Reykjanesskagi – Sprengigígar

Krýsuvík

Jarðfræðifyrirbærið „Sprengigígur“ er gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp. Gosefnin þeytast langt og hátt upp í loftið, en skilja lítið af jarðefnum eftir sig.

Sprengigígar

Sprengigígar – myndun.

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa. Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku, en hins vegar kallast þeir „maar“ í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni. Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum. Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni. Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.

Sprengigígar

Sprengigígar – skýringar.

Gosvirknin verður þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu. Þá verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar. Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos. Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eða engum gígbörmum, sem fyrr sagði. Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.

Sprengigígar

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Sprengigígur (e. maar) er eins og nafnið bendir til gígur sem verður til í sprengingu. Sprengingin verður oftast

vegna þess að kvika kemst í snertingu við vatn skammt undir yfirborðinu eða að gasrík kvika springur við yfirborðið.
Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Sprengigjá

Sprengigígar

Sprengigígar (-gjá) – Valagjá.

Sprengigjá (e. explosion fissure) er aflangur sprengigígur sem verður til þegar sprengingar verða á stuttri sprungu.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Sprengigos

Sprengigígar

Sprengigígar – sprengjugos.

Sprengigos (e. explosive eruption) teljast hvers konar gos þar sem kvika tætist í sundur í sprengingum. Oftast er það snerting við vatn sem veldur sprengingunum en stundum er spennu í sjálfri kvikunni um að kenna. Spennan stafar þá af gosgufum sem þurfa rými.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar. Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.

Sprungugos
Sprungugos (e. fissure eruption) er eins og nafnið bendir til eldgos á sprungu.

Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni.

Sprengigígar

Sprengigígar (gos-) – Innstidalur.

Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.

Minniháttar hverasprengigígar

Austurengjahver

Austurengjahver.

Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.

Kolsýrusprengigígar

Sprengigígar

Sprengigígar (kolsýru) – Súlufell.

Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Kattatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða „hverfjöll“ (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist „hýalóklastít“, sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungum.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar.
Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar „rætur“, það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.

Grænavatnseggjar

Sprengigígar – Grænavatnseggjar (Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn efst).

Landslag á Reykjanesskaga, einkum þó í Krýsuvík, er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins. Í öllum þessum gígum er vatn. Sunnan við Grænavatn eru hins vegar tveir vatnslausir sprengigígar, Stampar (Litli-Stampur og Stóri-Stampur).

Sjaldgæft er að sprengigígar gjósi oftar en einu sinni. Þeir eru oft það djúpir að þeir ná niður fyrir grunnvatnsborð. Í sprengigosum er megingosefnið stundum aðallega vatnsgufa og gastegundir, en lítið af gjósku.

Sprengigígar

Sprengigígar í Grafningi (Álftatjörn, Litla-Kattartjörn, Stóra-Kattatjörn og Djáknapollur efst).

Kattartjarnir eru í Hryggjunum, suðvestan til í Grafningi. Neðri-Kattartjörn (Nyrðri-), Stóra-Kattartjörn er norður af Kyllisfelli, en Efri-Kattartjörn (Syðri-), Litla-Kattartjörn er norður og/eða norðvestur af fellinu. Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir (Neðri-Katlatjörn, Efri-Katlatjörn og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Það er sennilega líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar.

Önnur dæmi um sprengigíga á Reykjanesskaganum eru Grænavatn á Núpshlíðarhálsi, Djúpavatn, Spákonuvatn, Arnarvatn og Austurengjahver.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sprengig%C3%ADgur
-https://isor.is/jardhiti/hahiti/sprengigigar/
-https://jardfraedi.vefbok.idnu.is/?id=32&tx_systimeglossary_pi1%5Bcharacter%5D=s&cHash=8bf0fc14952fadd54c0faf1ba759395c#c6
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1208

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.