Seljadalur – Nærsel

Nærsel

Að minnsta kosti – og einungis – eitt sel, Nessel, er (var) þekkt í Seljadal. En af hverju er þá um fleirtöluorð á dalnum að ræða? Ætti ekki dalurinn þá að heita Seldalur eða Seljardalur, sbr. Selfjall, Selvatn, Selbrekkur eða Seltjörn (Selvatn)!!?? (Margar spurningar hljóta að vakna).

Nærsel

Nærsel.

Nessel er sagt norðan í Seljadal. Það er ofarlega í fallega grónum þverdal, við værukæra lækjarsitru, austarlega í honum norðanverðum, undir suðurbúnum Grímarsfells. Selið er bæði myndarlegt og dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Hins vegar virðist það ekki nægilega umkomumikið og ætlast væri af seli af slíkum „stofni“, þ.e. frá stórbýli á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað má ekki véfengja ábendingar fróðra manna um selstöðuna, en í örnefnaskrám segir einungis (og ótilgreint) að Nes hafi haft í seli í Seljadal. En Seljadalurinn er langur, og auk þess er hans jafnan getið í FLEIRTÖLU, eins og hér verður nánar lýst á eftir.
En hvaða sjálfsagða vísbendingu ætti bæði langur og gróinn dalur, í landnámi Ingólfs – með heila á rennandi um sig miðja og ótal læki allt um kring – að gefa? Hvar voru sérfræðingarnir – og hvar er áhuginn??
Hafa ber í huga að áhugi sérfræðinganna liggur jafnan, og eðlilega, í verkefnum er geta gefið eitthvert „lífsviðurværi“ af sér. Annað, og allt umfram, er áhugafólksins. Afrakstur þess er þó jafnan vanmetinn – ekki síst af sérfræðingunum. En nóg um það í bili.

Nærsel

Nærsel.

Eftir nákvæma skoðun loftmynda af svæðinu vöknuðu grunsemdir um að dalurinn geymdi fleiri sel, bæði í honum suðaustanverðum (á eftir að gaumgæfa betur) sem og miðsvæðis í honum – og er þá Kambsréttin undanskilin. FERLIR hafði áður skoðað Nesselið fyrrnefnda, Kambsréttina og fleiri minjar í ofanverðum SELJADAL. En eitthvað stemmdi ekki alveg við heildarmynd þess tíma, sem um hefur verið fjallað, hvort sem um var að ræða staðsetningu eða stærð. Nesselið er óneitanlega á fallegum, en vandfundnum, stað og æði myndrænt, en samt…
Á leiðinni upp í Seljadal var rætt við húsmóðurina í Þormóðsdal. Þar er nú járnkætt timburhús, greinilega með nýrri viðbætum. Hún sagði eldra húsið hafa verið byggt um 1932. Nafnið Þormóðsdalur næði einungis yfir bæinn og jörðina, en dalurinn allt frá ofanverðu Illagili sunnan í Grímarsfelli, um hið hrikalega Hrafnagil, sléttlendi milli ása, um Kambshól og niður að Hafravatni norðan og vestan Búrfells hafi ávallt allur verið nefndur Seljadalur, enda áin, sem rennur um dalinn, einatt nefnd Seljadalsá (fleirtala+eintala) – alla leiðina.

Nærsel

Nærsel.

Ávallt hafi verið talið að á Þormóðsdalur hafi verið forn jörð og að þar hafi búið einn landnámsmanna. Þormóðsleiði er einn vottur um það [en það er eitt af verkefnum FERLIRs á næstunni að staðsetja það]. Enn vöknuðu spurningar: Hvers vegna er dalurinn í heild nefndur í eintölu þrátt fyrir að um fleiri dali virðist um að ræða? Var hér um að ræða eina af þessum dæmigerðu nafnabreglum er verða jafnan og óhjákvæmilega í gegnum langa tíð (og umbreytingar)?

