Skógargata – Fjárborgargata
Gengið var um svonefnda Skógargötu frá Óttarsstöðum, um Eystraklif og upp á Alfaraleið ofan við Löngubrekkur.
Gatan liggur áleiðis upp í Óttarsstaðasel. Önnur gata, oft nefnd Skógargata, liggur vestar (Óttarsstaða-selsstígur). Þær sameinast skammt norðan Alfaraleiðar. Milli Bekkja og Meitla eru aftur gatnamót þar sem Skógargatan beygir til suðvesturs áleiðis að Skógarnefi en Óttarsstaða-selsstígurinn liggur upp í selið, sem er þar skammt ofar í Almenningi. Leiðin liggur um tiltölulega slétt helluhraun; Hrútagjárdyngju-hraun. Þessi gata (götur) hefur einnig verið nefnd Rauðamelsstígur, en hún liggur yfir Litla-Rauðamel ofan Nónhæða.
Næst Óttarsstöðum (Eyðikoti) greinast göturnar fyrst skammt ofan Hrafnagjár. Báðar mætast þær þó á Kotaklifi við Kotaklifsvörðu þar sem hún liggur um Eystraklif þar sem þær greinast enn á ný. Skógargatan fer um einstigi syðst á klifinu, en selsstígurinn liggur til suðsuðvesturs upp á klapparrana þar sem hann greinist en kemur saman aftur skammt sunnar. Á þessum leiðum má sjá brýr á sprungum.
Önnur gata liggur frá Stekknum undir Miðmundarhæð og liðast áleiðis upp að Smálaskálahæð um Jakobsvörðuhæð að Kristrúnarborg (Óttarsstaðaborg) vestan við Smalaskála.
Ætlunin var að reyna að fylgja þessum götum upp fyrir hæðirnar og til baka með viðkomu í Gvendarbrunnshelli, Borginni, Smalaskálaskjóli og fiskbyrginu í Hrafnagjá.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um þetta: „Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
Sunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða). Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
Vestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga.
Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.
Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið.
Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana.
Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elzta veginn. Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir.
Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Sunnan við Smalaskálakerið er mikil klapparhæð og sprungin. Sunnan í henni eru lyngbrekkur, sem nefnast Löngubrekkur. Gjá mikil var eftir allri brúninni, nefnd Löngubrekkugjá. Í norðurbarmi gjárinnar verpti hrafninn alltaf á hverju vori.
Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.“
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimild:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.