Tag Archive for: Ágúst Lárusson

Klöpp

Eftirfarandi frásögn Ágústs Lárussonar var lesin í Útvarpinu, „Man ég það sem löngu leið“ (rás 1) 4. júní 2023 – á fæðingadegi Árna Guðmundssonar frá Klöpp í Grindavík (var áður á dagskrá 19. febrúar 1985).

Ágúst Lárusson

Ágúst Lárusson frá Kötluholti í Fróðársveit.

Ágúst Lárusson var frá Kötluholti við Hólm, kenndur við afa sinn. Þorsteinn Matthíasson les frásögnina, sem hann skrásetti. Ágúst fæddist í Stykkishólmi 27. ágúst 1902.

Í þessari frásögn segir Ágúst m.a. frá því er hann fór á vetrarvertíð í Grindavík aðeins 18 ára gamall. Hann lýsir mjög nákvæmlega öllum aðbúðnaði vermanna á þessum tíma, ekki síst samskiptum hans við Guðmund bónda Jónsson í Klöpp í Þórkötlustaðahverfi og son hans, Árna Guðmundsson.

Við byrjum þennan texta á frásögn Ágústs þar sem hann er kominn til Reykjavíkur árið 1921 á Breiðafjarðar-Svaninum ásamt félögum sínum, þeim Þorleifi Einarssyni í Hrísakoti og Matthíasi Matthíassyni frá Orrabóli á Fellsströnd í leit að vertíðarplássi. Matthías var ráðinn á bát Dagbjarts Einarssonar á Velli, síðar í Ásgarði, Grindavík. Formaður á bátnum var ráðinn Guðmundur Guðmundsson, Öxney. Við Þorleifur voru óráðnir.

Reykjavík

Reykjavíkurhöfn og Reykjavík 1920.

„Eftir sautján tíma siglingu komum við á Reykjavíkurhöfn, en ekki var farið upp að bryggju um kvöldið. Mér fannst mikið um ljósauppljómun byggðarinnar á landi og ólíkt tilkomumeira en ég hafði áður séð í umkomulitlu þorpunum á Snæfellsnesi. Þegar ég sá tvö ljós sem næstum saman á hreyfingu um göturnar þóttist ég vita að þar væru bílar á ferð. Um þá hafði ég lesið en aldrei séð þá fyrir vestan.

Um morguninn, miðvikudaginn 9. febrúar, var svo lagst upp að bryggju og það leyndi sér ekki hvaða merkisdagur var. Stúlkurnar, sem þarna voru á ferli, tóku mér sem fullgildum öskubera og hengdu utan á mig poka hvar sem þær náðu til. Því er verr að ég lét alveg undir höfuð leggjast að geyma neinn þeirra til minningar um fyrstu kveðjurnar frá höfuðstað landsins.

Hótel ísland

Hótel Ísland – mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Við vorum nú orðnir matarþurfi og maður sem ég kannaðist við vísaði okkur Þorleifi á Hótel Ísland. Þar keyptum við svo mat en skammturinn fannst okkur talsvert annar en á bestu bæjum í sveitinni og höfðum ekki áhuga á að heimsækja þann stað aftur.

Í mannþrönginni á götunum missti ég sjónar á Þorleifi og rölti því áleiðis upp á Laugaveg. Þar mætti ég manni, sem vék sér að mér og spurði hvort ég vildi ráða mig í skiprúm. Hann kvaðst vera úr Höfnunum en ég hafði sett mér það takmark að róa frá Grindavík, jafnvel þótt allir staðir á Suðurnesjum væru mér jafn ókunnir. Þessi Hafnamaður vildi líka aðeins taka einn mann á skip sitt og það kom ekki heim við ráðagerðir okkar Þorleifs að vera skipsfélagar.

Nú lagði ég leið mína niður að Herkastala. Þar hitti ég eldri mann sem spyr mig sömu spurningar og Hafnamaðurinn.

Herkastalinn

Herkastalinn í Reykjavík.

Það virtist auðsætt að í ferð í bænum voru útvegsbændur eða formenn þeirraerinda að manna skip sín. Mér leist þessi maður geðfelldur svo ég spyr hvar hann eigi heima og hver hann sé. Hann sagðist heita Guðmundur og eiga heima í Klöpp í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík og sagði að hann vantaði tvo menn á skip sitt. Ég kvaðst fús að ráða mig hjá honum, en lét þess jafnframt getið að með mér væri félagi minn, verkamaður og sjómaður, og við hefðum ráðgert að vera í sama skiprúmi um vertíðina. Ég sagði sem var að ég væri óvanur brimlendingu. Nú kemur Þorleifur til okkar og þá var málið leitt til lykta og við vorum báðir orðnir hásetar á skipi Guðmundar frá Klöpp.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús Hjálpræðishersins að Austurgötu 26.