Húsmóðirin sagði að tóftir hafi áður verið bæði austan við húsið og ofan við það. Hinar síðarnefndu sjást enn. Þegar grafið var fyrir viðbyggingunni austan við húsið fyrir nokkrum árum hafi verið komið niður á ýmislegt fornfálegt. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi verið um að ræða leifar enn eldri bæjar. Ekki er hins vegar með vissu vitað hvar bær Þormóðs hafi verið, en hann gæti hafa verið þarna eða skammt austar, handan gilsins, sem þar er. Tóftir sjást þar enn, en ekki væri vitað til þess að þær hafi verið rannsakaðar sérstaklega, ekki frekar en hugsanlegt bæjarstæði við núverandi íbúðarhús.

Nærsel

Nærsel – loftmynd.

Aðspurð um mögulegar tóftir upp með Seljadalsánni, norðan Silungatjarnar, sagðist húsmóðirin oft hafa gengið upp með ánni, en aldrei orðið vör við slíkar tóftir á þeim stað, sem tilnefndur var. Einu tóftirnar, sem hún kannaðist við, væru hleðslur undir Kambhól og rústir ofarlega í Seljadal [Nessel].
Áður en lagt var af stað höfðu grunsemdirnar verið bornar undir Bjarka Bjarnason, þann er líklega veit manna mest um fyrrum mannanna verk í Mosfellsdal og nágrenni. Hann kannaðist ekki við rústirnar, en taldi þó að þarna einhvers staðar hafði áður verið eitthvert ónefnt kot. Vitað er um rústir Búrfellskots sunnan undir Búrfelli. Auk þess mótar fyrir rústum (mögulegu kotbýli) á sléttu, skurðgröfnu (framræstu) túni allnokkru vestan við meintar rústir (svona mitt á milli Þormóðsdals og þeirra).
Og þá var bara að leggja í lokaáfangann að hinum meintu rústum.

Nærsel

Nærsel.

Á litlum grónum „bleðli“ norðan Seljadalsár (austan við austasta sumarbústaðinn norðan Silungatjarnar, en sunnan Seljadalsár) mótaði fyrir tóftum. Settir höfðu verið girðingastaurar á „bleðilinn“ og hestum greinilega verið beitt á hann um tíma – sem og í tóftirnar báðar. Girðingarstrengir höfðu þó verið fjarlægðir, sem og bikkjurnar. Hið jákvæða var samt sem áður það að bletturinn var nú mun grænni en umhverfið og tóftirnar því greinilegri (og auðveldari til myndatöku). Eflaust hafa þær löngum átt auðvelt með að dyljast þarna á barðinu án nýlegs ágangs.
Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
Neðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.

Nærsel

Nærsel.

Nú var úr svolitlum vanda að velja. Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft „selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft „dagslættir í Viðey“. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða. Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): “ Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….“

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá “fjærsel“? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selsrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu.
Af varfærnislegum ástæðum er niðurstaðan sú að hugsanlega hafi þarna verið um kot að ræða – EN það hafi þá vaxið upp úr fyrrum selstöðu. Hvaðan sú selstaða hefur verið er erfitt um að segja á þessari stundu, en eitt er víst – að Seljadalurinn rís nú loksins undir nafni.
Hafa ber í huga að vangaveltur FERLIRs eru og verða einungis dregnar út frá sýnilegum minjum, sem og útliti þeirra, eins og þær birtast augum sjáandans á vettvangi nútímans – dagsins í dag. Örnefnalýsingar geta hugsanlega staðfest þær, eða jafnvel kveðið á um eitthvað allt annað – fyrrum. Hafa ber þó í huga að áætluð heiti eða staðsetningar örnefna eða rústa geta (og hafa) hnikast til í gegnum tíðina (eins og dæmin sanna) og þannig smám saman orðið aðrar en þær voru.
Rétt er þó jafnan að byggja á fyrirliggjandi bestu og áreiðanlegustu upplýsingum á hverjum tíma, treysta hæfileikum skrásetjarans og vona að þar hafi allt verið eins og best verður á kosið – þá og þegar.
Frábært veður – rigning umhverfis, en himininn opnaði sig með bjartviðri yfir rústasvæðinu. Blómstur