Sandgerðisviti
Fyrstu hafnarframkvæmdir í Sandgerðisvík hófust árið 1907 á vegum Ísland-Færeyjarfélagsins, sama ár kom fyrsti vélbáturinn sem gerður var út frá Suðurnesjum, sá hét Gammur RE 107 og var gerður út frá Sandgerði.
Árið 1914 hófu þrír menn frá Akranesi útgerð í Sandgerði, þeir Haraldur Böðvarsson, Þórður Ásmundarson og Loftur Loftsson. Innsiglingarviti var byggður árið 1916 fyrir Sandgerðishöfn, timburhús á steinsteyptri undirstöðu. Á gólfi ljóshússins var borð og á því tveir steinolíulampar með holspeglum. Árið 1921 var byggður innsiglingarviti úr steinsteypu í stað þess gamla.
Sandgerðisviti var byggður við enda fiskverkunarhúss Haralds Böðvarssonar, til að leiða skip til Sandgerðishafnar um hið þrönga Hamarssund. Byggður var 9 metra hár turn og á hann var sett ljóshús úr plötujárni sem logsoðið var saman á járnsmíðaverkstæði ríkisins og á það var sett linsa og gasljóstæki.
Sandgerðisviti var hækkaður frá steinsteypta handriðinu á upphaflega vitanum um 10 m árið 1945, en sama ljóshús og búnaður notaður áfram.
Raflýsing var sett í vitann 1949 og ný linsa árið 1965.
Vitinn var hvítur allt til ársins 1961 en þá var hann málaður gulur.
Árið 1983 fékk Sandgerðishöfn vitan afhentan til eignar og reksturs.










