Fyrir um þremur milljónum ára varð gagnger breyting á loftslagi og sjávarhita á norðurhveli jarðar. Ísöld tók við með sín jökulskeið og hlýskeið. Þá mynduðust í fyrsta sinn víðáttumiklir jöklar á Íslandi. Fæst tré þoldu loftslag jökulskeiðanna og skógarnir náðu ekki að rétta sig af á hlýskeiðum á einangraðri eyju eins og þeir gerðu á meginlöndunum. Steingervingar benda þó til þess að frá upphafi ísaldar og þar til fyrir rúmri einni milljón ára hafi fura, ölur, birki og víðir vaxið hér. En þá dó furan út og ölurinn fór sömu leið fyrir um 500.000 árum, á síðasta og kaldasta jökulskeiði ísaldarinnar.
Fimmhundruð árum fyrir Kristsburð kólnaði aftur. Birkiskógurinn hopaði aftur úr mýrlendinu og skógarmörk færðust neðar í fjallshlíðum. Þegar landnám hófst var skógurinn því farinn að hopa. Samt má merkja af frjókornarannsóknum og ýmsu öðru að þá fyrst fór að síga verulega á ógæfuhliðina.
Fyrstu landnemar Íslands hafa án efa heillast af ósnortinni náttúrunni sem tók á móti þeim. Írskir munkar, sem allt bendir til að hér hafi fyrst tekið land, áttu ekki að venjast slíku náttúrufari. Á Bretlandseyjum hafði kvikfjárrækt verið stunduð um aldir og skógar hopað fyrir graslendi. Munurinn var sjálfsagt ekki eins mikill fyrir víkingana frá Noregi, sem sögur herma að numið hafi hér land á 9. öld. Miðað við hve landið byggðist hratt hafa fréttir af þessari búsældarlegu eyju þó vakið mikla athygli. Auðæfi til lands og sjávar virtust óþrjótandi og auðvelt að draga björg í bú.
Rannsóknir og heimildir benda til þess að meira en 40.000 ferkílómetrar hafi verið huldir gróðri á 9. öld, eða um tvöfalt stærra svæði en nú er. Leiddar eru líkur að því að meira en helmingur þess lands hafi verið viði vaxinn. Mestur hefur skógur verið á láglendi, neðan 200 metra hæðar yfir sjávarmáli, en lágvaxið kjarr hefur teygt sig inn á hálendið upp í yfir 400 metra hæð. Þar sem vaxtarskilyrði hafa verið best, í botnum dala og skjólgóðum hlíðum, hafa birkitré náð góðum vexti og gefið af sér smíðavið. Víðar hefur þó verið lágvaxinn skógur og kjarr. Norrænir landnámsmenn voru vanir kvikfjárrækt og akuryrkju. Þeir ruddu skóg fyrir bæi sína og akra.
-www.skogur.is

Fossárrétt eldri – þakin skógi.