Sundlaug Hafnarfjarðar 80 ára – skilti
Sundlaug Hafnarfjarðar,byggð 1943, sem u.þ.b. tíu árum síðar, varð að Sundhöll Hafnarfjarðar, varð áttræð 29. ágúst 2023. Af því tilefni voru sett upp upplýsingaskilti; eitt við Herjólfsgötu utan við Sundlaugina og svo þrjú í anddyri hennar.
Bygging sundlaugarinnar hófst árið 1940 en verkið tafðist vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Byggingu hennar var lokið árið 1943 og var sundlaugin formlega opnuð sunnudaginn 29. ágúst 1943. Sundlaugin í Hafnarfirði er glæsihús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Byggingarsaga laugarinnar átti sér nokkrun aðdraganda.
Á söguskiltinu utandyra má lesa eftirfarandi texta: „Skipulögð íþróttaiðkun hófst í Hafnarfirði haustið 1894 með leikfimikennslu í Flensborgarskólanum. Í skólaskýrslu fyrir þennan vetur segir að í leikfimi hafi m.a. verið kennt í sund á þurru landi.
Það var þó ekki fyrr en árið 1909 sem eiginleg sundkennsla hófst í Hafnarfirði en þá var það Ungmennafélagið 17. júní sem stóð að kennslunni. Hún fór fram í sjónum út af Hamarskotsmöl en síðar við Hellufjöru og árið 1926 var sundkennslan færð vestur að Krosseyrarmölum. Var hún þar í tæpan áratug en var þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum, menn vildu „beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulýður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gagnlegustu íþrótt allra íþrótta, sund“. Á næstu árum komu fram ýmsar hugmyndir um staðsetningu laugarinnar en það var loks árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.
Árið 1843 mátti lesa eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: „Er hjer um hið merkasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Sjór er notaður í laugina og er hann hitaður upp með miðstöðvarhita. Fullkomin hreinsunartæki eru fyrir vatnið.“ Sundlaugin var opin allt árið en rekstrinum var skipt í þrjú tímabil. Frá 1. nóvember til 1. apríl var hún rekin sem baðhús. Mánuðina apríl, maí september og október var aðeins vatnið í grynnri enda hennar hitað og hreinsað og var sundlaugin því aðeins í fullri notkun yfir sumarmánuðina.
Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Samþykkt var að byggja yfir laugina árið 1951 og var hún vígð sem sundhöll tveimur árum síðar. Það var svo árið 1976 sem lögð var hitaveita í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til hins betra. Árið eftir vor settar upp tvær setlaugar í sólskýli við laugina“.
Á söguskiltunum innandyra stendur: „Sundkennsla í sjónum – Elstu heimildir um sundkennslu í Hafnarfirði eru frá árinu 1909 en þá var það Ungmennafélagi 17. júní sem stóð að kennslunni. Þar sem engin sundlaug var í bænum á þessum tíma fór kennslan fram í sjónum úf af Hamarskostmöl. Árið 1911 var tekin á leigu skúr sem stóð á mölinni og var hann notaður sem sundskáli þar sem nemendur gátu skipt um föt. Eftir að starfsemi Ungmennafélagsins lagðist niður, árið 1913, fól Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skólanefnd barnaskólans að annast kennsluna.
Eins og áður segir fór kennslan fram á Hamarskotmöl, vestan við Vesturhamar en svo lengi fyrir sunnan hamarinn í svokallaðri Hellufjöru. Eftir að St. Jósepsspítali tók til starfa árið 1926 var nauðsynlegt að flytja sundkennsluna vegna frárennslis sem leitt var frá spítalanum niður í sjó. Var sundkennslan þá fær að svokölluðum Gatakletti vestur á Krosseyrarmölum og var sundskálinn fluttur með. Sundkennslan var þar í tæpan áratug en þá þurfti að flytja hana aftur þar sem mengunar var farið að gæta á svæðinu frá fiskvinnslustöðvum þar. Var sundaðstaðan þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn.
