Stapinn – þjóðsagnakenndur staður

Grímshóll

Stapinn virðist lítt áhugaverður, a.m.k. þegar ekið er eftir Reykjanesbrautinni. Hann lætur ekki mikið yfir sér (fer reyndar huldu höfði) þegar litið er til hans úr suðri, en úr vestri og norðri horfir allt öðru vísi við.
Hólmabúð fjær - Stapabúð nærVogastapinn, sem er um 80 metra hár, hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi, en er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó framað norðanverðu. Uppi á hæstu brún trjónir Grímshóll. Sorpi af Keflavíkurvelli var löngum ekið út á Stapa og sturtað fram af berginu. Enn má sjá leifar þessa óþrifnaðar, en hann er þó á hverfanda hveli.
Stapinn er hvað kunnastur fyrir Stapadrauginn. Reykjanesbraut liggur um sunnanverða undirhlíð Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Vegurinn lá fyrr á öldum nokkru norðar, þ.e. um Reiðskarð, en var síðar færður sunnar uns núverandi vegstæði varð fyrir valinu. Ástæðan fyrir órökkrinu er væntanlega sú að áður fyrr fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg.  Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. Einungis er vitað um að einu sinni hafi tekist að ná mynd af draugsa á Stapanum, en hún virðist óskýr.
Leifar KerlingarbúðarUndir Stapanum eru allnokkrar minjar, þ.á.m. Kerlingarbúðir. Búðirnar heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri.
Fiskislóðin Gullkista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á miðunum í Stakksfirði, en svo nefnist fjörðurinn, sem Stapinn stendur við, en Vogavík innar nær Vogum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli. Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúð, sem kennd var við hólma skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes. Hvorki Vogabúar né Sandgerðingar voru par ánægðir með viðskilnaðinn, hvorir á sínum tíma. Innar eru minjar Stapabúðar, enn einnar verstöðvarinnar.
Camp Dailey
Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og veggir þess húss standa enn þá. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum. Hleðslurnar sjást enn utan í Grímshól.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.

Stapinn

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Stapinn er bæði skjólgóður og sagnaríkur staður. Um hann ofanverðan liðast Stapagatan milli Reiðskarðs og Stapakots í Innri Njarðvík. Skammt frá henni má greina gamlar tóftir norðan undir Narfakotsborginni (Grænuborg), gróinni fjárborg við sjónarrönd. Líklegt er að þessar minjar og fleiri munu hverfa fyrir fullt og allt vegna framkvæmdargleði Njarðvíkurmegin.
Líklega eru mikilvægustu minjarnar á Njarðvíkurheiðinni gróinn fótur landamerkjavörðu. Þegar höfnin var byggð í Vogum var allt tiltækt grjót tekið og sturtað í höfnina, m.a. þessi varða. Stærsta og þyngsta grjótið varð jafnan eftir og má því sjá þess merki á lágum klapparhól skammt vestan við núverandi Reykjanesbæjarskilti og Rockvillestíl. Ef tekið væri af þessu kennileiti mið í Innri-Skoru annars vegar og Arnarklett við Snorrastaðatjarnir hins vegar – enda sjónhending þar á millum – myndi land Voga stækka sem því nemur. Ekki er óraunhæft að ætla, og eflaust eru til gögn þessu til staðfestingar. Bara það eitt væri hið ágætasta efni í enn eina þjóðsöguna.Stapinn