Skógrækt og fornminjar I
Hin forna lögrétt Kjósverja við Fossá er ágætt (slæmt) dæmi um hvernig skógrækt hefur gengið óþarflega nærri fornleifum. Furutrjám hefur verið plantað í og í kringum réttina án sýnilegrar ástæðu, enda stangast gjörningurinn á við ákvæði Þjóðminjalaga. Það eru Skógræktarfélög í Kópavogi, Kjós og Mosfellsbæ, sem þarna voru að verki.
Þegar gengið er um skógræktarsvæði má víða sjá fornminjar. Þrátt fyrir lögbundna vernd þar sem röskun varðar refsingu hefur skógræktarfólk verið duglegt að planta trjám í minjarnar. Líklegt má telja að verið sé að nýta skjólið. Í sumum tilvikum gæti fólk verið meðvitað um að minjar geti verið að ræða, en sennilega er flest einungis að hugsa um skógræktina og kemur ekki auga á minjarnar. Dæmi er um að trjám hafi verið plantað í fornar götur og í seltóftir, líkt og sjá má á Baðsvöllum, við Snorrastaðatjarnir og nú síðast í Hvaleyrarselsstekknum við Hvaleyrarvatn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Í fræðsluefni um skógrækt fyrir Norðurlandsskóga má sjá að viðleytni er til þess að gæta varúðar á minjasvæðum. Hefti hefur verið uppsett að það nýtist sem best skógarbændum sem taka þátt í verkefninu.
„Margir bændur kannast við svokallaða bæjarhóla á jörðum sínum, enda er það svo að á vel flestum lögbýlum á Íslandi hafa staðið bæir um aldir. Er menn byggðu úr torfi og grjóti þurftu byggingarnar mikið viðhald og bændur urðu gjarnan að dytta að húsum á hverju sumri. Með reglulegu millibili varð að hlaða upp torf- og grjótveggi og skipta út fúnum spýtum úr burðargrindinni. Við hverja viðgerð varð breyting á bænum og hver kynslóð lagaði hann að þörfum sínum og tók upp nýja tækni. Gjarnan hafa bæirnir staðið á sama blettinum svo öldum skiptir og við endurbyggingu eða viðgerðir einstakra húsa hafa með tímanum hlaðist upp manngerðir bæjarhólar. Hólar þessir geta oft verið um 3 metrar á flykkt og um 30-40 metrar í þvermál. Með fornleifarannsóknum má því oft rekja þróun torfbæjanna aftur á miðaldir og geyma slíkir bæjarhólar í sér gríðarlega miklar upplýsingar um sögu þjóðarinnar.
Íbúðarhús nútímans eru stundum á eða í námunda við slíka bæjarhóla. Í næsta nágrenni bæjarins voru svo útihús og önnur mannvirki, svo sem gripahús, túngarðar, kálgarðar, heimaréttir o.fl. Í meiri fjarlægð frá bænum má svo finna m.a. tóttir af seljum, fjárborgum og beitarhúsum. Minjar um líf og starf genginna kynslóða hafa ekki aðeins gildi fyrir fræðimenn er rannsaka sögu og menningu þjóðarinnar, heldur ekki síður fyrir námsfólk og allan almenning er sækir heim söfn eða nýtur útivistar á fjölbreytilegum minjastöðum. Minjar hafa aðdráttarafl og geta skilað þjóðarbúinu tekjum, ekki síst í tengslum við menningartengda ferðafljónustu. það er því mikilvægt að rækta þlennan arf vel, standa vörð um hann og kynna og leitast við að skila honum í sem bestu ástandi til komandi kynslóða.
Fornminjar eru hins vegar forgengilegar og ætti að vera óhætt að segja að á síðustu áratugum hefur farið fram meiri eyðing fleirra en á öllum öldum Íslands byggðar. Munar flar mest um stórtækar vinnuvélar nútímans.
Skógrækt og varðveisla menningarminja ætti hins vegar vel að geta átt samleið og skiptir þá mestu að skógræktarbændur og þjóðminjavarslan í landinu stilli saman strengi. Mjög mikilvægt er að vinna að því að kortleggja minjar á skógræktarjörð um svo komast megi hjá því að þeim verði spillt. Fornleifar eru stundum ekki greinanlegar á yfirborðinu, en oft koma tóttir mannvirkja fram sem þústir í landslaginu. Fornleifar eru skilgreindar í 9. gr. þjóðminjalaga, en að jafnaði er miðað við að minjar 100 ára eða eldri teljist til fornleifa. þeim má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.
Telji landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask er haggað geti við fornleifum skal skýra Fornleifavernd frá því áður en hafist er handa við verkið. Sömuleiðis ef fornleifar finnast við framkvæmd verks ber að skýra stofnuninni frá því.“
Skógræktarfélag Íslands hefur gefið út leiðbeiningar um nýræktun skóga m.t.t. fornleifa: „Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna.
Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar. Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa. Skilgreiningin hér að ofan er alltaf í gildi. Ef vafi leikur á því hvort mannvirki telst til fornleifa eða ekki er nauðsynlegt að hafa samband við Fornleifavernd ríkisins.
Hér eru dæmi um tegund fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki, varnarmannvirki, áletranir og fleira. Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum.
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.“
Í þjóðminjalögum, 107/2001 eru ákvæði um vernd minja: „10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins“ og „11. gr. Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands.“
Í reglugerð um þjóðminjavörslu, 334/1998, eru einnig verndunarákvæði. Þótt gildandi Þjóðminjalög kveði m.a. á um verndun fornminja vernda þau (sem slík) ekki minjarnar. Ekki heldur þær stofnanir, sem þar eru tilgreindar. Þá hefur reglugerð studd af fyrrgreindum lögum ekki verið fyrir hendi þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir henni. Mikilvægt er að endurskoða núverandi Þjóðminjalög og um leið allt fyrirkomulag fornminjamála hér á landi. Markmiðið á ekki að vera að ákveða hvaða stofnun á að gera hvað heldur hvernig vernduninni er best fyrir komið. Lögin þurfa að gera ráð fyrir eðlilegu samspili allra þeirra er að þeim málum koma, afmarka einstaka stjórnvaldsþætti, ákvarða ábyrgð á tilteknum framkvæmdum og gera ráð fyrir að lögreglan eða tilgreindir eftirlitsaðilar hafi eftirlit með að fornminjar, þjóðararfurinn, fari ekki forgörðum. Tímarnir hafa breyst – og það mjög hratt upp á síðkastið. Mikilvægt er að taka mið að þeim breytingum sem og því sem vænta má í undirliggjandi framtíð.
Góður skilningur skógræktarfólks er nauðsynlegur svo auka megi líkur á verndun fornra minja og meðvitund þess um gildi þeirra – líkt og skógurinn hefur tiltekið gildi í augum þess. Miðað við ákafa skógræktarfólks á liðnum árum verður, með sama áframhaldi, ekki langt að bíða að farið verður að planta trjám, skuggsælum plöntum, í hella og skúta.
Sjá meira HÉR.