Eins og gefur að skilja var aðstaðan aldrei góð til sundiðkunar á meðan synt var í köldum sjónum. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum og var það meðal annars Sundfélag Hafnarfjarðar sem vildi „beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulúður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gegnlegustu íþrótt alla íþrótta, sund.“ Á næstu árum komu upp hugmyndir um byggingu laugarinnar við Strandgötu, við leikfimishús barnaskólans og loks við Krosseyrarmalir upp af Gatakletti. Það var svo árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun, sem Ágúst Pálson byggingarmeistari hafði unnið, af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.“
„Vígsla laugarinnar – Föstudaginn 10. september 1943 mátti lesa í dagblaðinu Fálkanum eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: „Sundlaugin í Hafnarfirði varð vígð á sunnudaginn annan er var að viðstöddu miklu fjölmenni. Er hjer um hið merkilegasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Í anddyrinu er aðgöngumiðasala fyrir gestina og afgreiðsla á handklæðum og sundskýlum. Þá tekur við rúmgóður forsalur en úr honum er gengið inn í búningsklefana…“
„Sundlaug verður Sundhöll – Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var gömlu kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Fljótlega eftir opnun sundlaugarinnar fóru að heyrast raddir um að æskilegt væri að sundlaugin yrði yfirbyggð til að hægt væri að nýta hana betur allt árið. Skiptar skoðanir voru um málið og töldu sumir heppilegast að setja á hana hreyfanlega yfirbyggingu sem hægt væri að opma yfir sumarmánuðina. Fallið var frá þeirri hugmynd og samið við Byggingafélagið Þór um að byggja yfir laugina árið 1951.
Í Hjálmur 1943 mátti lesa eftirfarandi um Sundlaug Hafnarfjarðar: „Sunnudaginn 29. ágúst var vígð og tekin í notkun sundlaug sú, sem verið hefur í smíðum hér undanfarin ár. Var vígsuathöfnin öll hin hátíðlegasta svo sem hæfði þessu tækifæri.
Sundlauginni þarf ekki að lýsa, þar sem öll blöð og útvarp hafa birt mjög ítarlega frásögn og lýsingu á henni og nú er fjöldi bæjarbúa búinn að kynnast henni af eigin raun. Hins vegar verður hér rakin í eins stuttu máli og mögulegt er saga sundlaugarbyggingarinnar: Óvíða á landinu er náttúran jafn ógjöful á sæmilegan baðstað og hér í Hafnarfirði. Þess vegna skapaðist hér fyrr hugmyndin um byggingu sundlaugar en víða annars staðar, þar sem nú eru fyrir löngu komnar sundlaugar.
Töluvert fyrir 1930 voru ýmis félög í bænum búin að samþykkja að styðja sundlaugarbyggingu og sum höfðu ákveðið að beita sér fyrir henni og fjársöfnun var hafin til sundlaugarbyggingarinnar. En allt þetta varð til lítils. Sundlaugarmálið sofnaði og var ekki vakið fyrr en 1934. Þá hélt Knattspyrnufélagið Haukar borgarafund um íþróttamál bæjarins og var sundlaugarmálið eitt af aðalmálum fundarins og var gerð í því máli ákveðin samþykkt. Nokkru síðar barst ýmsum félögum í bænum bréf frá bæjarstjóra, sem þá var Emil Jónsson, þar sem óskað var eftir tilnefningu þeirra í nefnd er forgöngu skyldi hafa um byggingu sundlaugar.
Urðu þessi félög við ósk bæjarstjóra og nefndin var skipuð þessum mönnum: Frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar Guðmundur Gissurarson, og var hann formaður nefndarinnar, frá Verkamannafélaginu Hlíf Grímur Kr. Andrésson, frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar Magnús Þórðarson (varamaður Magnúsar var Hans Ólafsson, sem vegna fjarveru Magnúsar tók mikinn þátt í störfum nefndarinnar, Jóngeir E. Davíðsson kom síðar í nefndina sem aðalmaður Sjómannafélagsins). Frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Kára, Loftur Bjarnason, frá Barnaskóla Hafnarfjarðar, Guðjón Guðjónsson, frá Kennarafélagi Hafnarfjarðar Hallsteinn Hinriksson og frá íþróttafélögunum Hermann Guðmundsson.
Nefndin hóf þegar starf sitt með því að athuga stæði fyrir væntanlega sundlaugarbyggingu, en varð ekki sammála um það, hvort í sundlauginni skyldi vera vatn eða sjór. Ósamkomulag þetta leiddi til þess að nefndin var ekki starfshæf um langan tíma og má segja að hér um bil 5 ár hafi farið í togstreitu milli þeirra tveggja hluta, sem nefndin klofnaði í.
