Sjómerki, innsiglingarvörður, sundmerki og sundvörður
Sjómerki, innsiglingarvörður, sundmerki og sundvörður þóttu ómissandi leiðarmerki sjófarenda fyrr á öldum, langt fram eftir 20. öldinni. Þau voru bæði nýtanlegar til leiðsagnar við landtöku, en ekki síður sem aflamið. Þótt flestir bátar séu nú útbúnir nútíma stafrænum tækjabúnaði má víða á ströndum Reykjanesskagans enn í dag sjá minjar leiðarmerkjanna, sem í fyrstu voru hlaðnar vörður, sumar með brennum á, og síðar með spjöldum og ljósmerkjum. Hér verða tekin nokkur dæmi.
Í Þjóðólfi árið 1889 er fjallað um „Leiðir og lendingar“:
„Hjer með skora jeg á bjargráðanefndir þær, sem nú eru í suður- og vesturamtinu, að senda mjer áreiðanlega og nákvæma lýsing á þeim leiðum og þeim þrautalendingum, sem almenningi þurfa að vera kunnar.
Öll undirmið þurfa að vera sundmerki; súlur eða vörður með trje í, því hæðir, bakkar, garðshorn, bæjarþil og strompar, hólar, hjallar og þvíumlíkt, er ónógt og óljóst flestum, nema heimamönnum.
Ef nokkuð er að athuga við sundalýsingar o.s.frv. í Árnessýslu þarf jeg að að fá athugasemdir um það.
Brjef þessu viðvíkjandi og öðrum bjargráðamálum, óska jeg send mjer á „Geysir“ í Reykjavík fyrir 5. janúar 1890. – P.t. Geysir, 25. nóv. 1889.
0.V. Gíslason.“
Í Ægi árið 1919 er fjallað um „Sjómerki„:
„Eitt af mjög mörgu, er þarf athugunar við, eru sjómerkin hér.
Sjómerkin eru tvennskonar. Á landi: vörður, að einhverju leyti auðkendar, eða sundmerki, sem bera saman, notuð í þröngum siglingaleiðum. Á sjó: baujur með stöng á, með kústi einum eða fleirum. —
Í öðrum löndum eru settar reglur um hvernig sjómerki skuli vera, þannig, að sjófarandi veit um leið og hann sér merki, hvernig hann á að sigla eftir þeim. Ekki eru þessar reglur alþjóðlegar, heldur hefir hvert land oft reglur fyrir sig. Til frekari skýringar þessu, gætum við hugsað okkur reglur, sem væru settar við innsiglingar á hafnir. Bauja með uppbendandi kústi væri höfð stjórnborða. Bauja með tveimur uppstandandi kústum á bakborða. Vörður með rauðri rönd á stjórnborða, með tveimur á bakborða.
Sundmerkin væru lík og gömlu sundmerkin voru, vörður með stöng upp úr, sem á væri þríhyrningar rauðmálaðir og eitt hornið vísar upp, hin til hliðar, o.s.frv. Hér er öllu þessu grautað saman.“
Í Faxa árið 1951 er grein; „Saga slysavarnardeildarinnar „Þorbjörn“ í Grindavík„. Þar er m.a. fjallað um sundmerki:
„Á síðasta missiri má segja, að Grindvíkingar hafi getað haldið tvíheilagt afmæli í Slysavarnasögu byggðarlagsins. Fyrst 2. nóvember s. 1., en þá átti Slysavarnardeildin „Þorbjörn“ tuttugu ára afmæli og svo 24. marz, er tuttugu ár voru liðin frá fyrstu björgun deildarinnar, sem var jafnframt fyrsta björgun með fluglínutækjum hér á landi.
Strax á framhaldsstofnfundinum, sem haldinn var 18. janúar, var hafin barátta fyrir raunhæfum aðgerðum. Úr fundargerð þess fundar er eftirfarandi tekið: „Eiríkur Tómasson talaði um hversu nauðsynlegt það væri að öll sundmerki væru höfð skír og glögg, áleit hann að sundmerkin, sérstaklega hér í hverfi (Járngerðarstaðarhverfi) og Þorkötlustöðum þyrftu töluverðar umbætur, einnig talaði hann um að brimmerkin hér þyrftu að vera gleggri. Einar G. Einarsson, kaupmaður, tók í sama streng og lofaði hann því að gefa kr. 50,00 fyrir efni, ef með þyrfti til að endurbæta með sundmerkin í hverju hverfi, gegn því að menn ynnu verkið endurgjaldslaust. Til að koma þessu verki í framkvæmd kaus fundurinn þessa: Formann Eirík Tómasson, Guðmund Erlendsson, Guðmann Jónsson, Benedikt Benónýsson og Guðstein Einarsson, Dalbæ. Einnig kom fram svo hljóðandi tillaga: „Fundurinn krefst þess að öllum formönnum í Grindavík sé skylt að þekkja öll sundmerki „hér í sveitinni og allar varúðarreglur þar að lútandi“.
Þessar fyrstu ráðstafanir voru f.o.f. gerðar til að auka öryggi þeirra manna, sem daglega þurftu að fara eftir krókóttum leiðum brimsundanna. En í sumum þeirra höfðu tugir manna látið lífið á liðnum öldum. Svo vel hefur tekizt til, að enginn maður hefur farizt á grindvísku sundunum síðan að félagið var stofnað.“
Í Morgunblaðinu árið 1983 er m.a. fjallað um „Vörður„:
„Þótt víðast væri látið nægja að miða af sjó við ýmsa staði í landslaginu, eins og áður er vikið að, urðu margir til að gera sér kennileiti í því skyni og þá einkum vörður. Verður hér getið nokkurra. Varða ein í Þorlákshöfn var beint upp af skerinu Kúlu, vestan við uppsátrin og í hana miðað.
