Svipast um á Suðurnesjum II – Glampar af Góusól

Staðarhverfi

Birgir Kjaran skrifaði þrjár greinar í Lesbók MBl árið 1960 um Suðurnes, einkum þó Grindavík og nágrenni. Fyrsta greinin birtist í apríl. Í grein II segir m.a.:
 Staður„Eftir því sem við nálgumst Stað fer  samtalið að snúast meira um bóndann þar. Gamalíel heitir hann Jónsson, nefndur Manni… Ég hef hitt hann einu sinni áður. Það var í stormi, og við gengum þá fram á bjargið að hlusta á brimið, og ég man að hann sagði þá: „Brimið er hreinast, þegar hann gengur úr austri í vestur. Annars getur verið jafn mikið brim, þótt logn sé, ef sjór er á hafinu“. Ég man, að hann kallaði þetta hálfpartinn í eyra mér undan rokofsanum. Það er meir en ár síðan það var.
Staður er eina byggða býlið, allt frá Grindavík út að Reykjanesvita. Þarna hafa verið nokkur önnur býli, en þau eru öll í eyði, og á okkur mæna, þegar við förum hjá, húsatættur með rúðulausum gluggum, rétt eins og tómar augnatóftir í hauskúpu. Og með allri ströndinni liggur hvítur rekaviðurinn í sandinum rétt eins og mannabein. Við stöldrum við í fjörunni í Arfadalsvíkinni áður en við ökum í hlað á Stað. Við göngum um sandinn.
Þarna eru þönglar og fallegar rótarhnyðjur reknar frá fjarlægum löndum. Þarna eru líka ígulker og bláskel, sem eiga heima á Íslandi. Við völsum um rústirnar af gamalli sjóbúð og skimum til hafs. Úti í hafsauga er togari. Nær landi fara mótorbátar. Loðnan fer að koma.
Gamalíel Jónsson á Stað - ManniBóndinn tekur á móti okkur og býður okkur til stofu. Þetta er bóndinn á Stað. Hans er röddin, þessi djúpa og glettnislega, og augnatillitið. Þau búa þarna fjögur. Dóttirin sextán ára stendur fyrir heimilinu, og svo eru það synirnir 12 og 14 ára. Hann á tvö önnur uppkomin börn sem eru gift og búa í Grindavík. Konuna missti hann í fyrra.
En það er margt fleira í heimili á Stað. Enda þótt við værum komnir þar annarra erinda, verð ég að geta þess heimilisliðs að nokkru, áður en lengra er haldið. Það er þá fyrst tveir sérlega fríðir kettir. Það eru móðir og sonur. Bæði skjallahvít með dökka kollhúfu og bröndótta rófu. Hún heitir Rósa, og litli prinsinn hennar heitir Presley, eftir söngvarnum stórfræga, tjáir Agnes heimasæta mér. Svo eru það hundarnir, og þeir eru hreinustu kjörgripir. Báður svartir með hvíta bringu, hvíta blesu frá enni og fram á trýni og hvítar framlappir og lafandi eyru. Þeir heita Lappi og Snati. Þetta eru ekki neinir hversdagshundar. Þetta eru hinir ágætustu veiðihundar, fræknir minkabanar: „Það var upphaf málsins, að hér varð allt vaðandi í mink, hreint alls staðar. Svo varð það, að ég eignaðist tík, og einn dag var hún hjá mér, þar sem ég var að gera að upsa.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Upp sprettur þá minkur undan einum upsanum. Ég arga tíkinni á dýrið, og hún drap það. Það var sá fyrsti. Svo vandi hún hvolpana, sem ég fékk til að veiða“. Tíkin er dauð, en nú á Manni Lappa og Snata, fyrirtaks veiðihunda. Eitt sinn veiddu Manni og hundarnir hans 35 minka.
-„Ég hef venjulega borgað útsvarið mitt með minkaskottum“, segir Manni og hlær. Hann á alveg stórkostlegan hlátur. Hann sækir hláturinn djúpt niður. Það er eins og verið sé að starta traktor.
Þeir eiga líka góða daga hundarnir hans Manna. Meðan húsfreyjan lifði, færði hún þeim alltaf bolla af mjólk kvöld og morgna þegar hún kom úr fjósinu. Og hún bræddi út á fiskinn handa þeim rétt eins og heimilisfólkinu. Þeir eru líka hændir að húsbóndanum og heimasætunni. Ég spyr bónda um samkomulagið á heimilinu milli manna, hunda og katta og annarra húsdýra. „Þetta venst allt saman, hundar og kettir“, segir Manni. „Það er helzt haninn, sem leggur í hundana. Það vantar ekki rostann í hanann“.
