Stóra-Vatnsleysa – grafreitur

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Komið var kvöld. Suðaustan andvari strauk kinn. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).
LetursteinninnÞegar komið var út á hlaðið benti Sæmundur á hól í suðvestri og sagði: „Þetta er nónhóll“. Þá sneri hann sé 47° til suðurs og bætti við: „Og þarna er hádegishóll – á bak við húsin“. Hóll sá lá sunnanlægt við Keili. „Annars var venjulega miðað við Keili þegar bent var á suðrið“. Enda munaði þar litlu. Líklega hefur viðmiðið verið þvert á útnorður frá Vatnsleysu.
Þegar komið var örskammt suður fyrir núverandi íbúðarhús benti Sæmundur á hleðslur og sagði að þarna væri talið að hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti. Kirkjugatan millum jarðanna gæfi það og til kynna. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var þá yfirgefinn og hann síðan rifinn. Kirkjan hefur skv. þessu staðið á hæsta hólmum ofan við Vatnsleysuvíkina. Austan við hæðina hallar hún undan. Líklegt er að þar hafi veirð kirkjugarður forðum. A.m.k. er letursteinn þar staðfestur vottur um slíkt.
Steinn þessi er stór grágrýtissteinn, sjávarbarinn. Hann er ca. 80 c, hár, 100 cm breiður og 40 cm þykkur. Skýringin á hvers vegna svona stórt lábarið grjót hafi verið langt uppi á landi kom síðar. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Byrjað var að skoða letursteininn, sem nú er þarna í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649.

Áletrun

Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn, sem fyrr sagði. Steinninn er ólíklega á upprunalegum stað því undir er klöpp, þótt gróið hafi yfir. Norðvestan við steininn eru að því er virðist leifar grjótgarðs. Sæmundur sagði þetta vera úrkast úr túninu. Ofan úrkastsins gæti kirkjugarðurinn hafa verið. Letursteinninn hefur því verið í honum, vel áberandi er hann stóð upp á rönd, en af sömu ástæðu og aðrir steinar verið færðir til í eina samfellu svo hægt væri að nýta svæðið sem slægju. Fyrr á árum þurfti að nýta sérhvern blettur með stækkandi stórgripabúum.
Þarna undir eru því bæði leifar af kirkju frá 13. öld og grafreitur. Letursteinninn bendir til þess. Steinninn er það þungur að hefur ekki verið færður langa vegarlengd með fyrri tíma tækjabúnaði.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var. Þar væri skýringin komin á hinu lábarða grjóti svona langt uppi í landinu. Landið hafi legið lægra fyrrum er ísaldarjökullinn þrýsti því niður, en er hann hopaði lyftist landið og meðlagið sömuleiðis (þ.m. sjávargrýtið).
LetursteinnHafist var handa við að reisa letursteininn upp eins og honum hafði verið komið fyrir upphaflega. Með tveimur járnkörlum og jafnmörgum kraftakörlum vana gamalli áreynsluhefð tókst smám saman með lagni að lóðrétta láréttliggjandi letursteinninn. Þegar hann féll við, var sem ásýnd hans opinberaðist.
Áletrunin er ekki nákvæmlega efst og fyrir miðju steinsins, en ef grannt er skoðað má sjá að krossinn hefur verið gerður miðsvæðis. Gé-ið vinstra megin er stærra en I-ið hægra megin svo hlutföllin hafa eðlilega raskast miðað við miðjusetninguna.
Þegar steinninn hafði verið færður í rétta stöðu kom í ljós að fallegt listaverk er efst á honum hægra megin, ofan við ártalið, líkast fugli. Ef skoðaðir eru legsteinar í kirkjugörðum nú til dags má einmitt sjá fuglastyttur ofan á þeim. Hér gæti verið um samsvörun að ræða – 365 ára gamla.
Aðspurður um fleiri fornminjar í nágrenninu sagði Sæmundur þær vera fáar núorðið. Í norðaustri frá kirkjunni eru tún. Þar voru fyrrum nokkur kot, en þegar túnin voru sléttuð á fyrri hluta 20. aldar, auk þess sem ágangur sjávar hafi gert það nauðsynlegt, hefði öllu verið nýtilegu ýtt niður að ströndinni með það að markmiði að hindra frekari landeyðingu. Þar með hefðu leifar kotanna með öllu tilheyrandi þurrkast út á svæðinu.
Sæmundi var vinsamlegast bent á að nú mætti ekki, skv. þjóðminjalögum, raska neinu innan 20 metra radíus frá letursteininum. Hann sagði það nú lítið mál; „steinninn hefði áður verið færður svo líta mætti á staðsetninguna nú sem geymslustað fyrir hann – ef þurfa þætti“.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd; yfirlagt túnakort frá 1919, auk annarra bæja og vara.

Í samtali við Sæmund komu fram upplýsingar um „holustein“ ofan á jarðfastri klöpp á hugsanlegum óþekktum mörkum Ísólfsskála og Hrauns á Núpshlíðarhálsi. Lýsingin passar vel við landamerkjalýsingu Ísólfsskála. Ætlunin er að skoða vettvanginn fljótlega.
Sæmundur sagðist ekki vita að letursteininn hafi verið skráðan em „fornleif“. Honum var heldur ekki kunnugt um að fornleifayfirvöld landsins hefðu yfirleitt haft nokkurn áhuga á honum sem slíkum. Að bænum hafi fyrir einhverju sinni komið fornleifafræðingur. Sá hafi gengið um svæðið, staðnæmst stuttu austan við bæinn, bent til norðurs á hlaðna bátarétt, sem þar er og sagt: „Ég skrái þetta, það er augljóslega meira en hundrað ára“. „Þá hlýt ég að vera mun eldri en ég er“, svaraði Sæmundur, „því ég tók þátt í að hlaða þetta þegar ég var kominn fram yfir tvítugt“. Ekki er gott að segja hvort mannvirkið hafi ratað inn á fornleifaskrá eða ekki.
Frábært veður.

Letursteinninn