Seljadalssel
Nú er ljóst að Seljadalur rís undir nafni. Áður fékkst einungis tilvist einnar seltóftar staðfest í dalnum, Nessels við Nesselslæk ofan við Innri-Seljadal. Fyrir skömmu skoðaði FERLIR Nærsel ofan Árnesgils norðan Seljadalsár í Fremri-Seljadal. Tvær aðrar tóftir á því svæði eru nú til skoðunnar.
Af loftmyndum að dæma virtist móta fyrir tóftum á tveimur öðrum stöðum í Innri-Seljadal, norðan Seljadalsáar, auk þess sem vísbending hafði borist um aðra þeirra. Ætlunin var að reyna að staðsetja þær og skoða. Ekki er með öllu útilokað að þar kynnu að leynast enn fleiri sel, enda Seljadalsnafnið í fleirtölu.
Á leiðinni upp með Seljadalsánni, austan Þormóðsdals, eru fallegar skemmtilegar rústir, risastór fjárborg, mjög jarðlæg og rétt vestan við hana stórt sauðahús með einskonar gerði fyrir framan og svo hlöðu aftan við. Allt er þetta hlaðið úr torfi. Þetta gæti verið sama sauðahúsið og talað er um í örnefnalýsingunni um Þormóðsdal, sem Tryggvi frá Miðdal skráði; „og þá rennur um gilið Árneslækur“. Ef þetta er rétt túlkað er skilti, er geymir loftmynd af svæðinu niður við gatnamót Hafravatnsvegar og Þormóðsdalsvegar algjör della. Mjög falleg mosagróin varða, hlaðin úr þunnum steinflögum, stendur á holti rétt við línuna, sem þarna liggur. Tryggvi talar um Innri-Seljadal og gæti sá legið fyrir innan Kambhól því þar koma aðeins þrengsli í dalinn.
Kíkt var á Nærselið á vallendistungu nokkru austan við Árnesgilslæk. Lítill lækur rennur úr grunnu gili ofan við tóftirnar. Þá var haldið áfram til austurs inn að Kambhól og litið á Kambs(hóls)réttina áður en stefnan var tekin í svo til miðjan norðanverðan Innri-Seljadal.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt að mýrarbrú, sem liggur þarna nokkurn spotta beint yfir mýrina. Hann er nú aflagður, enda gatan verið færð ofar á trébrú. Skammt austan hennar var stefnan tekin til norður upp í gróið afhallandi sléttlendi með lágum bakka að austanverðu. Þar undir bakkanum kúrir títil tóft með tveimur rýmum. Stærra rýmið, er hefur dyr mót vestri, hefur verið ca. 120×160 cm að innanmáli. Hitt er norðan hennar og snúa dyr mót norðri. Það hefur verið enn minna, ca. 60×80 cm. Norðan við tóftina virðist vera ferköntuð afmörkun, líkt og garður. Þetta gæti hafa verið sel og þá notað til skjóls og/eða geymslu. Hrístaka hefur verið þarna, sem og mótaka.
Skammt austan við þessa tóft er gróinn hvammur. Í honum miðjum er þúfóttur hóll. Uppspretta er norðan við hann undir grasbakkanum og rennur lítill lækur niður með hólnum að vestanverðu.
Ekki sést móta fyrir veggjum eða hleðslum í hólnum, en hann sker sig úr öðru, sem þarna er. Ekki er með öllu útilokað að þar kynna að hafa verið hús, en ef svo er þá er það mjög fornt. Handan við ás ofan við tóftina er Nessel, undir grónum hól í grónum dal, í skjóli fyrir austanáttinni.
Tóftirnar eru mjög greinilegar. Í tóftarhólnum eru þrjú rými, eitt stærra en hin. Lækir renna hjá selinu, bæði að sunnanverðu og vestanverðu. Sameinast þeir í Nesselslækinn sunnar. Þegar svæðið var gaumgæft betur en áður hefur verið gert, komu í ljós tvö önnur mannvirki, að mestu jarðlæg. Sunnan við selið mótar fyrir hringlaga gerði. Annað svipað er skammt suðvestar. Vel má sjá lögunina, en erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þessi mannvirki hafa þjónað. Giskað er þó á að það, sem er nær selinu, hafi verið stekkur, en það sem er fjær, hafi verið fjárborg eða nátthagi. Það gæti einnig hafa verið stekkur eða rétt.
Í bakaleiðinni var gengið fram á nokkur lóuhreiður.
Frábært veður – stafalogn og hlýindi. Fuglasöngur mófuglanna fyllti loftið og svanir sveimuðu tignarlega yfir ánni. Gangan tók 2 klst og 2 mín.