Selsleið – Gjáarrétt

Vífilsstaðasel

Hér verður lýst fjórum leiðum í Gjáarrétt, sem er neðst í Búrfellsgjá. Leiðirnar eru: Selsleið, Hlíðarleið, Hjallaleið og Kolhólaleið. Upplýsingarnar eru úr bókinni Áfangar, ferðabók hestamannsins (1986).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Hafa ber í huga að framangreindar götur hafa og verið nefndar öðrum nöfnum, bæði að hluta og í heild. Áður en farið er í tilvitnaða frásögn má hér sjá aðrar lýsingar, sem skýrast síðar.
„Austan [Reykjanes]brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt. Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Jónshellar

Jónshellar.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.“
Í enn annarri lýsingu segir um þessar götur við Gjáarrétt: „Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjórða gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá…“

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selsleiðinni er lýst á eftirfarandi hátt (úrdráttur): „Við hefjum ferð okkar í hesthúsahverfi Gusts í landi Smárahvamms í Kópavogi. Leið okkar liggur um Hnoðraholt. Holtið dregur nafn af Hnoðranum, en það er talsvert áberandi fuglaþúfa á holtinu norðvestanverðu þar sem það er einna hæst. Hnoðrann ber við loft og sést vel, þegar horft er til austurs úr hesthúsahverfinu sunnanverðu. Alveg við Hnoðrann eru fallegar, jökulnúnar grágrýtisklappir.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Þegar gatan er riðin upp úr hverfinu, verður fyrst fyrir á hægri hönd landspilda í brekku. Þar fyrir sunnan er Vífilsstaðaland. Landamerkjalínan milli Fífuhvamms (Smárahvamms) og Vífilsstaða var dregin frá Hnoðranum í svonefnt Norðlingavað í Arnarneslæk. Ofan við húsaþyrpinguna og sunnanvert í holtinu er steinsteypt vélbyssuvígi frá árum síðari heimstyrjaldar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir /Finnsstekkur.

Reiðgatan (Selsleið) sveigir nú til austurs eftir holtinu. Á hægri hönd fyrir neðan okkur eru mikil tún frá Vífilsstöðum. Þetta er svokölluð Vetrarmýri. Áður en berklahælið (hvítmálaður spítalinn blasir við augum) var reist á Vífilsstöðum var þar í raun og veru aðeins kotbýli. Hornsteinninn að Vífilsstaðahæli var lagður 31. maí 1909 og fyrsti sjúklingurinn flutti þangað inn 5. september 1910. Bygging hælisins gekk með ólíkindum vel, þótt unnið væri að þeirrar tíðar hætti. Möl og annað byggingarefni var til dæmis flutt á hestvögnum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Vetrarmýri var ótrúlega blaut. Þar var ekki fært með hesta og illa fært gangandi manni. Ef til vill tekur mýrin nafn sitt af því að hún nýttist skepnum fyrst þegar fraus á vetrum. Arnarneslækur á upptök sín í mýrinni vestast.  Upp úr 1920 var byrjað að handgrafa skurði í mýrinni og þurrka hana. Árið 1922 var landið svo tætt og sléttað með svokölluðum þúfnabana. Voru Vífilsstaðir einn af fyrstu stöðunum þar sem þessi forveri nútíma dráttarvéla var notaður. 

 

