Tag Archive for: aftökur á Íslandi

Aftaka

Í áfangaskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu“ frá árinu 2018, segir m.a.:

Inngangur

Dysjar hinna dæmdu

Forsíða áfangaskýrslunnar um „dysjar hinna dæmdu“.

„Skömmu eftir siðaskiptin færðist réttur til refsinga frá kirkju til veraldlegra valdhafa. Var þá farið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr að beita líkamlegum refsingum fyrir hvers kyns afbrot. Nýjum lagabálki, Stóradómi, var einnig bætt við gildandi lög en dæmt var eftir honum í siðferðisbrotamálum. Fólk var einkum tekið af lífi fyrir fimm flokka brota. Það var fyrir blóðskömm, dulsmál, morð, þjófnað og galdra en einnig fyrir iðkun kaþólskrar trúar. Fyrsta dómsúrskurði um dauðarefsingu var raunar ekki fullnægt hérlendis fyrr en seint á 16. öld. Árið 1551 voru aftur á móti fimm karlmenn teknir af lífi án dóms og laga í trúarbragðastríði því sem ríkti vegna siðaskiptanna. Frá 1582 urðu aftökur síðan nær árlegur viðburður og allt til ársins 1792 en þá fækkaði þeim verulega aftur. Síðasta aftakan fór svo fram árið 1830 eftir 25 ára langt hlé en dauðarefsingar voru ekki afnumdar úr íslenskum lögum fyrr en árið 1928.“
Það verður að segjast eins og er að stundum ferst fólki ekki fyrir er kemur að uppgreftri hinna dauðu.

Markmið rannsóknarinnar

Kuml

Kuml.

„Markmiðið með rannsókninni sem hér er sagt frá er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1551–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráð en einnig verður bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þess verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta, og tilraun gerð til þess að greina bakgrunn líflátinna og um leið ástæður brotanna. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð.

Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma.
Dysjar hinna fordæmdu
Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni (sjá t.d. Spivak 1988; Therborn 1999; 2013; Young 2003).

Kuml

Kuml.

Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir í að minnsta kosti fimm ár en hún hófst í maí árið 2018. Vinnan þetta fyrsta ár fólst að miklu leyti í að taka saman heimildir um dauðarefsingar á Íslandi og að gera gagnagrunn yfir þá einstaklinga sem teknir voru af lífi. Nær gagnagrunnurinn yfir öll þau mál sem getið er um í Annálum Íslands 1400–1800 auk örfárra annarra mála sem fundust fyrir tilviljun meðan á vinnslu hans stóð. Listinn yfir þær aftökur sem hér fóru fram er vafalaust ekki tæmandi, því eftir er að fara markvisst yfir héraðsdómsbækur og þjóðsögur, auk þess sem Alþingisbækurnar voru aðeins lesnar að hluta. Við gerð gagnagrunnsins var fyrst og fremst litið til dauðadóma sem var framfylgt.

Kuml

Kuml.

Dæmi þess að dauðadómar væru mildaðir af konungi eru mörg, sér í lagi frá síðari hluta 18. aldar og nær listinn ekki yfir slík mál. Hins vegar voru dauðadæmdir einstaklingar sem létust áður en aftaka þeirra fór fram skráðir enda má ætla að dauðadómum þessara einstaklinga hefði verið framfylgt hefðu þeir lifað. Þá eru talin með tilvik þar sem ekki er vitað hvort dauðadómi var fylgt eftir eða ekki. Farnar voru vettvangsferðir til fjarkannana eða uppgraftar á samtals átta aftökustaði sumarið 2018 og verður sagt nánar frá þeim hér á eftir. Eins voru stakir beinafundir kannaðir en fara þarf betur yfir þá staði þar sem óútskýrð mannabein hafa fundist. Loks var farið yfir þá uppgrefti sem hafa verið gerðir á dysjum dauðadæmdra.

