Rúið í Krýsuvík – Loftur Jónsson

Krýsuvík

Í samtali við Loft Jónsson í Grindavík bar margt skemmtilegt á góða:
Loftur-21„Ég var að lesa frásögn í “Ferlir” um “Braggann á Krýsuvíkurheiði”. Þetta vekur upp ýmsar minningar frá æsku. Eins og þú veist þá ólst ég upp í Garðbæ og þar rétt við túnfótinn lá vegurinn til Krýsuvikur. Í seinni heimsstyrjöldinni, eftir að Amerikanar tóku við hersetu á Íslandi, þá önnuðust þeir stöðvar eins og á Þorbirni og í Krýsuvík. Á hverjum degi fóru fram vistaflutningar til og mannaskipti í Krýsuvík. Þessir ungu menn frá USA voru ýmsu öðru betra vanir en íslenskum vegum. Allavega, þegar maður skoðar gamla Krýsuvíkurveginn í dag þá hlýtur þetta að hafa verið mikill torfæruakstur.
Þessar sendingar áttu sér stað á sama tíma alla daga.  Og svo þegar bíllinn birtist á Vestara-Leiti þá tóku allir pollarnir á efri bæjunum sprettinn upp á veg í veg fyrir hann. Dátarnir voru mjög gjalfmildir og oftar en ekki fengum við hátt í vasana af alls konar sælgæti eða ávöxtum. Ingi í Búðum (Ingimar Magnússon) var okkar elstur og séðastur (en kannske ekki gáfaðastur). Hann betlaði af mömmu sinni daglega mjólk á þriggja pela flösku sem hann rétti síðan til hermannanna. Þeim virtist líka þetta vel því þeir skiptu mjólkinni bróðurlega á milli sín og Ingi fékk þar af leiðandi mikið meira í vasana en aðrir.

Baejarfellsrett-201Þar sem segir af Magnúsi Ólafssyni er sagt að Stóri-Nýibæ hafi farið í eyði 1938. Ég hef aðra sögu að segja. Fyrir fjárskipti í Grindavík, sem voru að ég held 1950, var ég í tvígang við réttir að vori í Krýsuvík þegar smalað var til rúnings þótt ég hafi ekki smalað vegna aldurs. Það var alltaf tjaldað við lækinn austan við kirkjuna og þá austan við lækinn við torfvegginn sem þar er. Réttað var í rétt suð-austan við Bæjarfellið. Mér er margt minnisstætt frá þessum dögum t.d. hverning karlarnir báru sig að við rúninginn, mörkun og geldingu á vorlömbunum. Í þá daga þekktist ekki annað en ketilkaffi í tjöldunum og eitt sinn er hitað var vatn í katlinum til kaffilögunar, þá setti Jón í Efralandi vasahnífinn sinn ofan í ketilinn.
Karlarnir spurðu undrandi hvað þetta ætti að þýða. Og Jón Krysuvikurkirkja 1940-21svaraði með mestu ró: “Ég ætla bara að sótthreinsa hnífinn minn. Ég skar afurfótahaft af rollu í dag og það var svolítið farið að grafa í henni”. Það hafði enginn lyst á kaffidrykkju í það sinn.
Eitt sinn var ég sendur upp í kirkju til Manga (Magnús Ólafsson) til þess að fá nál og tvinna, einhver hafði mist tölu af buxunum sínum. Ég man eins og það hefði verið í gær hverning allt var innanstokks hjá honum. Tíkin á strigapoka fram við dyr, rúmfletið í suð-austur horninu við altarið og einhver eldavél hinu megin.
En aftur að Nýja-Bæ. Einn dag vorum við Daddi í Ásgarði (Dagbjartur Einarsson), sem er tveimur árum eldri en ég, sendir upp að Stóra-Nýjabæ til að kaupa mjólk á þriggja pela flösku til notkunar í kaffi. Okkur var boðið inn í baðstofu og spurðir frétta.  Að sjálfsögðu hafði Daddi orðið þar sem hann var eldri en ég.  Og við fengum mjólk á flöskuna. Þannig að þá hefur Guðmundur í Stóra-Nýjabæ verið með kýr þarna og hann var með konu sína og dætur. Ég hef verið ca. 10-11 ára þegar þetta var.
Þetta er bara sett fram til fróðleiks og gamans en ekki til færslu í annála. – Kveðja, L.J.“

Krýsuvík

Krýsuvík.