Selsbúskapur í Austara-Seli
Þegar reyna á að lýsa selsbúskap, eins sjálfsagður og hann þótti, allt frá landnámi fram undir aldamótin 1900, þarf að öllu jöfnu að fara í heimildir út fyrir Reykjanesskagann til að fá upplýsingar um þennan þátt búskaparháttanna. Í nokkrum heimildum er sagt (svona nokkurn veginn) frá staðsetningu selja á landssvæðinu og hvaða bæjum selstaðan tilheyrði, s.s. í jarðabókum og sóknarlýsingum, en ekki er sagt frá því hvað var gert í seli eða til hvers þau voru brúkuð. Að vísu eru til almennar lýsingar á slíku, t.d. í skrifum Daniel Bruun, en þær eru ekki sérstaklega um selsbúskap á Reykjanesskaganum. Þá er á öðrum FERLIRssíðum fjallað um gamlar lýsingar á selsbúskap á Vestfjörðum og við Eyjafjörð. Ætla má að selbúskapur á hraunssvæði Reykjanesskagans hafi verið að sumu leyti sérstakur og jafnvel að nokkru frábrugðinn því sem gerst hefur annars staðar á landinu. Í bók Ólafs Jónssonar, Ódáðahraun III, sem gefin var úr árið 1945, segir hann frá seltilhögun í Austara-Seli í Mývatnssveit:
„Á öræfunum austur af Mývatni er ekki kunnugt um neina forna byggð. Sel hafa þó verið þar á nokkrum stöðum, og munu þau aðallega hafa verið frá Reykjahlíð. Eitt þessara selja, Skarðssel, var við lýði fram undir síðutsu aldamót.
Um 1860 er byggt upp á tveimur af þessum gömlu seljum, og hafin þar föst búseta, sem stóð í nokkur ár. Þótt saga þessara býla sé ekki löng, er hún þó merkilegur vottur um landnámshug og sjálfstæðisþrá þeirra, sem þar byggðu og bjuggu í einangrun, við auman húskost og lítil efni. Skal nú reynt að rekja hér það, sem ég hefi getað til tínt, um búskap á býlum þessum.
Austara-Sel er í heiðinni suður af Jörundi, rétt norðan við veginn milli Grímstaða á Fjöllum og Reykjahlíðar, og eru röskir 10 km. frá Reykjahlíð þangað austur. Selið hefur staðið við vatnsmikla lind, sem sprettur upp þarna í heiðinni, og eru lyngi vaxnar heiðar all umhverfis [mynnir á selin í Seljadal. Síðar var þessi lind notuð til „vatnslandnáms“ í sveitinni – „Austaraselssprings“ upp á útlensku og ritaðar um hana lærðar greinar á engelsaxnesku].
Þarna mun hafa verið haft í seli frá Reykjahlíð fram yfir miðja 19. öld. Guðrún Björnsdóttir í Duluth í Ameríku getur þess í endurminningum sínum, að þá er hún var vinnukona í Reykjahlíð, um eða laust eftir 1852, var búsmali hafður í Austara-Seli einn mánuð á sumrin, og var þá samtímis heyjað á Skarðsseli.
Guðrún og önnur vinnukona voru í selinu, mjólkuðu og unnu milli mjalta að heyskap á Skarðsseli. Fóru þær ríðandi á milli. Dætur Péturs bónda í Reykjahlíð voru til skiptis í selinu og sáu um búverkin. Auk ánna voru tíu geitur hafðar í selinu. Skeknir voru fjórir strokkar dag hvern og gert skyr, en eldiviður var ekki annar en hrís, sem vinnukonurnar rifu þar í heiðinni og báru heim. Smalaranir voru tveir. Gætti annar búsmalans á daginn, hinn á nóttunni. Skyr og smjör var sótt tvisvar í viku og reitt heim á þar til gerðum skrínum (Syrpa IV. brls. 174).
Um aldur Austara-Sels verður ekki vitað, en svo sem fyrr getur (II B, bls. 131), voru það tvær selráðskonur frá Austara-Seli, er fundu lík pilts þess, er hvarf frá Reykjahlíð árið 1729, og vel má vera, að selið hafi verið reist þarna snemma á öldum.
Fyrstu ábúandi á Austara-Seli er Jón nokkur Jónsson, er nefndur var „gæzka“, en orðtak hans mun hafa verið „gæzkan mín“… laust eftir 1860…
Ekki veit ég, hvort Jón hefur byggt upp Austara-Sel, en sennilegra er, að selhúsin hafi verið uppi standandi, er hann flytur þangað og nothæf með einhverjum endurbótum. Smátt mun búhokrið hafa verið, en þó keyrði fyrst um þverbak, þegar hinni litli bústofn féll eða misfórst, en fardagaárið 1866-1887 missti Jón 12 ær, 20 gemlinga og 10 unglömb…. Jón flyst frá selinu með fjölskyldu sína vorið 1870.“
Fá dæmi eru um sel á Reykjanesskaganum er byggðust upp í fasta búsetu, þ.e. á Vigdísarvöllum og í Straumsseli, en víða hefur hokrið síst verið minna en að framan er lýst í Austara-Seli í Mývatnssveit skömmu eftir miðja 19. öld.
Forvitnilegt verður að bera saman gerð selja á Reykjanesskaganum og annars staðar á landinu, aldur þeirra og notkun frá einum tíma til annars.
Heimild:
-Ólafur Jónsson, Ódáðarhraun III, 1945, bls. 148-149.