Um nóttina gistum við félagar á Herkastalanum og ákváðum að fara árla næsta morgun áleiðis til Grindavíkur. Eftir gamla veginum suður Vatnsleysuströndina var okkur sagt að vegalengdin myndi vera 56 kílómetrar. Ég bjó mig til göngunnar eins og ég var vanur heima hjá mér með buxnaskálmarnar brotnar niður í sauðsvarta ullarsokka sem merktir voru með Á og L…
Ég axlaði pokann minn við dyr Herkastalans, skóskipti þurfti ég ekki að hafa en félagar mínir röltu á sínum spariskóm með sjópokann á höndunum. Þeir vildu ekki láta sjá sig á Reykjavíkurgötunum með poka á bakinu eins og útgegnir sveitamenn…

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina. Myndina málaði sænskur málarisem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Talið er að myndin sé máluð í kringum 1950.

Þá var næst að spyrja vegfarendur um leið til Grindavíkur og í því efni fengum við greið svör. Félagar mínir settust nú niður við vegbrúnina þegar út úr þéttbýlinu kom og höfðu skóskipti. Síðan öxluðu þeir sína poka á sama hátt og ég og við héldum áfram til Hafnarfjarðar. Þegar þangað kom þurfi Matthías endilega að koma við á Hjálpræðishernum því faðir hans var starfandi foringi í þeim félagsskap. Auðvitað tafði þetta ferð okkar. Stúlkurnar á Herkastalanum ráðlögðu okkur að koma við á Stóru-Vatnsleysu og biðjast þar gistingar, en þessi leiðsögn þeirra dugði skammt því þegar við komum suður á Hvaleyrarholt var orðið nær fulldimmt. Loftið var alskýjað og tröðningarnir suður hraunið illsjáanlegir.

Auðnar

Auðnar á Vatnsleysuströnd.

Loksins sáum við staura þeim megin vegarins þar sem Stóra-Vatnsleysa er. Þar sáum við hlið og ljós bregða fyrir á lukt. Við gengum í þá átt og hittum fyrir mann hjá stóru íbúðarhúsi. Við vörpuðum á hann kveðju og spurðum hvar við værum staddir. Hann kvað bærinn vera Hvassahraun og bóndinn þar héti Sigurður Sæmundsson. Þarna fengum við svo gistingu um nóttina og skömmu eftir að við voru sestir að komu þangað tveir bræður og þáðu einnig næturgriða. Þeir voru af Miðnesinu.

Almenningsvegur

Almenninsgvegurinn um Vatnsleysuströnd.

