Hér á eftir verður fjallað um „Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.
„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: „Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum“.
Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
„Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.
Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. … Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.
Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla“ …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.
Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.
Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: „Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima“.
Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: „Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt“.
Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: „Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi“.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: „Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar“. …
Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:
1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.
Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.
Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.
Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): „Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.
Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.
Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.
Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): „Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum“.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.
Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.
Heimild:
–Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.