Sandfellshæð – gígur við Lágafell
Hér er ætlunin að geta tveggja merkilegra jarðfræðifyrirbrigða skammt vestan Eldvarpa ofan við Grindavík. Annað er Sandfellshæðargígurinn og hitt er gígurinn austan við Lágafell sunnan Þórðarfells. Hvorutveggja eru verðug skoðunnar, enda aðgengileg þeim er áhuga hafa.
Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti á Reykjanes-skaganum, líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun, sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum, oft með alldjúpum sprungum í kollinum. Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp.
Yst á skaganum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta er fyrrnefnd Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli. Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri.
Nokkrar minni dyngjur er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu og Skálafell enn utar á Reykjanesi.
Sprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun. Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið.
Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3. Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann 1151.
Reykjanes er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Flest sjávargos á sögulegum tíma hafa verið undan Reykjanesi. Stórbrotin jarðfræði, meðal annars gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjarbunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Óvíða annars staðar en á Reykjanestá má sjá eins glögg merki gliðnunar Mið-Atlantshafshryggjarins.
Umhverfisstofnun hefur bent á að Reykjanesið, þ.m.t. framkvæmdasvæði Hitaveitu Suðurnesja, hefur lengi verið á Náttúruminjaskrá eða allt frá árinu 1981. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er enn í Eldvörpum.
Stapafell, Sandfell, Súlur og Þórðarfell (allt nálæg fjöll) myndaðust undir ís eða í sjó. Í þeim er mikið bólstraberg. Ástæður fyrir myndun bólstrabergs eru lítt kannaðar en talið er, að mismunur hitastigs hrauns og vatns og þrýstingur í vatninu hafi áhrif á myndun þess. Sprungur liggja víða á svæðinu, m.a. í gegnum Stapafell. Búið er að fjarlægja slatta af fjallinu til mannvirkjagerðar, m.a. Keflavíkurflugvallar.
Rauðamelur er fyrrum sjávargrandi, sem liggur austur úr Stapafelli, myndaður úr efni úr fellinu. Hann varð til við hærri sjávarstöðu, þegar sjór braut úr því. Síðan flæddu hraun. Þau eru úr Sandfellshæðinni.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Haugsvörðugjá er ein gjánna skammt vestan Sandfellshæðar. Uppi á bakkanum vestan megin gjárinnar eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára. Hóllinn er nú í mosagrónu apalhrauni. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk þó á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum. Allt þetta má enn sjá með opnum augum á réttum stað.
Gígurinn austan Lágafells er dæmi um einstakt eldvarp. Frá honum liggur tilkomumikil hrauntröð, eins sú fallegasta á landinu – og er þá mikið sagt.
Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.
-Ægir Sigurðsson.