Færslur

Þingvellir

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Rit Kålunds.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kristian Kålund segir m.a. eftirfarandi fróðlegt um Þingvelli:

Brúsastaðir

Hlautsteinn við Brúsastaði.

“Um Mosfellsheiði liggur leiðin að hinum gamla þingstað, Þingvöllum. Farið er framhjá fyrst bæ í Þingvallasveit, Kárastöðum (norðar eru Brúsastaðir, og er sagt, að þar sé hringmynduð tóft, nefnt “Hof”), þá þegar er mikið stöðuvatn, Þingvallavatn, komið í augsýn ásamt fjöllunum handan vatnsins. Þá liggur vegurinn allt í einu niður milli hraunkletta, beygir skyndilega til vinstri og breytist í brattan stiga, sem liggur meðfram klettunum milli hraunrana niður í gjárbotninn. Þar er sem sé Almannagjá, sem nú er verið að fara niður í og vegurinn liggur gegnum eða réttara sagt á ská með háum vesturveggnum. Niður af þverhnípinu steypist eins og glitrandi hvítt band fallegur lítill foss, þar er Öxará og kemur að vestan.

Öxurárfoss

Öxarárfoss.

Þegar Ketilbjörn fór í landkönnunarferð sinni frá Skálabrekku (þar sem hann hafði reist skála) kom hann, segir í Landnáma 385, að á þar sem þeir misstu öxi sína, og nefndu ána því Öxará. Sturl. I 57 bætir hér við mjög einkennilegri frásögn – sem er þó sennilega ekki annað en heimildarlaus sögusögn ð að ánni hafi síðan verið “veitt í Almanngjá og fellur nú um Þingvöll”. Það er sem sé ekki auðskilið hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita Öxará, sem vestan Almanngjár rennur um lítt gróna hraunsléttu, niður í þetta gljúfur, hefði farvegur hennar ekki verið upphaflega þar; ekki verður heldur séð, hvernig hún hefði átt að renna í Þingvallavatn án þess að renna í Almannagjá.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár – loftmynd.

Mjög glöggur farvegur liggur til vesturs frá Öxará. Hefst hann við ána rétt fyrir vesta Öxarárbrú vestur af Almanngjá, þá austan við Kárastaði og loks út í Þingvallavatn skammt austan Skálabrekku. Hefur Kålund ekki athugað staðháttu á þessum stað og telur frásögnina sennilega ekki annað en heimildarlusa sögusögn. Þremur árum eftir að I. b. bókar Kålunds kom út, kom Sigurður Vigfússon á staðinn (1880) og skoðaði farveginn rækilega og tók m.a. fram, að vatnasnúnar klappir sjáist í farveginum skammt austan Skálbrekku og sé hann kallaður “Árför” eða “Árfar”, en fram undan árósnum heiti í vatninu “Urrðarálar” og “Árfarsgrynning” þar í kring. Kålund og Guðni Jónsson telja báðir erfitt að sjá, hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita ánni niður í Almannagjá. En Jón Jóhannesson bendir á augljósa ástæðu. Hann aðhyllist skýringu Sigurðar Vigfússonar (Árb. Fornl. 1880-81) og segir síðan; “Það virðist því lítil ástæða að rengja þessa sögu, enda var það mikið hagræði fyrir þingsækjendur að hafa gnægð af fersku vatni á völlunum, auk þess sem ekki þarf að ætla fornmönnum, að þeir hafi verið sljóir fyrir þeim fegurðarauka, sem Öxará með fossi sínum er þingstaðnum”.

Þingvellir

Öxará loftmynd. Enn er óljóst hvort áin hafi verið breytt í farvegi fyrrum eða hvort hún hafi einfaldlega breytt sjálf um farveg eftir jarðskjálftan  1789.

Árið 1789 varð mikill jarðskjálfti í þessum landshluta, Þingvallahrauni (þ.e. svæðinu milli Almanngjár og Hrafnagjár), og vatnið breyttist, norðurströndin seig niður fyrir vatnsborð; einnig varð hrun í Almanngjá, og á mörgum öðrum stöðum hrundu klettar. Fram að þeim tíma hafði þjóðleið til og frá Þingvöllum legið meðfram hallanum fyrir neðan austurbarm Almanngjár, og enn sjást merki um reiðgötur þar, en fast niður við vatnið lá leiðin þvert yfir sprungur og hraun – eða raunar þar fyrir neðan. Við landsig það sem varð af jarðskjálftanum, komst gamli vegurinn víða undir vatn og var lagður af.