Loks á árinu 1939 náðist samkomulag í nefndinni um að byggja sjósundlaug, sem standa skyldi á Krosseyrarmölum. Voru þá strax hafnar framkvæmdir og byrjað að grafa grunn fyrir sundlaugina, en vegna ýmissa örðugleika miðaði verkinu mjög hægt áfram þar til á árinu 1941. Þá var hafin bygging sjálfrar laugarinnar.
Árið eftir tók bærinn raunverulega sundlaugarbygginguna algerlega í sínar hendur með skipun þriggja manna í svo nefnt Sundráð, en í það voru skipaðir Guðmundur Gissurarson, Loftur Bjarnason og Ásgeir Stefánsson. Sundlaugarráðið hagaði þá þannig starfi sínu, að fullt tillit var tekið til samþykkta og ákvarðana sudlaugarnefndarinnar og á marga fundi Sundráðs var var sundlaugarnefndin kvödd.
Fyrir dugnað og framtak sundráðs gekk bygging sundlaugarinnar mun betur en hægt var að búast við, og þann 29 ágúst var laugin komin upp og vígð, svo sem áður er að vikið. Er laugin hið myndarlegasta mannvirki. mun fullkomnari en áætlað var í fyrstu, en óyfirbyggð. Er það stór galli hvað snertir vetrarrekstur hennar, hins vegar er hún skemmtilegri óyfirbyggð að sumarlagi í góðri tíð.
Þetta er saga sundlaugarinnar til þessa, en saga hennar er ekki á enda þótt sundlaugin hafi verið vígð og tekin til notkunar, heldur er að eins um þáttaskifti að ræða og hefst nú nýr þáttur, sem ekki er síður þýðingarmikill en sá, sem liðinn er.
Er þess að vænta, að bæjarbúar geri sitt til þess að gera þann þátt sem glæsilegastan með því að nota laugina almennt, svo að hún verði í raun og sannleika til þroska og manndóms fyrir Hafnfirðinga.“
Í Sveitarstjórnarmál 1943 er fjallað um Sundlaug Hafnarfjarðar: „Sunnudaginn 29. ág. s. l. var opnuð til almenningsnota ný sundlaug í Hafnarfirði.
Fór sú athöfn fram með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni bæði úr Hafnarfirði og Reykjavík.
Sundlaug þessi er mikið mannvirki, er tekur yfir 700 fermetra svæði og er ein hæð. Hún er sjólaug og er við Krosseyrarmalir, í kvos vestan undir hraunbrúninni. Sjónum er dælt i laugina með rafmagnsdælu, hitaður upp með kolum og rafmagni og hreinsaður í fullkomnum hreinsunartækjum, sem vélsmiðjan Hamar í Reykjavík smíðaði og setti upp.
Sjálf laugarþróin er að stærð 25X8.5 m. Dýptin í grynnri endann er 90 cm, en 5 m í dýpri enda. Grynnri hluti laugarinnar er um helmingur af lengdinni, en með jöfnum halla frá 90 cm til 100 cm; úr því dýpkar ört í 5 m. Hrákarenna með niðurföllum er umhverfis alla laugina, enn fremur eru gangpallar með fram allri lauginni og eru að breidd 2 til 2.5 m. Búningsklefum, böðum og afgreiðslu er komið fyrir við grynnri enda laugarinnar…
Bygging sundlaugarinnar hófst á árinu 1940, en tafðist á ýmsan hátt vegna vöntunar á nægilegu vinnuafli og vegna erfiðleika með að fá efni og alls konar tæki. Upphaflega var ákveðið að byggja sundlaugina með almennum samskotum og þá valin nefnd, er í áttu sæti menn frá ýmsum félagssamtökum í Hafnarfirði og frá bæjarstjórn. En vegna þess hve mannvirkið reyndist umfangsmikið og dýrt, vegna hinna breyttu tíma, varð niðurstaðan sú, að bærinn byggði laugina með styrk úr ríkissjóði. Alls söfnuðust 30 þúsundir króna með frjálsum samskotum. Gerð og fyrirkomulag sundlaugarinnar var ákveðið í samráði við húsameistara ríkisins, íþróttafulltrúa og íþróttanefnd ríkisins. Sundlaugin mun bafa kostað alls rúml. 500 þús. kr., og verður framlag frá ríkissjóði að líkindum 2/5 kostnaðar.
