Suðurnes á Reykjanesi?

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera „Er Reykjanes það sama og Suðurnes?“ Stutta svarið er „Nei“.
Lengra svarið er: „Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: „Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.“

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: „Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.“ Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn“ á skaganum en það síðarnefnda „táin“, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.“
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið „kátir menn og frískir“, en í Grindavík „sjósæknir og fríðir“. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan „málsmetandi“ ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.