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Um breytingar á Þingvallahrauni í jarðskjálftanum 1789, sjá Espólín, Árb. IX, b. 61. Við þetta má bera saman Nturhistorie-Selskabets Skriver III. B., útdrátt úr dagbók Sveins Pálssonar; hann segir þar (191), að við jarðskjálftann 1789 hafi allt landssvæðið milli Almanngjár og Hrafnagjár “sigið rúmlega alin eða meira, og var það auðséð á klettunum norðan til í Almanngjá, þar sem mátti mæla, hversu mikið jörðin hafi sigið, og hið sama má sjá að austanverðu á landinu við Hrafnagjá, en greinilegust sönnun var Þingvallavatnið sjálft, sem gekk langa leið yfir strendur sínar að norðan, en þornaði að sunnan. (Ferðabók 100)).
Þessi staður var valinn samkvæmt Íslendingabók (8) til allsherjar þingstaðar við stofnun Alþingis árið 930, eftir að Grímur geitskór (geitskör) hafði ferðast um Ísland í þrjú ár til að leita að Þingstað, og síðan hefur alþingi (hið yngra alþing), eða eins og síðar var kallað, eftir að landið hefði misst sjálfstæði sitt, Öxarárþing” verið haldið þar, þangað til að það síðasta sem eftir var af gamla alþinginu hvarf í lok síðustu aldar.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

Náttúran hefur gert allt til að staðurinn væri hinn hentugasti til þinghalds (ekki aðeins staðurinn sjálfur er hagkvæmur, heldur enn fremur lega hans), og tilviljun hjálpaði einnig til, að landið lá á lausu. Maður er átti land í Bláskógum, hafði verið gerður sekur fyrir þræls morð eða leysingja er Kolur hét. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn til alþingis neyslu. “Af því er”, heldur Íslendingabók áfram, “þar almenning að viða til alþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossa hafnar.”
Við Kol er kennd, segir á sama stað, gjá sú, er síðan er kölluð Kolsgjá (Colsgeá) þar sem “hræin” (flt) fundust.
Enginn veit nú neitt um Kolsgjá. Árni Magnússon, sem með mestu gaumgæfni safnaði fróðleik í meira en 40 ár til áðurnefndrar þýðingar Íslendingabókar, sem hann vann að frá því fyrir 1688 og allt til dauða síns 1730, tekur fram með tilliti til Kolsgjár: Kolsgjá er mér sögð að sé sunnanvert við pláss það er Leirur kallast norður frá Þingvelli – og bætir því við, að heimildarmaður hans hafi verið séra Þorkell Árnason (Dómkirkjuprestur í Skálholti 1703-7, sennilega sonur Árna prófasts Þorvarðarsonar, prests á Þingvöllum 1677-1702; sjá “Prestatal” Sveins Níelssonar IV. 17. sbr. IV. 14), en séra Þorkell hafði það eftir mönnum, sem höfðu heyrt séra Engilbert nefna þess gjá þannig. Séra Engilbert Nikulásarson var prestur á Þingvöllum 1617-69 (Prestatal Sveins Níelssonar IV. 14). (Kolsgjá er sem sagt suðurendi Sleðásgjár, sunnan við Leirur).

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Bærinn Þingvöllur (nú prestsetur) er í nánu sambandi við Alþingi, einnig kirkja og kirkjugarður. Fast fyrir vestan prestsetrið er kirkjugarðurinn rétt við ána, kirkjan aftur á móti er nú norðan við bæinn á túninu, sem liggur nokkuð hátt. Samkvæmt Heimskringlu (II. 214), sbr. Flateyjarbók (III. 247, 344) má ætla, að Ólafur helgi hafi fyrstur látið reisa kirkju á Þingvelli; þó er nefndur í Njálu nokkrum árum áður “bænda kirkjugarður” (312). Ólafur gaf við til kirkjunnar og klukku mikla (þá sem enn er þar); seinna sendi Haraldur harðráði aðra klukku til kirkjunnar. Hann hefur sennilega einnig sent við til smíðar hennar, a.m.k. er sagt (Kristni s. 30, Hungrv. 71), að í ofviðri á dánarári Gissurar biskups (1118) braut kirkju á Þingvelli, þá er Haraldur konungur Sigurðarson hafði gefið við til.
Finnur Jónsson segir í Kirkjusögu sinni (IV. b. sbr. Espólín, Árb. II 38-39), að Alexíus Pálsson, síðasti ábóti í Viðey, hafi fyrst) í upphafi 16. aldar) verið prestur á Þingvelli, og hann hafi látið flytja kirkjuna frá kirkjugarðinum, þar sem hún var, á þann stað þar sem hún er nú, vegna vatns sem vall upp úr jörðinni, og segir að sýndir séu stórir steinar, nefndir Ábótasteinar, í kirkjuvegg, sem þessi afar sterki maður á einn að hafa flutt.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Í Þingvallakirkju sagði lögsögumaður upp lögin, ef veður var illt (Grg. 117. gr.); þar voru þingheyjendur við guðsþjónustu, svo sem sjá má af sögum.
Um áðurndnda Ábótasteina segir Þingvallaprestur í fornminjaskýrslu sinni (1817), að Alexíus eigi að hafa flutt frá einhverums tað tvo steina, sem hér séu hvor í sínum kirkjukampi, og hinn þriðja, sem liggi fyrir kirkjudyrum.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja á 19. öld.

