Snorrastaðasel – Dalsel
Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.
Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Bent var á Odsshelli og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er greinilega mjög gamalt. Notað var tækifærið og selið rissað upp.
Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum. Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar; Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn og fyrrum Krýsuvík. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km.