Ræktunarframkvæmdir heima við Vífilsstaðahælið hófust fyrr, strax árið 1916 þegar ríkissjóður tók við rekstri hælisins úr höndum áhugamannafélags þess, er hælið reisti.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þegar mest var voru um eitt hundrað gripir í fjósi á Vífilsstöðum og heyfengur mikið á fjórða þúsund hestburði.
Þar sem reiðgatan milli Vetrarmýrar og Leirdals er lægst heitir Leirdalsop. Framundan er Smalaholt og Vífilsstaðavatn. Þar rétt við bílveginn, neðan undir Smalaholtinu, eru rústir af gömlu býli eða peningshúsum, nema hvort tveggja sé. Á korti heita þetta Finnsstaðir, en engar heimildir þekkjum við um að hér hafi byggð verið. Í Jarðabókinni frá 1703 er Finnsstaða ekki getið. Hugsanlega er að þarna hafi verið stekkur frá Vífilsstöðum.
Þá er komið upp á Vífilsstaðaháls. Þaðan er fagurt að horfa yfir Vífilsstaðavatn. Við það fá Garðbæingar neysluvatn sitt úr borholu. Nefna sumir það Vatnsbotna, en aðrir Dýjakróka.

Selgjá

Selgjá – stekkur.

Við ríðum með Kjóavöllum vestanverðum og stefnum þaðan til suðausturs. Þarna í brekkunni, utan í Sandahlíð og suðvestan Kjóavalla,  verður fyrir okkur steinsteypt mannvirki, greinilega nokkuð gamalt. Þótt mannvirki þetta sé ekki ýkja stórt sjáum við strax að ekki hefur verið spöruð í það steypan. Þegar betur er að gáð má sjá innan við þykka veggim sem skýla innganginum, ofn úr járni, rammbyggilegan eins og aðra hluta þessa mannvirkis. Raunar er þetta mannvirki leifar frá stríðsárunum síðari. Var þetta „prengjuofn“ þar sem var eytt gömlum skotfærum og sprengjum, sem Bandaríkjamenn þurftu að losa sig við.
Þá er haldið upp Básaskarð. Innar er hæðardrag. Á því eru fjárhúsarústir og eru þær frá Vatnsenda. Rústirnar vera þess merki að húsin hafi verið

Vatnsendi

Vatnsendi – fjárhús.

nokkuð stór og myndarleg. Húsunum hefur verið valinn staður nærri mörkum Vífilsstaðalands, en þó tæplega svo að bryti í bága við ákvæði Jónsbókar og yrði fellt undir ágang.
Framundan er allhá hæð með vörðu efst. Hún heitir Arnarbæli. Um hana liggur landamerkjalína Vatnsenda og Vífilsstaða. Grunnavans syðra er neðar. Á Hjallabrún stendur Vatnsendaborg. Sést hún vel af Vatnsásnum, listilega hlaðin. Mjög stórt grjót er í hleðslunni neðst, en borgin er nú því miður að hluta fallin. Dyrnar á borginni vita í norðvestur. Borgin er hringlaga og sem næst sex metrar í þvermál að innan. Meira verður rætt um fjárborg þess í lýsingunni um Hjallaleið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Línuvegur liggur þarna skammt frá. Austan við háspennumastur nr. 29 er grösugur hvammur. Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, sem nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum, líklega svefnhúsi, eldhúsi og mjólkurhúsi. Sunnanvert við aðalrústina eru tvær aðrar rústir, ef til vill kvíar og stöðull. Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er einir fimmtíu fermetrar að utanmáli. Víðistaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703, þótt undarlegt megi virðast.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Að þessu seli eins og öðrum hefur legið gata, selgata. Okkur sýnist að með góðum vilja megi fylgja selgötunni í austanverðri Vífilsstaðahlíð, ofan Grunnavatns nyrðra og niður Grunnavatnsskarð vestanvert.
Til suðurs sést grunn  en breið gjá í hrauninu fyrir neðan. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barna gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.

Selgjá

Selgjá.

Athyglisvert er að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.

Við norðurenda Selgjár er reisuleg varða. Við skulum leggja hana á minnið, því að þar hjá eru gömul og að okkar mati mjög merkileg fjárbyrgi, sem við eigum eftir að huga að síðar, sjá lýsingu á Hlíðarleið.
Framundan er Búrfellsgjá og Gjáarrétt. Við höldum í gerðið og hvílum þar, sjá Kolhólsleið.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.