Færslur

Hrútargjá

Hríðarbylur var þegar lagt var af stað í fylgd jeppamanna á stórum dekkjum um Djúpavatnsveg að Hrútargjárdyngju.

Húshellir

Við Húshelli.

Ætlunin var að skoða Húshelli og Maístjörnuna, tvo af fallegri hellunum hér á landi. Talsverður snjór var á veginum sem og mikill skafrenningur til að byrja með. Reyndar sást enginn vegur. Ekið var þar um sem vegstæðið hafði verið síðast þegar vottaði fyrir því. Þurftu jeppamennirnir að hafa mikið fyrir því að komast hvert hið stysta fet því fyrir sérhver tvö áfram þurfti að aka eitt aftur á bak; eitthvað sem fótgangendur áttu ekki vana til, nema kannski í bröttustu skriðum.

Annars er betra að nefna ökutæki þessi meirivagna, en ökumennina jeppa, sbr. seppa, serpa eða lappa. Þaðan gæti verið, við seinni tíma skýringar, komið orðatiltækið “menn að meiri”. Við slíkar aðstæðir jeppast þeir áfram, beintengjast bæði vél og vagni – verða hluti af farartækinu – allt verður að einni samstæðu. Minnivagnar eru þá hinir dæmigerðu fólksbílar. Annars skiptir stærð ökutækisins engu máli. Það eina, sem skiptir máli, er hvaða augum eigandinn lítur á það og hverju það getur áorkað að hans áeggjan.

Húshellir

Í Húshelli.

Miklu máli skiptir þó að búa meirivagnanna nægilega stórum dekkjum, bæði til þess að hægt sé að hleypa úr þeim notuðu lofti og til að bæta í þau nýju þegar komið er í ómengað umhverfið. Allt er þetta spurning um heilsusamlegt og náttúrulegt líferni, bæði fyrir mann og meirivagn.
FERLIRsfólkið tók lífið með stóískri ró meðan jepparnir lifðu sig inn í tækið og tæknina, það naut umhverfisins – lágrenningsins og órjúfanlegt samspils fannar og fjalla. Það tók fram stellið, hellti kaffi í bolla, hallaði sér aftur, nartaði í nestið og skiptist á upplýsingum. Jepparnir voru á meðan ýmist að festa eða losa, úti eða inni, slíta tóg eða hleypa út notuðu lofti. En þrátt fyrir fyrirhöfnina virtust jepparnir alls ekki síður hafa gaman að því sem þeir voru að gera.

Húshellir

Í Húshelli.

Þegar komið var á áfangastað brast skyndilega á hið ákjósanlegasta gönguveður, eins og lofað hafði verið – sól og stilla. Gengið var niður með dyngjunni austanverðri og til norðurs milli gjáa hennar og Sandfells. Stefnan var tekin á Fjallið eina. Þegar komið var út fyrir dyngjuna var stefnan tekin til norðvesturs. Snjór hafði fokið í öll op og sprungur, en ekkert þeirra gat leynst fyrir GPS-tækinu.

Jepparnir voru orðnir þreyttir eftir u.þ.b. 17 mín. langa göngu, enda á ómynstruðum skóm og í ofurkuldasamfestingum í hitanum.

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Minnsti maðurinn, sem átti stærsta meirivagninn, hafði líka gengið nokkrum sinnum upp úr skónum sínum á leiðinni. Reyndust þeir alltof stórir – til gönu a.m.k. Svo heppilega vildi til að annar jeppi var í skóm nokkrum númerum of litlum. Hann hafði fjárfest í nr. 38, sömu stærð og dekkinn voru í tommum undir meirivagninum hans. Munurinn var bara sá að ekki var hægt að rýmka skóna með loftdælingu. Hann hafði talið þetta númer henta honum best við þessar aðstæður, líkt og dekkin, en féllst nú á, að fenginni reynslu, að skipta á sínum skóm við minni manninn á stærri skónum. Að því búnu var hægt að hefjast handa við að moka hópinn niður í jörðina.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Eftir stutt stund var leiðin inn í hellana greið. Þegar inn var komið voru jepparnir á heimavelli – útsýnið þar var mun skárra en í svartasta hríðarkófi upp á jökli. Þeir voru góðir í að þrengja sér um torfærur, þrengsli og hliðarrásir, en áttu erfitt með að taka því þegar hverfa þurfi frá vegna hruns eða allt varð ófært framundan. Og fyrst skoðunin gekk svo vel sem raun ber vitni var ákveðið að kíkja einnig í Aðventuna. Öllum þessum hellum er lýst í öðrum FERLIRslýsingum svo það verður eigi gert hér.
Í ferðinni kom berlega ljós hversu jepparnir geta verið margbrotnir, enda komu fáir þeirra alveg óbrotnir til baka. Þurfti að styðja suma, en aðrir voru bara látnir liggja – eftir að bíllyklarnir höfðu verið teknir af þeim. Þeir verða sóttir næsta vor.
Frábært veður. Gangan tók 34 mín, en skoðunin heldur lengri tíma.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.