Steinninn í nyrðri vegg er sagður 2 álna hár og mjög breiður, en hinir 2 1/4 alin hvor, og sá sem er í suðurkampii sé stærstur og úr þyngstu bergi. Á honum og þeim sem liggur gagnvart dyrum á að vera gamalt alinmál. – Samkvæmt lagagrein, sennilega frá því um 1200 (Dipl. Isl. I 309, einnig prentað í Grágás II 250), var þá kvarði merktur á kirkjuvegg á Þingvöllum og í sjálfum lögunum, þar sem ákveðið var fyrir ókomna tíma við mælingu klæðis að nota stiku álnar langa; einnig var ákveðið að slík stika skyldi vera nerkt við hverja graftarkirkju.
Vant var að segjam hvort nokkuð er varðveitt af þessu gamla lengdarmáli sem merkt var á kirkjuvegg á Þingvöllum. Páll Vídalín segir í Fornyrðingum lögbókar í greininni “alin” (þar sem hann reynir að sýna að gamla íslenska alinin hafi verið 18 1/2 þuml., og þvi hefði stikan verið um það bil ein sog enskur yard; sjá Dipl. Isl, I 306-308), að enginn um hans daga hafi þekkt þennan stein á kirkjuvegg á Þingvöllum, sem gamla alinmálið hafði verið höggvið á, og þar að auki bendir hann á, að kirkjan var flutt af sínum gamla stað. Þó segist hann hafa heyrt að á tímum þeirra sem lifðu í bernsku hans, hafi enn mátt sjá steininn í kirkjuveggnum.

Þingvellir

Alin-málssteinninn framan við Þingvallakirkju – letur.

Jón Ólafsson frá Grunnavík segir í orðabók sinni undir orðunum “alin” og “kvarði” að presturinn á Þingvöllum, Markús Snæbjörnsson (sennilega þegar hann bjó hjá honum um þingtímann 1744) að þegar hann nálægt 1740 var að endursmíða kirkjuna, hefði hann fundið í grunninum bjarg, sem á var merkt alin, styttri en venjuleg alin (þá var venjulega notuð á Íslandi Hamborgaraalin, 21 9/11 þuml. löng (sjá Dipl, Isl. I 307), og áleit hann að þar hefði verið gamla íslenska alinmálið, sem átti að vera merkt á kirkjuvegg á Þingvöllum.

Þingvellir

Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.

Þennan stein hafði prestur látið setja í vegginn að utan, svo allir gætu séð hann utan frá. Jón Ólafsson bætir við, að seinna hafi fólk sem kom á þingstaðinn, mælt alinmálið sem í steininn var höggvið, og fundið að að það kom nákvæmlega heim við þá lengd sem Páll Vídalín hafði sagt vera hina elstu íslensku alin. Fornminjaskýrslan frá upphafi þessarar aldar bendir ekki aðeins á einn, heldur tvo steina sem gamla alinmálið á að vera merkt á; af þeim var þó aðeins annar í kirkjuvegnum, en hinn fyrir framan kirkjudyr, stakur. Af honum er til teikning ásamt lýsingu eftir þáverandi kammerjunkt Teilmann, sem heimsótti Ísland 1820, af athugasemdum við teikninguna má sjá að þá hefur verið litið svo á að þvert yfir framhlið steinsins lægi lárétt lægð, um 5 kvartila löng, er skyldi sýna alinmálið (sem hefur þá nánast verið “stika”).
Einnig nú stendur fyrir kirkjudyrum steinn og talið er á hann sé höggvið alinmálið, sem er alveg eins og Teilmann sýndi. Auk áðurnefndrar lægðar er á framhlið steinsins níu mislöng skáset þverstrik, og er nú almennt litið svo á, að þau komi við alinmálinu, en Teilmann virðist ekki hafa ætlað þeim neina merkingu. Eru um 19 þuml. milli ystu (sem se nálægt því sem íslensk alin var). Varla er vafi, að þessi álnasteinn er hinn sami og Teilmann teiknaði, og sá sem Teilmann fann fyrir kirkjudyrum er hinn sami og fornminjaskýrslan lýsir, Ekki er gott að segja, hvar sé að leita hins álnasteinsins, þess í kirkjuveggnum, því að gamla torfkirkjan var rifin 1859 og timburkirkja kom í staðinn. Hitt verður að liggja milli hluta, hvort einhver þeirra álnarsteina sem nefndir eru í fornminjaskýrslunni, er sá sem Markús Snæbjörnsson fann (Sigurður Guðmundsson telur í “skýrsu um Forngripasafn Íslands I 117, að núverandi alinmálasteinn á Þingvöllum sýni hið rétta gamla alinmál, sem hann segir 17 1/1 þuml.”
Sjá meira um alinsteininn á Þingvölllum HÉR.

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 65-106.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Þingvellir

Þingvellir 1866.