Um líflátsdóma og aftökur á Íslandi
Dysjar hinna dæmdu
Elstu ákvæði um dauðarefsingar er að finna í Járnsíðu frá 1281 og litlu síðar í Jónsbók en heimildir um aftökur fyrir siðaskipti eru þó fáar. Og enda þótt ákvæði um dauðarefsingar hafi verið til í íslenskum lögum allt frá 13. öld og þeim framfylgt að vissu marki, mörkuðu siðaskiptin – líkt og fyrr getur – upphaf hrinu dauðarefsinga sem lauk seint á 18. öld.

Drekkingahylur

Drekkingarhylur, málað á staðnum á Þingvöllum. Höfundur er Guðlaugur Jón Bjarnason.

Við siðaskiptin var iðkun kaþólskrar trúar bönnuð og fólki refsað fyrir slík brot. Stærsta breytingin varð hins vegar þegar Danakonungur fyrirskipaði með bréfi rituðu árið 1554 að sýslumenn skyldu taka við afgreiðslu dóma vegna hvers kyns afbrota í stað kirkjuvaldsins. Um leið var kristniréttur Árna biskups frá 1275 afnuminn (DI XIV, bls. 271–276; Már Jónsson 1993, bls. 90–93). Eftir það var dæmt til dauða hérlendis fyrir alla þá fimm flokka brota sem nefndir eru hér að framan. Það er raunar ekki fyrr en Stóridómur var innleiddur í landslög árið 1564 að dæmt var til dauða fyrir ýmis siðferðisbrot, eins og til dæmis blóðskömm en það var samræði var haft í náinni frændsemi og fyrir þriðja hórdómsbrot. Átti að drekkja konum en hálshöggva menn fyrir slík brot (DI XIV, bls. 271-276).

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Stóridómur tók reyndar ekki á hinum svokölluðu dulsmálum, þ.e. þegar leynt var farið með fæðingu barns og því fargað. Hins vegar var getið um dauðarefsingu fyrir slík brot í dönskum lögum og var lengi vel dæmt eftir þeim hérlendis þó aðferðir við aftökur væru frekar í takt við ákvæði Stóradóms (Már Jónsson, 2000). Karlar voru því nærri alltaf hálshöggnir og konum oftast drekkt þótt að í sumum tilfellum hafi þær einnig verið höggnar á háls; Ingibjörg Jónsdóttir var til að mynda hálshöggvin fyrir dulsmál árið 1792. Þá gætti áhrifa siðaskiptanna ekki síst í galdramálum þegar kom að dauðadómum. Ýmis konar hvítagaldur sem kaþólska kirkjan hafði réttlætt töldu siðskiptamenn hættulegan og þeir sem fundnir voru sekir um kukl og meðferð galdrastafa voru brenndir á báli (Sigurlaugur Brynleifsson, 1976).
Af samantektinni, sem hér hefur verið gerð yfir dauðadóma, sést glögglega að karlar sem dæmdir voru fyrir morð voru nær alltaf hálshöggnir og sumir pyntaðir að auki.

Þingvellir

Þingvellir – Drekkingarhylur.

Fyrir dauða sinn árið 1596 var svo dæmi sé tekið Axlar-Björn limmarinn með sleggjum og árið 1752 var Kjöseyrar-Jón klipinn fjórum sinnum með glóandi töngum áður en hægri hönd hans og loks höfuð var höggvið af og sett á stöng öðrum til viðvörunar. Eitt dæmi er þess að manni væri drekkt fyrir morð. Hann hét Ögmundur Þorkelsson og hafði sjálfur drekkt syni sínum. Ýmsum aðferðum var beitt við aftöku á konum sem dæmdar voru fyrir morð en líkt og í tilfelli Ögmundar virðist stundum gilda nokkurs konar „auga-fyrir-auga” lögmál. Guðrún Þorsteinsdóttir var til að mynda brennd á báli árið 1608 fyrir að hafa brennt barn í grautarkatli norður í Þingeyjarþingi og árið 1706 var Kristínu Björnsdóttur drekkt en hún hafði sjálf drekkt 6 vetra gamalli dóttur sinni.

