lausar í sér en útsýnið af hátindinum er frábært, til dæmis yfir höfuðborgarsvæðið, eldbrunninn Reykjanesskaga, Esju, Móskarðshnjúka og Hengilssvæðið. Þegar haldið er heim er hægt að stefna beint í austur yfir falleg mosagróin hraun og komast eftir kindagötum aftur að bílastæðinu. Skammt frá eru spennandi fjöll eins og Trölladyngja en einnig Spákonuvatn og litríkt hverasvæði Soganna, og auðvelt að kíkja nánar á þær perlur í sömu ferð.“
Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.1966, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 16-17.
-Fjarðarpósturinn, 29. tbl. 07.09.1998, Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu, bls. 1.
-Morgunblaðið, 216. tbl. 24.09.1998, Keili heim, bls. 14.
-Fréttablaðið, 261. tbl. 10.12.2020, Fagurt fjall sem er fella, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.