Sveifluháls frá Vatnsskarði – Arnarvatn – Bæjarfell

Arnarvatn

Lagt var af stað efst í Vatnsskarði um kl. 10:30 þann 17. júní 2000.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalur syðri.

Gengið var sem leið lá suður hálsinn, vestan við Miðdegishnúk og niður í Nyrðri-Folaldadal, eftir sléttum sandbotna dalnum og upp á hálsinn aftur við suðurenda hans. Þegar komið var á móts við Stapatinda var tækifærið notað til að dáðst að útsýninu suður eftir Syðri-Folaldadal í fjallgarðinum, í átt að Arnarvatni. Þarna er mosvaxinn hraunhóll og móbergshólar um kring. Sunnan við hólinn eru fallegir skessukatlar. Gengið var niður í dalinn um móbergsskarð og síðan áleiðis eftir sléttum botninum. Þegar komið var í miðjan dalinn heyrðist allt í einu og mjög skyndilega mikill þytur úr suðaustri, líkt og þota nálgaðist óðfluga.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalur nyrðri.

Skömmu síðar sást hvar Sveifluhálsinn reis undir nafni – gekk í sveiflum úr suðri, að því er virtist. Undir tók í fjöllunum allt í kring og stór grjót féllu úr þeim og skoppuðu niður í dalinn. Síðan tók við dauðaþögn. Fyrsta hugsunin var: „Skyldi nú vera byrjað að gjósa hér rétt hjá?“ Hvergi voru þó merki þess. (Síðar kom í ljós að skjálftinn reyndist rúmlega 7° á Richter).

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Haldið var áfram för, en skömmu síðar kom annar kröftugur jarðskjálfti, en mjög ólíkur hinum fyrri. Hann kom beint upp undir hálsinn. Steinar skruppu upp af jörðinni í nokkurs konar skjálftadansi. Stóð þetta í nokkrar sekúndur. Þegar skjálftinn hætti sást hvar skórnir höfðu grafist niður í mölina. Enn var svipast um eftir hugsanlegu gosi, en ekkert bólaði á því. (Reyndist vera 5.5°á Richter). Eftir að síðustu steinarnir stöðvuðust í dalnum varð grafarþögn. Síðan komu nokkrir minni skjálftar í kjölfarið, en þeir hristu einungis jörðina líkt og væri hún á floti. Gengið var fram á norðurbrún Sveifluhálsins. Á henni blasti við svipur tröllkarls, sem virtist fylgjast vel með öllu. Undir Núpshlíðarhálsi, við Djúpavatn, virtist fólk á hlaupum. Þar hafði greinilega grjót skroppið úr hlíðinni.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Þegar gengið var áfram suður hálsinn mátti víðs vegar sjá hvar björg höfðu losnað úr hlíðum og einnig hvar smásteinar á ákveðnum svæðum höfðu losnað og jafnvel snúist við. Þegar komið var upp að Arnarvatni mátti sjá sprungur í jarðveginum við vatnið að austanverðu. Gróðurhaft hafði losnað úr hlíðinni að sunnaverðu. Stapatindur í norðaustri, eitt af prýðunum á hálsinum, stóð þó óhaggaður.

Miðdegishnúkur á Sveifluhálsi

Miðegishnúkur á Sveifluhálsi.

Það sem eftir var leiðarinnar mátti víða sjá hvar stórt grjót hafði losnað og skroppið niður gróðurhlíðar, s.s. norðan við Hettu. Þoka skall á þegar komið var suður fyrir Arnarvatn svo fara þurfti þétt með norðanverði hlíðinni. Þegar áætlað var að Krýsuvík væri handan við hálsinn var lagt á hann, upp bratta brunahlíð. Í þokunni glytti í gang á milli tveggja gíga. Haldið var eftir honum og síðan beygt aftur til suðurs. Var þá komið niður í gróinn dal nokkuð norðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Beitilegur dalur, Bleikingsdalur, en farin að láta á sjá í botninn. Aðeins sunnar á hálsinum tók við náttúrulega flórað hellusvæði.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið var niður á veg, Drumbdalastíg, austan við Borgarhól 6 klst. eftir að lagt hafði verið af stað. Þá átti eftir að ganga að Bæjarfelli þar sem bíll beið. Fylgt var gamalli götu frá fjárbyrginu á Borgarhól, um mela, eftir flóraðri brú að vörðu norðan vegarins og síðan áfram að gömlu réttinni sunnan Bæjarfells.
Veður var frábært – sól og hiti.

Sveifluháls

Sveifluháls – gönguleiðin rauðlituð.