Að aftöku lokinni var fólk oftast dysjað á aftökustað, ýmist í gjótum eða í grunnum gröfum sem huldar voru grjóti. Svo virðist þó sem að þeir sem voru hengdir hafi verið látnir hanga í gálganum þar til reipin slitnuðu. Það kemur fram í þjóðsögum en laus bein hafa einnig fundist ofanjarðar við gálgakletta eða gálgagil (sjá t.d. Íslenskar þjóðsögur 1945, bls. 232).

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Eins voru höfuð þeirra sem voru hálshöggnir alla jafna sett á stöng við dysina og látin vera þar þangað til þau féllu sjálf til jarðar. Í einu tilviki er vitað til þess að höfuð tveggja líflátinna í sama máli hafi verið grafin á aftökustað skömmu eftir aftökuna en talið er að sveitungar þeirra hafi gert það þar sem þeim ofbauð meðferðin á líkunum. Um var að ræða síðustu aftöku á Íslandi (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir 2005). Þá eru að minnsta kosti tvö dæmi um að líflátnir hafi fengið greftrun í kirkjugarði eða við kirkjugarð – án helgiathafnar. Það voru þær Katrín Þorvarðsdóttir sem tekin var af lífi 1703 og Ingibjörg Sölvadóttir 1758 (Vallannáll, bls. 350; Ölfusvatnsannáll, bls. 46; Már Jónsson 2000, bls. 254).
Fimm dysjar dauðadæmdra hafa verið grafnar upp en auk þess hafa mannabein fundist á stöku aftökustað, einkum þá þar sem fólk var hengt. Hefur sumum þeirra verið skilað til Þjóðminjasafns en ekki öllum.

Gagnagrunnur yfir dauðadóma
Dysjar hinna dæmdu
Þegar gagnagrunnurinn lá fyrir sumarið 2018 var gerð samantekt um aldur og kyn dauðadæmdra, hvar þeir bjuggu og hver staða þeirra var. Þá var kannað í hvaða sýslum var dæmt og hvar aftökustaðirnir voru innan þeirra. Loks var tíðni brota af hverri gerð skoðuð og skoðað hvort samhengi var á milli þeirra og aðstæðna í samfélaginu. Ekki vannst tími þetta fyrsta ár rannsóknarinnar til að skoða bakgrunn böðla á Íslandi eða kanna afdrif barna og annarra afkomenda dauðadæmdra. Það verður gert síðar.

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

Samantektin á aftökum nær yfir 235 einstaklinga; 69 konur og 166 karla. Aðeins tókst að áætla aldur 112 einstaklinga sem dæmdir voru til dauða en af þeim var sá yngsti 14 ára og sá elsti 80 ára. Algengasta aldursbilið var 35–39.
Oftast féllu dauðadómar fyrir þjófnað, af þeim fimm gerðum brota sem dæmt var til dauða fyrir (morð, blóðskömm, dulsmál og galdra, auk þjófnaðar). Athygli vekur líka að aftökur fyrir þjófnað fóru eingöngu fram á 174 ára tímabili, frá 1584 til 1758, á meðan tekið var af lífi fyrir flest önnur brot allt tímabilið frá 1551–1830. Aftökur vegna galdra skera sig einnig úr fyrir þetta en þær fóru fram á enn styttra tímabili, frá 1625–1685, enda yfirleitt talað um galdrafár í því sambandi.
Hlutföll kynja í þessum tveimur flokkum er sömuleiðis áberandi ójöfn. Alls voru 75 einstaklingar hengdir fyrir stuld og af þeim voru tvær konur. Aðeins ein kona þó var í hópi þeirra 22 einstaklinga sem brenndir voru fyrir galdra. Karlmenn voru raunar einnig í meirihluta í morðmálum; 27 karlar hlutu dauðarefsingu fyrir morð en sex konur. Dauðadæmdar konur eru hins vegar áberandi fleiri en karlar í flokkum siðferðisbrota. Í annálum er getið um 34 konur sem teknar voru af lífi fyrir dulsmál en sex þeirra voru líka dæmdar fyrir blóðskömm. Ellefu karlar voru hálshöggnir fyrir dulsmál og voru sex þar af um leið dæmdir fyrir blóðskömm.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Kynjaskipting þeirra sem einungis hlutu dauðarefsingu fyrir blóðskömm er raunar nokkuð jöfn; 26 konur misstu lífið fyrir slík brot en 23 karlar.
Algengasti aftökustaðurinn voru Þingvellir en að minnsta kosti 72 einstaklingar voru teknir af lífi þar nær allt tímabilið sem hér um ræðir. Undantekningin er flokkur þjófa en þeir voru nær eingöngu teknir af lífi á á Alþingi tímabilið 1678 til 1703 og aðeins einn eftir það, árið 1726.