Sundlaugin er rekin af Hafnarfjarðarkaupstað, og fer kennsla þar fram bæði fyrir skólanemendur og almenning. Með byggingu sundlaugarinnar hafa Hafnfirðingar hrint í framkvæmd miklu nauðsynja- og menningarmáli fyrir þennan mikla útgerðar- og sjómannannabæ.“
Alþýðublað Hafnarfjarðar fjallaði um byggingu sundlaugarinnar 1953 (blaðið var ekki gefið út 1943) undir fyrirsögninni „Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð – Hátíðleg athöfn kl. 2 í dag!“
„Hin nýja Sundhöll Hafnarfjarðar verður vígð á morgun. Hefur verið byggt yfir gömlu opnu sundlaugina og hafa þær framkvæmdir allar staðið yfir síðan á miðju árið 1951 að fjárfestingarleyfi fékkst fyrir byggingunni en þá hafði árangurslaust verið sótt um slíkt leyfi frá því árið 1947. Auk yfirbyggingarinnar var reist viðbygging að norðanverðu yfir þrjá stóra vatnsgeyma fyrir loftræstingarkerfið, böðin og miðstöðina. Er sundhöllin nú hituð bæði með rafmagnsnæturhitun og olíu. Ýmsar lagfæringar hafa verið gerðar á böðum laugarinnar, búningsklefar lagfærðir og endurbætur gera að á miðasölu o.fl. Er afar snyrtilega frá öllu gengið. Salurinn er bæði hitaður upp með miðstöð og lofthita en það loft er alltaf ferskt, tekið beint að utan, ekki hitað upp á ný. Sundhöllin verður opnuð á morgun kl. 14 með hátíðlegri athöfn. Á eftir verður fólki gefinn kostur a að skoða mannvirkið til kl. 3.30 en þá verður að rýma húsið svo hægt sé að hefja sundmótið „Reykjavík – Utanbæjarmenn“ kl. 5 e.h.“
Það var svo árið 1976 sem skipt var um þak á sundhallarasalnum auk sem hitaveita var lögð í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til his betra. Árið eftir voru settar upp tvær setlaugar í sólskýri laugarinnar og affallsvatn notað til að hita stéttar og sólskýli og við aðalinngang.“
Í umfjölluninni segir m.a.: „Sundhöll Hafnarfjarðar verður opnuð með hátíðlegri viðhöfn í dag, laugardag, 13. júní kl. 2 e.h. Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur, stuttar ræður flytja: Stefán Gunnlaugsson, formaður íþróttanefndar Hafnarfjarðar, Helgi Hannesson, bæjarstjóri, Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi og Jón Egilsson, formaður ÍBH. Að því loknu verður fólki gefinn kostur á að skoða stundhallarbygginguna. Kl. 5 hefst svo sundmót og keppa þar Reykvíkingar við sundmenn úr Hafnarfirði og utan af landi.
Bæjarstjórnarmeirihluti Alþýðuflokksins hefur alla tíð lagt á það áherslu og að því unnið eftir því sem efni og ástæður hafa leyft á hverjum tíma, að íþróttamönnum þessa bæjar yrði sköpuð viðunandi skilyrði til iðkunar hinna ýmsu íþróttagreina. Því íþróttir geta verið heilsusamlegar og göfgandi og eru eitt af því ákjósanlegasta, sem ungir menn og konur taka sér fyrir hendur í tómstundum sínum. Nú er það að vísu svo, að skilyrði og aðstæður til íþróttaiðkanda hér í bæ eru enn ekki svo góðar, sem æskilegast væri. En vafalaust stendur það til bóta og er þess að vænta, að sameiginlegt átak íþróttamanna og bæjarfélagsins í þessum málum megi í náinni framtíð skapa hafnfirskri íþróttaæsku þau skilyrði sem hún megi vel við una.
Bygging sundlaugarinnar
Bygging sundlaugarinnar var á sínum tíma einn liður í þeirri stefnu Alþýðuflokksmeirihlutans í bæjarstjórn, að bæta aðstæður til íþróttaiðkana.
Þýðing upphitaðrar sundlaugar er augljós. sem heilsulind og orkugjafi þeirra, sem hana skja. Auk þess er sundkunnátta nauðsynleg hverjum manni, til þee að bjarga sínu lífi og annarra frá drukknun.
