Seltjarnarnes – minnismerki
Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin á Seltjarnarnesi:
Ásmundur Sveinsson – Trúarbrögðin
Frummynd þessa járnskúlptúrs er frá 1956. Árið 1975 var hún stækkuð og reist á núverandi stað í tilefni 100 ára afmælis Mýrarhúsaskóla.
Ár: 1965/1975.
Efni: járn.
Trúarbrögðin eru frá því skeiði í list Ásmundar (1893-1982) þegar járnið leysti stein og tré af hólmi sem aðal efniviður listamannsins. Jafnframt urðu viðfangsefni hans óhlutbundin, oft sótt í heim tækni og geimvísinda. Í þessu verki notar Ásmundur geómetrísk form og tákn sem vísa til ýmissa trúarbragða og andlegra minna. Hálfmáninn er tákn múhameðstrúar, utan hans stendur kross sem tengist öðrum hlutum verksins með járngeislum. Margs konar þríhyrnd form vísa til heilagrar þrenningar en einnig til viðleitni alls til æðri upphafningar og sameiningar. Hringurinn er tákn eilífðar og einingar. Við fyrstu sýn líkist verkið skipi, með stefni, möstrum og segli. Má skilja það svo að hin ýmsu trúarbrögð og andleg leit mannsins séu á sama fleyi, siglandi hraðbyri inn í framtíð einingar og andlegs þroska.
Minnismerki er staðsett við Kirkjubraut, á holtinu skammt vestan Seltjarnarneskirkju.
Bjarni Pálsson (1719-1779)
Minnisvarði um Bjarna Pálsson landlækni stendur við Nes við Seltjörn á Seltjarnarnesi.
Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi 17. mars 1760 og sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779.
Minnisvarðinn er reistur af Seltjarnarneskaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. september 1979.
Bjarni fæddist að Upsum á Upsaströnd við Dalvík. Foreldrar hans voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi.
Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi við Seltjörn þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi.
Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800.
Minnismerkið, þrír stuðlabergsstandar, er skammt norðan við Nes. Á þeim hæsta, í miðið, er tákn lækna, á þeim til vinstri handar er áletrunin „Reist af Seltjarnarkaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. sept. 1979“ og á þeim til hægri handar er áletrunin „Bjarni Pálsson f:17. maí 1719, d: 8. sept 1779. Skipaður fyrsti landlæknir á íslandi 18. mars 1760. Sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779“.
Björn Jónsson í Nesi (1772-1798)
Fyrsti lyfjafræðingurinn og apótekarinn á Íslandi.
Minnisvarðinn var afhjúpaður 24. september 2021 og stendur í Urtagarði apótekarans við Nes á Seltjarnarnesi, en urtagarðurinn var gerður árið 2010 í minningu Björns Jónssonar, Bjarna Pálssonar landlæknis og Hans Georg Schierbeck, landlæknis með jurtum sem vitað er að apótekarar og lyfjafræðingar notuðu 1763-1834.
Upphaflega er talið að Urtagarðurinn hafi staðið suður af Nesstofu, en nýi garðurinn er suðaustur af Nesstofu og stendur minnisvarðinn í garðinum.
Minnisvarðinn er grágrýtisbjarg með áletruninni „Björn Jónsson, lyfjafræðingur. Apótekari í Nesi 1772-1798“.
Georg Schierbeck (1847-1911)
Í Urtagarðinum er gulmálaður garðbekkur, að baki minnismerkinu um Björn Jonsson í Nesi.. Á honum er áletrun: „Georg Schoerbeck landlæknir, f. 24.02.1847, d. 07.09.1911. Græðandi og heiðursfélagi Garðyrkjufélags Íslands“.
Ankeri
Norðan Norðurstrandar gegnt gatnamótum Sefgarða er ankeri. Á því er skjöldur með eftirfarandi áletrun: „Akkeri við Nýjabæjarvör. Ekki er vitað um uppruna þess akkeris, sem fannst í Súgandafirði um 19160. Akkerið er gjöf Jóns Snæbjörnssonar til Seltjarnarnesbæjar.
Amma Jóns, Bryndís Ó. Guðmundsdóttir f. 20.06.1900, d. 23.06.1966 og afi, Jón Guðmundsson f. 14.031899, d. 27.07.1964 voru síðustu ábúendur Nýjabæjar.
Akkerið stendur hér við Nýjabæjarvör í landi sem áður tilheyrði Nýjabæ“.
Ankeri
Sunnan Suðurstrandar, skammt ofan við Björgunarmiðstöð bæjarins, er ankeri við grágrýtisbjarg. Einhver gömul, ryðbrunnin, áletrun er á ankerinu, en engar aðrar skýringar er þar að finna.
Björn Jónsson (1932-2010)
Björnslundur
Gróðursettur af félögum Rotaryklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfömuðar 2019.
Gróðurlundurinn er í útivistarsvæði norðan við Suðurströnd á Seltjarnarnesi, skammt vestan við íþróttasvæði bæjarsins. Við hann er lítið skilti, sem á stendur: „Björnslundur – Gróðursettur af félögum Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfrömuðar 2019“.
Friðartré
Á útivistarsvæðinu, þar sem Björnslundur er, hefur verið komið fyrir skilti við hálfdauða hríslu. Á því stendur: „Friðartré – Gróðursett 5. júlí 2011. Augnabliks friður getur og mun bjarga heiminum. -Sri Chinmoy stofnandi Friðarhlaupsins (Wold Harmony Run)“.
Nes við Seltjörn
Hér stóð kirkja til ársins 1799.
Minnisvarðinn um kirkju í Nesi við Seltjörn er skammt sunnan Ness.
Rotaryklúbbur Seltjarnarness reisti minnisvarðan.
Heimildir m.a.:
-https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/reykjavik-minn/#selt
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bjarni_P%C3%A1lsson