Svæðisskipulag Suðurnesja 1987-2007 – skýrsla
Í skýrslu Samvinnunefndar um skipulagsmál á Suðurnesjum og gefin var út árið 1989 koma fram margir áhugaverðir punktar um náttúruminjar, menningarminjar og útivist. Þessir eru helstir:
1. Mosaþemban (gamburmosi) er einkennisgróður á Suðurnesjum.
2. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Má með sanni segja að gamburmosi sé einkennispnanta Reykjanesskaga.
3. Um aldir hefur svæðið verið ofnýtt af mönnum og skepnum, þar sem sauðfé nagaði stráin, en mannfólkið hjó kjarrið og reif lyngið til eldiviðar meðan eitthvað var eftir í þessu mýrarlausa og þá um leið mólausa landi. Sandfok tók einnig stóran toll af gróðrinum. Búseta manna hefur því haft mjög mikil áhrif á gróðurfarið og því miður hafa þau áhrif í flestum tilvikum verið til hins verra hingað til.
4. Skilningur íbúa á friðun lands hefur verið að aukast.
5. Á áratug má sjá árangur friðunnar vestan svonefndrar Grindvíkurgirðingar, en það hefur verið friðað fyrir beit þann tíma.
6. Kjarrlendi á í vök að verjast bæði vegna uppblásturs og beitar, sem er alls staðar nema innan skógræktargirðingar.
7. Um Reykjanessfólkvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins.
8. Mosaþemba er útbreiddasta gróðurlendið. Henni er skipt í fernt: 1. Í einföldustu mynd, 2. með lyngi, 3. með lyngi og kjarri, 4. og með grasi.
9. Reykjanesskagi er ákaflega eldbrunninn og eru sprungur og gígaraðir algengar. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum sem runnið hafa eftir að jöklar síðasta jökulsskeiðs hopuðu. Á Reykjanesi munu jöklar hafa horfið fyrir um 12-13 þúsund árum, nokkru fyrr en víðast annars staðar á landinu.
10. Á Suðvesturhorninu er áhugi fólks á útiveru og náttúruskoðun mikill. Reykjanesskaginn er eins og stór sýningarsalur fyrir það afl sem skapar Ísland, þ.e. eldvirkni.
11. Mikill hluti Reykjanesskagans er þakinn nútímahraunum. Þeim má skipta í tvo flokka eftir uppruna þeirra og útliti. Annars vegar eru hraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum (apalhraun). Hins vegar eru hraun sem runnið hafa frá svonefndum dyngjum (helluhraun).
12. Utanverður Reykjanesskagi einkennist af þremur stórum dyngjum; Sandfellshæð, Þráinsskyldi og Hrútargjárdyngju.
13. Nokkrar minni dyngjur eru á Reykjanesi og eru þær flestar svonefndar „píkrit“ dyngjur, s.s. Skálafell, Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Hraunssels-Vatnsfell.
14. Hraun á sögulegum tíma eru t.d.; Stampahraun (1226), Tjaldstaðagjá (1226), Klofningshraun (1226), Eldvarpahraun (1226), Illahraun (1226), Arnarseturshraun (1226), Afstapahraun (runnið skömmu eftir landnám), Ögmundarhraun (1151), Hraun vestan Mávahlíða (1151 eða síðar), Kapelluhraun (1151), Flatahraun (Hvaleyrarholtshraun) (1000), nokkur hraun í Brennisteinsfjöllum (runnin eftir landnám og einhver á fjórtándu öld), nokkur hraun í Heiðmörk (runnin eftir landnám).
15. Auk þess hefir oft gosið á sögulegum tíma í sjó undan Reykjanesi og munu flest þau gos hafa verið í grennd við Eldey.
16. Dæmi um menningarminjar eru; Drykkjarsteinn, selsrústir, varir og uppsátur, Skagagarður og gamlar þjóðleiðir.
17. Síðasta stóra goshrinan á Reykjanesi var um landnám opg önnur fyrir um 2500 árum.
18. Grindavík er reist á hrauni sem rann fyrir 2000-2500 árum frá Sundhnúkagígum.
19. Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari, og fer það saman við bergmyndun hans; móbergssvæði, grágrýtissvæði og mójarðveg á Miðnesheiði.
20. Gildi útivistar- og íþróttasvæða hefur aukist mikið hin síðar ár.
21. Einn mikilvægasti þáttur í skipulagi útivistar eru göngur og útivera.
22. Fá svæði á landinu eru auðugri að menningarminjum. Sumir vitna um forna atvinnuhætti, t.d. gamlar verstöðvar og seljarústir. Tilvalið væri að skipuleggja útivist og ferðamál með tilliti til þessa. Þeirra á meðal eru gömlu þjóðleiðirnar, en á svæðinu eru margar leiðir og bera flestar nafn. Sums staðar vitna hófklöppuð för í hraunklappir um það hversu fjölfarnar þær voru. Nauðsynlegt er að þeim verði haldið við og varðaðar upp.
23. Nauðsynlegt er að opna útivistarsvæði fyrir allan almenning.