Sprengjur í Vogaheiði

Vogaheiði

Í Morgunblaðinu árið 2004 birtist eftirfarandi frétt um sprengju í Vogaheiði undir fyrirsögninni „Landhelgisgæslan segir að sprengjuleit á Vogaheiði sé margra ára verkefni – Málmflísarnar þeytast eins og byssukúlur“.

Vogaheidi-1„Það er ekki hvellurinn sem er hættulegastur heldur allar málmflísarnar sem þeytast frá sprengjunni eins og byssukúlur,“ segir Jónas Þorvaldsson, sprengju-sérfræðingur hjá Landhelgis-gæslunni, áður en rafstraumi er hleypt á litla sprengjuhleðslu sem komið hafði verið fyrir á gamalli bandarískri sprengikúlu. Sprengikúlan er á botni um 10 metra djúprar hraungjótu á Vogaheiði en heiðin var notuð sem skotæfingasvæði bandaríska hersins fyrir um hálfri öld. Eins og gengur féllu sumar sprengjurnar niður án þess að springa og síðan farið var að leita að þeim með skipulögðum hætti hafa ríflega 800 slíkar sprengjur fundist.
Í gær var TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, fengin til að flytja sprengjubrot og annað brak úr hrauninu sem fundist hafa við leit landhelgisgæslumanna í sumar og í fyrrasumar.
Adrian King, sem einnig er sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, segir að sprengikúlan í gjótunni innihaldi um tvö kíló af TNT og þótt hún sé um hálfrar aldar gömul sé sprengiefnið enn virkt. Hætturadíus slíkrar sprengju er um einn kílómetri. Til að koma af stað sprengingu setur Adrian plastsprengiefni utan á sprengikúluna og tengir það síðan við langan rafmagnsvír. Þegar allir viðstaddir eru komnir í örugga fjarlægð er straumi hleypt á. Nánast samstundis kveður við mikill hvellur og þykkur grásvartur reykur liðast upp úr gjótunni. Þó að blaðamanni finnist þetta býsna tilkomumikið er sprengjan sjálfsagt algjört smáræði fyrir þá Jónas og Adrian sem sl. vetur dvöldu við sprengjueyðingar í Írak. Þar sem hermenn skutu áður úr skriðdrekum, fallbyssum, sprengjuvörpum og öðrum tiltækum skotvopnum er nú orðið vinsælt útivistarsvæði.

Vogaheidi-2

Jónas segir að í kringum Snorrastaðatjarnir og annars staðar þar sem helst sé að vænta mannaferða hafi svæðið verið fínkembt. Til leitarinnar var m.a. notað nýlegt málmleitartæki sem er þeirrar náttúru að það getur fundið málmhluti í hrauni sem önnur lakari tæki ráða ekki við sökum segulmögnunar í íslenskum hraunum.
Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir að skotæfingasvæðið hafi verið um átta kílómetrar að lengd og hátt í fjögurra kílómetrar breitt þar sem það er breiðast.
Flatarmál svæðisins er talið um 15 ferkílómetrar en í rauninni er yfirborðið enn umfangsmeira þar sem sprengjurnar geta leynst í holum og hraungjótum auk þess sem margar hafa grafist ofan í svörðinn. Enn leynast þarna virkar og hættulegar sprengjur
Árið 1986 stóð varnarliðið fyrir umfangsmikilli sprengjuleit á svæðinu og tíu árum síðar var aftur leitað. Það dugði þó ekki til og telja sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að enn leynist þar margar bombur sem enn eru virkar og hættulegar. „Það er margra ára verkefni að kemba allt svæðið,“ segir Gylfi. Svæðið verði seint eða aldrei fullleitað. Hann brýnir fyrir göngufólki að snerta ekki sprengjur heldur tilkynna fundinn til lögreglu eða Landhelgisgæslunnar.“

Heimild:
-Morgunblaðið 10. ágúst 2004, bls. 10.

Kálffell

Sprengja í Kálffelli efst í Vogaheiði.