Næsta morgun var hið ákjósanlegasta veður, en ekki höfðum mikið gagn af samfylgd Miðnesinga. Við sáum heim að Stóru-Vatnsleysu og sýndist okkur bátur fljóta skammt frá landi. Við heldum áfram en svo fór okkur að svengja og sækja að okkur þorsti því við gengum rösklega. Okkur datt þá í huga að fara heim að litlum torfbæ sem stóð nærri veginum. Þar hittum við úti miðaldra mann. Ég hafði orð fyrir félögum mínum og spurði hvort hann gæti selt okkur mjólk og brauð. Nei, hann kvaðst ekki geta það því hann ætti enga mjólk. Svo bætir hann við. „Það fórst bátur í nótt hérna við ströndina. Af honum drukknuðu fimm menn. Einn þeirra var bróðir minn“. Þetta var vélbáturinn Haukur sem stundaði róðra frá Sandgerði. Hann mun hafa lent á grynningum vegna myrkurs. Við fórum síðan heim að Auðnum og fengum þar bestu fyrirgreiðslu sem ég borgaði fyrir sem til stóð enda þótt konan vildi ekkert taka fyrir greiðann. Stefán, bóndi á Auðnum, var ekki heima, en kom um það leiti sem við voru að fara. Hann hafði verið á slysstaðnum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Við héldum svo áfram suður ströndina og voru samferða manni sem ætlaði út í Leiru. Leiðir okkar skildu á vegamótum Grindavíkur og Keflavíkur. Í hrauninu skammt frá Svartsengi náði okkur vörubíll á leið til Grindavíkur. Á pallinum var staflað vörupokum og á þeim sátu nokkri menn. Okkur var boðið að koma upp á pallinn og sitja þar til Grindavíkur eða ofan í Járngerðarstaðahverfið. Þessu boði tókum við feginshendi og var þetta mín fyrsta ferð á bíl.
Síðasti áfangi ferðarinnar var svo úr Járngerðarstaðahverfinu og austur í Þórkötlustaðahverfi – og þar með var lokið átta daga ferð að heiman.
Mér er minnisstætt þegar ég kom að Klöpp í þetta sinn. Margrét Árnadóttir, kona Guðmundar, tók á móti mér og það var eins og hún rétti mér hlýjar móðurhendur. Hjá þessum hjónum var ég síðan sex vertíðir. Þá hættu þau að hafa sjómann á heimilinu. Bátur Guðmundar í Klöpp hét Lukku-Reynir og formaðurinn á skipinu var Árni sonur hans, sem nú er níutíu og þriggja ára. Við erum tveir eftir lifandi af þeim ellefu mönnum, sem reru á skipinu þessa vertíð, en þá var Árni á þrítugasta árinu.
Guðmundur Jónsson og margrét Árnadóttir í Klöpp.Ég var í fyrstu hálfhræddur að róa úr brimlendingu. Það hafði ég aldrei reynt áður, en eftir eina sjóferð var þeim ótta lokið. Enda fékk ég starx traust á formanninum. Lendingikn, sem við rerum frá, hét Buðlungavör og var klettaglufa fyrir neðan Þórkötlustaði.
Í byrjun vertíðar skipaði formaðurinn hásetunum til rúms eins og þeirra áttu að sitja, tíu saman undir árum. Ég var settur í andófsrúm á stjórnborða. Allar árarnar voru merktar með skorum í árastokk frá eitt til fimm og var númer fimm fremsta árin á hvoru borði.

Sjómenn

Sjómenn í Grindavík.

Allir menn sem ráðnir voru upp á kaup fengu frí skinnklæði og sjóvettinga. Sjóvettlingarnir voru merktir hverjum manni. Minn litur var blár og hélst svo út allar vertíðirnar. Þegar við fórum í aðgerð fengum við aðra vettlinga, en þjónustan tók sjóvettlingana og þvoði þá og þurrkaði eða skipti um vettlinga sýndist henni þess þörf og afhenti svo hverjum manni fyrir næsta róður. Skinnklæði voru sauðskinnsbrækur með kálfskinssetjara og sauðkinsstakkur. Öll voru þau lýsisborin. Sjóskór voru úr sútuðu leðri. Hver maður annaðist sín sjóklæði.

Róðurinn hófst með því að formaðurinn kallaði háseta sína til skips. Hann sótti beituna og skipti henni á milli lagsmanna þeirra er beittu bjóð saman, tveir og tveir. Vanaleg línulengd í hverju bóði voru fimm hundruð krókar.

Seilað

Seilar í vör.

Beitan var geymd í ískassa, sem hafður var í torfkofa sem safnað var í snjó eða klaka þegar færi gafst til. Það var ekkert frystihús í Grindavík og síld til beitar var sótt á hestum til Keflavíkur – stundum jafnvel borin á bakinu. Til að drýgja síldina var notuð svokölluð ljósabeita, þ.e. karfi, steinbítur og ýsa.Þetta var látið í ískassann og fryst með. Einnig var beitt gotu, en hana var ekki hægt að frysta. Á vorin um sumarmál voru lögð grásleppunet og þá vitjað um þau áður en farið var að beita. Ásamt öðru var beitt hrognum og öðru innan úr grásleppunni og var það kallað að beita ræksnum. Oft veiddist vel á þetta.

Buðlungavör

Buðlungavör.

