Smalaskáli

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði kemur fram heitið “smalahús”. FERLIR fannst áhugavert að kanna hvort tilvist þess mannvirkis væri enn í frásögu færandi. Áður hafði verið leitað að Grænhólsskúta og Smalaskálahelli á svipuðum slóðum og hvorutveggja staðsett.

Smalaskáli

Smalaskáli.

Í örnefnalýsingunni segir:
“Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir. Neðan þeirra er lægð með vatni í, sem heitir Leirlág. Niður og austur af henni, niður við sjó, er Miðaftansvarða. Svo er austur af Sjónarhól flöt, glögg hæð, sem heitir Jakobsvarða. Þar austar er svo önnur, sem heitir Goltrarhóll. Ofan við Jakobsvörðu, upp undir vegi, neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið fyrrnefnda, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.
SmalaskálafjárskjólNú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring.”
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna (sjá meira HÉR), neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð.
Þegar Fjárborgargatan var gengin neðan frá Jakobsvörðu áleiðis upp að Smalaskálahæð kom fljótlega í ljós lítil en fallega hlaðin varða á bergbarmi. Skammt ofar var komið að stóru jarðfalli, grösugu. Grasið var enn gult sem að vori, nema lægðin framan við hellisop. Framan við opið voru leifar af hleðslu. Líklegt má telja að þarna sé Smalaskálaskjól. Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, ofan við þjóðveginn.

Smalaskáli

Smalaskáli.