Sýslusteinn – Keflavík – Bergsendar
Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.
Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.
Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.
Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.
Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.