Sigurður og geirfuglarnir
Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
„Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég var barn“, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, „geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar“.
Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: „Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?“
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.