Kópavogsdysjar

Vettvangur Kópavogsdysja.

Einnig var algengt af aftökur færu fram á Kópavogsþingstað og í nágrenni við hann, í Elliðaá, á Bessastöðum og í Garðahrauni sunnan Bessastaða. Í Gullbringusýslu allri voru 22 teknir af lífi fyrir alla flokka brota. Dæmi um aðra algenga aftökustaði er Laugarbrekkuþing á Snæfellnesi þar sem ekki færri en fimm voru teknir af lífi og Gálgagil í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Reyndar fóru fram aftökur víðast hvar um landið. Að Norður-Þingeyjarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Skaftafellssýslum frátöldum voru skráðar aftökur í öllum sýslum.
Athygli vekur að tíðni aftaka milli ára var mjög breytileg og á vissum tímabilum má greina bylgjur í aftökum og því væri áhugavert er að skoða þessar bylgjur út frá sögulegu og félagslegu samhengi. Á það ekki aðeins við um galdra og þjófnað en augljós er fylgni milli fjölda aftaka fyrir þjófnað og verðurfars en ljóst er að þjófar voru oftast nær heimilislausir einstaklingar sem stálu sér til matar.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Hannes Finnsson skrifaði um hallæri: „Á árunum 1627–1641 gekk Hvítivetur harðast að, féll þá margt fólk, svo og í bólunni 1635.“ Engin hallæri voru næstu 30 árin en undir lok 17. aldar geisuðu langvarandi stórharðindi og mannfækkun. Um árin 1697–1701 skrifar hann: „Hallæri, svo og rán og þjófnaður gekk fram úr máta, en breytir til hins betra 1702.” Á fyrri hluta 18. aldar tilféllu engin hallæri en árið 1751 byrjuðu mikil harðindi sem náðu hámarki 1757. Á þessum tímabilum eru aftökur á þjófum áberandi margar og mannfækkun sömuleiðis Þeir Íslendingar sem teknir voru af lífi komu alls staðar af á landinu. Hægt var að finna búsetustað flestra þeirra við aftöku, nema síst þegar þjófar áttu í hlut enda voru margir þeirra heimilislausir flakkarar.

Lokaorð

Þingvellir

Þingvellir – Gálgaklettur.

Samantektin sem hér er sagt frá sýnir að hérlendis var samtals nærri 240 dauðadómum framfylgt fyrir alls fimm flokka brota frá 1550 til 1830 er síðasta aftakan fór fram í landinu. Raunar fóru flestar aftökurnar fram á um tveggja alda tímabili sem stóð frá 1582–1792.

Þingvellir

Í kirkjugarðinum á Þingvöllum.

Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi og aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758.
Það voru vissulega vonbrigði fyrir leitarfólk að finna engar dysjar á þeim þremur stöðum þar sem grafið var. En leit verður haldið áfram og aðrar dysjar sem þó sáust ofan jarðar á öðrum stöðum verða skoðaðar nánar síðar.“
[Þrátt fyrir allt framangreint í þessari annars „ágætu“ rannsókn má þó með engu móti sjá að í gagnagrunninum framangreinda sé getið hinna fjölmörgu kumla á vestanverðum Reykjanesskaganum, hvorki í Höfnum, Garði, á Vatnsleysuströnd, við Álftanes né í Kjós, en á þeim nánast öllum hafa áður bæði farið fram opinberar rannsóknir og uppgreftir.]

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – áfangaskýrsla 2018, Reykjavík 2018.
-https://notendur.hi.is/sjk/DYS_2018.pdf
-https://ferlir.is/kuml-i-gardi/

Þingvellir

Gengið um aftökustaði Þingvalla með Árna Björnssyni 2008.