SnatiEn það eru fleiri meinvættir en bannsettur minkurinn, sem Manni og hundarnir eiga í útistöðum við. Það er vargurinn. Hér er einn ógurlegur dýrbítur á ferðinni. Nýlega hafa fundizt átta kindur dauðar. Hroðalega útleiknar. Hann stekkur aftan á þær og rífur þær að aftan. Ein var með slitið hold inn að þriðja hryggjarlið aftan frá. Hana hafði króað dýrið inni í hellisskúta. Kindurnar leggjast niður, og þeim blæðir út. – „Ljóta andskotans bestían“, segir Manni. „Sennilega gamalt, grimmt og tannlaust, og ræst því ekki framan að og bíttur í snoppuna. Það eru ein býsn af þessum fjanda hér. Vantar trúlega á annað hundrað lömb á svæðinu frá í vor. Er ákaflega erfitt að finn varginn í hrauninu. Og þó kemur það fyrir. Einu sinni fann ég meira að segja silfurrefalæðu í greni og náði yrðlingunum og seldi þá. En maður er nú ekki alltaf svo heppinn“, bætti hann við. – Ég skýt því inn í, að trúlega hafi þó verið meira um tófuna á Nesinu hér áður fyrr, því einhversstaðar komi Þorvaldur Thoroddsen því að í sinni reisubók, að þegar hann fór frá Ósum úti á Nesinu, hafi verið þar „mesti sægur að tófum“; þær hlupu hér fram og aftur og voru að leika sér í kringum hestana, meðan við fórum framhjá“. – Manni kannast við það og segir okkur, að fóstri föður hans, Jón Gunnlaugsson vitavörður á Reykjanesi, hafi um aldamót eitt sinn fengið fimm í einu skoti fyrir neðan Flagghólinn við vitann. Það hafa verið yrðlingar, sem voru að fljúgast þarna á. Bitdýrin hafi líka verið heil plága í tíð föður hans. Dýrið drap fyrir honum þrevetra sauð. Hann var með bjöllu, mesti kjörgripur. Það var austur á Bíldarhól. Hóllinn dró nafns af því, að þar fannst sauðurinn dauður.
– „Þá seig í þann gamla“, segir Manni okkur. „Hann fór heim í hænsnakofann sinn, eitraði egg og lét í bælið. Skömmu seinna kom hann þarna að, og kemur heim, sú lágfætta hafði étið tvö egg og var byrjuð á þriðja egginu, en það fjórða ósnert. Hún stóð þarna upp á endann, bara á sínum fótum, svona níu faðma frá skrokknum af sauðnum. Stóð bara stirð. Karlinn hafði látið almennilega í það eggið af fyrirtaks dönsku eitri“.
Fyrrum bæjarstæðið á StaðÞað rekur ótal margt á Staðarfjörur. einu sinni rak mikið af súluungum. Þá höfðu þeir eyjamenn farið í Eldey og lent í vondu og misst mikið af súluungum í sjóinn. Á ófriðarárunum skolaði mörgu á þessar fjörur. Þá ofgerði Gamalíel á Stað starfskröftum sínum. Var einn og hjálparlaus að bisa við þetta. Stærsta tréð, sem rak, var 12″x12″ 47 faðma kantað tré  -„Nú orðið rekur minna, sem betur fer“, segir hann okkur bóndinn, „og svo eru þeir farnir að stela rekanum. Kærði nýlega einn, sem staðin var að verki“.
„Alltaf er mér minnistæður hann Jón heitinn Ólafsson, bankastjóri, Það var í kreppunni, rétt eftir 1930. Okkur pabba lék hugur á að eignast trillu – kostaði 3500,00 – og enginn peningur til, – og við aldrei í banka komið. Við vorum víst líka heldur uppburðarlitlir, þegar við stóðum þarna á miðju gólfi frammi fyrir sjálfum bankastjóranum og stundum upp erindinu. Þegar Jón Ólafsson heyrði að pabbi var fyrrverandi vitavörður af Reykjanesi, stóð ekki á fyrirgreiðslunni og þegar hann tók í hendina á pabba og kvaddi hann, sagði hann: „Þakka þér fyrir ljósið, sem þú gafst mér alltaf á þeim árunum“. Það var þegar Jón var til sjós. Slíkur maður var hann Jón Ólafsson bankastjóri, get ég sagt ykkur piltar mínir“, segir Manni á Stað, og Góusólin glampar í björtum augum, undir svipmiklum brúnum á veðurbörðu andliti.“

Heimild:
-Birgir Kjaran – Svipast um á Suðurnesjum II – Lesbók Morgunblaðsins apríl 1960, bls. 204 – 208.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.