Þegar sundið í Herdísarvík var tekið, átti Sundvörðu eystri, sem var ofangarðs í norður frá Gerðishúsinu, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli.
Í Grindavík hlóðu sjómenn margar vörður til að miða í. Nokkuð langt uppi í heiði var Sigguvarða. Hana var miðað af 26 stöðum, eða öllum grunnmiðunum. —
Stamphólavarða var uppi á hraunbrúninni og framan á henni eins konar tréþil, svo hún yrði gleggri sem mið. — Niðri á sjávarkampinum var Svíravarða og Fiskivörður á Staðarbergi. Einnig var miðið: Látravarða um Sílfell eða um Þorkötlustaðanes. Vörðurnar voru þrjár á háum hól — Strýtuhól.
Miðavarða var í heiðinni upp af Höfnum.
Kolbeinsstaðavarða var rétt fyrir ofan túngarðinn á samnefndum bæ á Miðnesi — og var gamalt sund- og fiskimið.
Í Faxaflóa var miðið Ásvörðuslóð, en þá átti Valahnúka að bera um Austari- og Vestari-Ásvörðu á Ásfjalli fyrir ofan Hafnarfjörð. Önnur varðan stendur enn.“
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Ásvörðu„:
„Skammt suður frá Hafnarfirði er hæð nokkur eða fell, sem Ásfjall heitir. Fjall þetta má að vísu telja til hinna smærri fjalla, þó tekur það yfir nærliggjandi holt og hæðir þar í grend.
Þó fjall þetta láti litið yfir sjer, hefur það þó nokkra þýðingu, og var oftar umtalað en allar aðrar hæðir um þessar slóðir.
Börn og fullorðnir töluðu um Ásfjall sem mesta berjaland í grennd Hafnarfjarðar, á sumrum, en sjómenn kringum sunnan verðan Faxaflóa, sem mið meira og minna allt árið. Á norðurhæð fjallsins var ævaforn grjótvarða. Fram undir síðustu aldamót var hún ekki hærri en 4—5 álnir.
Saga Ásvörðu, eins og umrædd varða var allt af kölluð, er aldagömul saga, sennilega jafngömul sögu áraskipanna við Faxaflóa, eftir að skipin stækkuðu svo að mönnum óx svo fiskur um hrygg, að þeir gátu gert skip sín svo úr vör, að viðlit var að fara á þeim til hinna djúpu fiskimiða. Þegar nú annað tveggja fisk þraut á grunnmiðum, eða hann kom ekki á þau þetta eða hitt árið og sjómenn fóru að leita út á djúpið, hafa þeir komist fljótt að því, að ekki var sama hvar eftir fiski var leitað. —
Þegar svo kom þar sem nægur fiskur var undir, var áríðandi að tína ekki þeim bletti aftur. Fóru menn þá að miða staðinn, og var það gert með því að horfa til lands, taka einskonar lengdar- og breiddar-mæling, gert að eins með athugulum augum, því að annað sem til má nota var þá ekki fyrir hendi. Voru þá venjuleg fjöll og önnur kennileiti á landi notuð sem mið. Alltaf urðu miðin að vera fjögur, tvö og tvö, sem báru saman í hvorri átt, samsvarandi lengdar og breiddar línunni.
Venjulega voru há fjöll eða hlutar þeirra, sem hátt báru, höfð að yfirmiði, en aftur önnur, sem oft voru nær sjó og lægra, lágu, að undirmiði. Kölluðu svo menn þessa stáði, sem þannig var búið að miða sig niður á, á sjónum, mið eða slóðir. Þannig varð Ásvörðuslóð til, mjog fisksælt mið á Suður-Sviði í Faxaflóa. Var Ásvarða undirmið en Valahnjúkur venjulega yfirmið. Á þetta fisksæla mið hafa margar kynslóðir sótt, og fært þaðan þjóðarbúinu mikla björg.
Þessi góðu, gömlu fiskimið urðu því vinsæl, og umræður um þau oft fljettaðar inn í samtöl fólks þess er við sjóinn bjó. Nú mun tími gömlu fiskimiðanna að mestu liðinn, því ekki mun standa eins glöggt nú, hvar línu eða botnvörpu sje í sjóinn kastað frá borði, samanborið við það, þegar að eins um handfæri var að ræða á opnum skipum.“
Í Faxa árið 1950 er fjallað um innsiglingarmerkið „Kölku“ á Háleiti ofan við Njarðvík:
„Kalka er heiti á landamerkjavörðu, er stóð uppi á Háaleiti, þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur og braggahverfi honum tilheyrandi.
Einnig er þess getið til, að hún hafi verið notuð sem innsiglingarmerki skipa á dögum Selstöðukaupmanna hér á Suðurnesjum. Varðan er sögð hafa verið hvít kölkuð, svo að hún sæist langt að, og hefir hún dregið nafn þar af. Var þessi ævagamla varða við líði, þar til nú á stríðsárunum, að setuliðið jafnaði hana við jörðu. – H.Th.B.“
Heimildir:
-Ægir, t. tbl. 01.07.1919, Sjómerki, bls. 84.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1951, Saga slysavarnardeildarinnar „Þorbjörn“ í Grindavík, bls. 25.
-Morgunblaðið, 291. tbl. 18.12.1983, Vörður, bls. 58.
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 13.06.1948, Ásvarða – Ólafur Þorvaldsson, bls. 296.
-Þjóðólfur, 56. tbl. 29.11.1889, Leiðir og lendingar, bls. 224.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1950, Kalka, bls. 8.