Silungapollur – Hólmsá – Suðurá – gamlar götur II
Gunnar Ólafsson hafði boðið FERLIR að skoða umhverfi Silungapolls, sem og Hólmsár og Suðurár. Þar má finna gamlar reiðgötur, bæði í gegn um hraunið og einnig götur klappaðar í berg.
Sömuleiðis eru þarna leifar af hlöðnu byrgi sem gæti verið annað tvegga, gamalt, eða hugsanlega frá stríðinu, en þarna í kring voru töluverð umsvif Breta (Geitháls) og var m.a. grafin “skotgröf” við Hólmsána sem nú er að mestu gróin. Einnig má sjá að aðeins eitt vað er á Suðuránni suðuryfir ána allt frá Silungapolli að ármótum, rétt við ármótin og hefur greinilega verið notað. Reiðgötur, mjög skýrar, eru þarna í gegnum hraunið.
Þegar komið var að sumarbústað Gunnars reyndist hann ekki heima. Eftir sem áður var tækifærið notað og umhverfið skoðað. Gengið var upp á Hófleðurshóll norðan við Suðurá, norðvestan Silungapolls. Grágrýtisklappir hólsins eru jökulsorfnar og má greinilega sjá hver stefna jökulsins hafði verið er hann var að hopa á svæðinu fyrir u.þ.b. 11000 árum. Útlit hólsins er einnig ágætt dæmi um það hvernig jökullinn hefur mótað landslagið; knappt mót stefnunni og aflíðandi undan henni.
Norðar eru Suðurhólmar og enn norðar, handan Suðurlandsvegar, er Norðurhólmur. Húsið á Silungapolli, sem hýsti barnaheimili á vegum barnaverndar Reykjavíkurborgar, var rifið á síðusta áratug 20. aldar. Í fréttum RÚV þann 11.02.2007, kl: 18:11, ssagði m.a.: „Íslenska ríkið rak nokkur barnaheimili á 6. og 7. áratugnum og fram á 8. áratug síðustu aldar. Meðal þeirra eru Breiðavík, Unglingaheimili ríkisins, Kumbaravogur og Silungapollur. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að rannsakað verði hvernig aðbúnaði barna var háttað á þessum heimilum en á þeim dvöldu börn oft langdvölum.“
Í MBL 11. sept. 1955, bls. 12, er fjallað um starfrækslu barnaheimila. Einn kaflinn er um barnaheimili rekin af Reykjavíkurborg, m.a. Silungapoll: „Þar er vistheimili fyrir 30 börn á aldrinum 3-7 ára. Dvalardagar þar árið 1954 voru alls 12119. Forstöðukona er frk. Guðrún Hermannsdóttir.“ Þarna er ekki minnst á Elliðahvamm, sem var vistunarheimili skammt frá fyrir sérstaklega erfið börn. Þar voru rimlar fyrir gluggum vistunarrýmanna, en á Silungapolli var hins vegar um opin rými að ræða eftir þeirra tíma tíðaranda og hugsunarhætti um vistanir barna og ástæður þeirra, sem myndu varla þykja boðlegar í dag.
Í gönguleiðatilboði FÍ vegna svonefndra „Lýðveldisgangna“ félagsins segir m.a. (Mbl. 4. mái 1994): „Göngunni lýkur við grágrýtishólinn Höfuðleðurshól hjá Silungapolli, enhúsin sem stóðu þarna og Oddfellowreglan reisti fyrir barnaheimili voru rifin árið 1984.“
Ofan við Silungapoll má enn sjá gamlar götur, bæði fyrrum reiðgötur og einnig götur, sem á köflum hafa verið gerðar vagnfærar. Líklega eru vegabæturnar síðan breski herinn var þar í upphafi Seinni heimstyrjaldarinnar.
Suðaustan við Pollinn, á hæð, eru tóft, sennilega beitarhúss frá Hólmi. Veggir standa grónir og hefur verið gafl á mót norðvestri. Annað slíkt er suðvestan við Silungapoll, álíka stórt, en við það er þó einnig heytóft. Hólmshraunið er á millum. Gata liggur milli húsanna sunnan við Silungapoll. Gengið var eftir henni. Reyndist gatan vel greinileg. Frá vestari tóftinni liggur gata til norðurs, að vaði á Suðurá.
Hið merkilegasta er þó gata klöppuð í hraunið vestan og sunnan við svonefnt Heiðatagl, suðvestan við bugðu á Hólmsá. Þar liggur gatan til vesturs sunnan Ármóta og yfir Ármótakvísl. Vestan hennar er gatan hvað greinilegust. Um er að ræða götumyndun líkt og fjölförnustu götum Reykjanesskagans (Hellisheiði, Skógfellavegur, Sandakravegur, Skipsstígur, Helluhraunsgata). Gatan liggur þarna áleiðis að Hólmi og væntanlega áfram áleiðis til Víkur. Austar er gróið yfir götuna, en hún liggur upp með Hólmsánni áleiðis að Lækjarbotnum og þá væntanlega áfram að Lyklafelli og Hellisskarði ofan við Kolviðarhól.
Allt er þetta hið áhugaverðasta væri, sem eflaust mun verða gaumgæft mun betur síðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.