Suðvesturland – bæklingur
Í bæklingi ferðaþjónstunnar segir m.a.: „Suðvesturland nær sunnan frá Herdísarvík yfir allan Reykjanesskaga og inn að Botnsá í Hvalfirði. Í landshlutanum eru stærstu þéttbýlisstaðir á Íslandi og þar býr mikill meirihluti þjóðarinnar.
Suðurströnd Reykjanesskaga er lítt vogskorin og náttúrulegar hafnir því fáar. Víða ganga allhá björg í sjó fram, í þeim eru heimkynni fugla. Átta sjómílur suðvestur af Reykjanesi er Eldey, lítil móbergseyja, þar sem er þriðja mesta súlubyggð í heiminum. Rosmhvalanes, nú oftast nefnt Miðnes, heitir skaginn sem gengur norður frá Ósabotnum og er Garðskagi ysti hluti hans. Faxaflóaströndin er lág en á nokkrum stöðum ganga allhá björg í sjó fram, eins og t.d. Vogastapi. Reykjanesfjallgarður liggur eftir endilöngum skaganum. Hann er þakinn gróðursnauðum hraunum og land til ræktunar er lítið. Þar eru hvorki ár né lækir vegna þess að rigningarvatn hripar jafnóðum niður í hraunin. Kleifarvatn er stærsta stöðuvatnið, það er afrennslislaust ofanjarðar.
Aðalbergtegund í fjöllum er móberg en grágrýtisbreiður eru á Miðnesi og í Vogastapa. Eldstöðvar eru margar og jarðhiti er mjög mikill á Reykjanesi, í Krísuvík og Svartsengi norðan Grindavíkur. Þaðan liggur hitaveita um öll Suðurnes og þaðan kemur heita vatnið í Bláa lónið sem er orðið einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Landið breytir um svip þegar Suðurnes eru að baki. Þá eykst gróður, einkum er gróðursælt þegar kemur norður um Kjalarnes og Kjós. Faxaflóaströndin er lág og vogskorin og víða eru hafnir frá náttúrunnar hendi. Álftanes, Seltjarnarnes og Kjalarnes ganga í sjó fram en milli þeirra eru firðir og vogar.
Eldstöðvar eru nokkrar í Kjósarsýslu, berggrunnurinn hlóðst upp á ísöld og nútíma. Elsta eldstöðin var virk á Kjalarnessvæðinu fyrir um 2,5 milljónum ára. Um sunnanverða sýsluna er móberg aðalbergtegundin en blágrýti og líparít eru í Esju og nálægum fjöllum. Grágrýtisbreiður eru í nágrenni Reykjavíkur og uppi á Mosfellsheiði. Jarðhiti er mikill og eru mestu jarðhitasvæðin á Reykjum í Mosfellsbæ og í landi Reykjavíkur. Heitt vatn hefur lengi verið virkjað til að hita upp hús og til ylræktar.
Ár eru fáar og ekki vatnsmiklar. Mestar eru Elliðaár og Laxá í Kjós. Lax gengur í þær og ennfremur í Úlfarsá, Leirvogsá, Bugðu, Brynjudalsá og Botnsá.
Sjá má bæklinginn Reykjanes-bæklingur-II.