Yfirbygging sundlaugarinnar var áframhald og einn liður þeirrar stefnu Alþýðuflokksins sem miðar að því að skapa Hafnfirðingum sem best og fullkomnust tæki til gagnlegra íþróttaiðkanda og hollra tómstundaskemmtana.
Bygging sundhallar ákveðin
Yfirbygging sundlaugarinnar er mál, sem búið er að vera á döfinni nú um nokkurra ára skeið. Til að byrja með voru um það nokkuð skiptar skoðanir, hvort að rétt væri að byggja yfir laugina eða ekki.
Árið 1947 ákvað svo Alþýðuflokksmeirihlutinn í bæjarstjórn að láta til skarar skríða og hefja framkvæmdir þá þegar. En til þess að svo gæti orðið, varð fjárhagsráð að leggja blessun sína yfir þá fyrirætlun Alþýðuflokksins og veita fjárfestingarleyfi til byggingarinnar. Fjárhagsráð synjaði. Árin 1948, 1949, 1950 og 1951 voru aftur sendar umsóknir og alltaf synjaði fjárhagsráð. Þá varð það að fulltrúi Alþýðuflokksins, Baldvin Jónsson, í fjárhagsráði áfrýjaði ákvörðun meirihluta ráðsins, sem voru fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, til þess ráðherra í ríkisstjórn, sem fer með íþróttamál. Fulltrúar frá bæjarstjórn og íþróttasamtökunum hér í bæ fóru á fund ráðherrans til að ræða þetta mál. Árangurinn af þeirri málaleitan varð sá, að áfrýjun fulltrúa Alþýðuflokksins í fjárhagsráði var tekin til greina og fjárfestingarleyfið loksins veitt.
Allt frá árinu 1947 var að því unnið af hálfu bæjarstjórnar, að fjárfestingarleyfi fengist. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárhagsráði stóðu ávallt gegn þessari málaleitan Hafnfirðinga. Fulltrúi Alþýðuflokksins var sá eini í fjárhagsráði, sem ætíð var málinu fylgjandi og greiddi því atkvæði sitt.
Sundhallarbyggingunni lokið
Strax og fjárfestingarleyfið var fengið var hafist handa um byggingarframkvæmdirnar. Byggingafélagið „Þór“ h.f. tók að sér að gera bygginguna fokhelda. Yfirsmiður var Sigurbjartur Vilhjálmsson, en múrarameistari var Sigurjón Jónsson.
Tréverk annaðist Gestur Gamalíelsson, trésmíðameistari og Byggingafélagið „Þór“ h.f. Málarameistarar voru Aðalsteinn Egilsson og Þórður Sigurðsson. Miðstöðvarlagningu önnuðust Vélsmiðjan Klettur h.f. og Jón Pálsson. Rafvirkjameistari var Sigurjón Guðmundsson. Vatnsgeyma smíðuðu Bror Westerlund og Rafha. Hamar h.f. sá um smíði lofthitunartækja. Yfirumsjón með byggingarframkvæmdum öllum hafði sundhallarforstjórinn Yngvi R. Baldvinsson.
Jafnframt því sem byggt hefur verið yfir laugina, voru gerðar ýmsar endurbætur og lagfæringar á böðum og búningsklefum, komið á rafmagnsnæturhitun, svo hin nýja sundhöll verður upphituð með hvoru tveggja, olíu og rafmagni. Upphitun á sundhallarsalnum er frá lofthitun og ofnum. Reist var viðbygging við sundhallarhúsið að norðanverðu, yfir vatnsgeyma.
Byggingarkostnaðurinn mun nema um 850 þús. kr. Byggingu sundhallarinnar er nú lokið, að öðru leyti en því, að eftir er að múrhúða húsið að utan og útbúa sólskýli, sem fyrirhugað er að verði suð-austan við sundhöllina. Standa vonir til að því verki verði lokið sem fyrst.“
Heimildir:
-Upplýsingaskilti utan og innan Sundlaugar (Sundhallar) Hafnarfjarðar.
-Hjálmur, 7.-8. tbl. 18.09.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Sveitarstjórnarmál 01.12.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 31-32.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 13.06.1953, Bygging sundlaugarinnar, bls. 1 og 4.