Í Buðlungavör var ævinlega seilað út inn í vörina. Formaðurinn var með stjakann á meðan og sá um að halda skipinu á floti. Bakborðmegin var há klöpp en stórgrýtisurð stjórnborðsmegin. Þegar búið var að seila voru seilarnar dregnar upp að urðinni eins og þær flutu, bundnar þar saman og látnar vera meðan sett var. Hvert skip hafði sitt markaða pláss upp á klöppunum og út af því var aldrei breytt. Eftir að sett hafði verið var fiskurinn borinn upp á klappirnar í burðarólum og þaðan í kassabörum á skiptivöll. Formaðurinn var á skiptivelli og deildi afanum í sjö köst, þ.e. fjórtán hluti; þrjá hluti fyrir skipið og veiðafærin og svo ellefu mannahluti. Þótt einhver væri veikur og gat þess vegna ekki róið fékk hann alltaf sinn hlut.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Þegar skiptum var lokið var farið heim og borðað og svo hófst aðgerðin. Lagsmenn, sem áttu kastið saman, unnu að því í félagi. Allt var hirt.
Fiskurinn var saltaður, sundmaginn tekinn úr hverjum fiski um leið og hann var flattur. lifur og gota lögð inn hjá bræðslumanni, sem alltaf var ósár okkur á lýsissopann. Hausar og hryggir voru þurrkaðir og slorið látið í forina til áburðar. Allt var þetta borðið í kassabörum heim af skiptavelli. Mannshöfnin var eina aflið til allra verka, bæði á sjó og landi. Að lokinni aðgerð var lónan stokkuð upp ef ekki leit út fyrir ræði næsta dag, annars var beitt að kvöldi.

Tíróin áttæringur

Tíróinn áttæringur í Grindavík.

Fyrsti róðurinn minn í Grindavík var 17. febrúar 1921 í góðu veðri og reitingsafla. Þá fannst mér ég hafa verið tekinn í þann skóla sem lífsframi minn byggðist á. Um einkunnina læt ég svo samferðamenn mína dæma. Formennirnir þarna voru snillingar í sinni grein, a sjá út veður og sjólag, oft í náttmyrkri. Ekki voru veðurfregnir útvarpsins til að styðjast við, en þeir voru flestir fluglæsir á rúnir loft og laga.

Árni í TeigiÉg skal hérna nefna eitt dæmi af mörgum. Þeir feðgar Guðmundur Jónsson og Guðmundur sonur hans lágu báðir rúmfastir vegna lungnabólgu. Rúm Guðmundar eldri var langt frá glugga svo hann sá ekki neitt til sjóar. Það var blíðviðri, en brimmikið og allir bátar með net í sjó svo mikill hugur var í mönnum að komast út til að draga. Einn maður úr Þórkötlustaðahverfinu var búinn að kalla menn sína til skips og byrjaður að setja ofan af. Ég kom upp á loftið til Guðmundar sem farinn var að hressast og bað mig um að spila við sig, en það var hans uppáhaldsskemmtun. „Það þýðir ekkert“, sagði ég, „það verður róið. Einn er byrjaður að setja ofan“. Þá segir gamli maðurinn: „Það er alveg óhætt að spila við mig. Það fer enginn út úr Buðlunguvör i þessu brimi. Ég heyri hvernig brýtur í Bótinni“. Þetta reyndist rétt. Sá sem byrjaður var að setja ofan varð að setja upp aftur. Hann hafði aldrei lag til að komast út.
Hann Guðmundur á Klöpp hefur oft verið búinn að hlusta á tóna sjávarins þau fjörutíu ár sem hann hafði verið formaður. Og hann kenndi Árna syni sínum og sú kennsla tókst vel.
Ingveldur og ÁrniÁrni var mikill sjómaður, heppinn aflamaður, öruggur og gætinn formaður. Hann var ljúfmenni í samskiptum við háseta sína og talaði aldrei styggðaryrði til nokkurs manns. Einu sinni hvatti hann okkur til að róa vel. Það var 14. mars 1926. Þann dag var mikið brim. Þá fórst skip Jóns Magnússonar í Baldurshaga í Járngerðarstaðasundi. Þegar við lögðum á leiðina vestur fyrir Nesið sagði Árni: „Róið þið nú vel, piltar mínir“ og ég held að við hefðum hlítt því og ekkert dregið af okkur. Ég þekki Árna vel og er viss um að í þetta skipti hafi hann beðið Guð um að stýra sínu fari heilu heim.

Klöpp

Gamli Klapparbærinn árið 2020.

Vertíðaraflinn var ákaflega misjafn, stundum voru bestur hltir um tólfhundruð, aðrir ekki nema um sexhundruð. En fyrir þessum afla var mikið haft, ekki síst þegar loðnan gekk á miðin og aflahrotan kom á Hraunsvíkina. Þá var svefntími sjómannanna stundum ekki langur. Á lokadaginn 11. maí var oftast búið að taka upp netin og þá var líka fiskurinn horfinn af miðunum. Þá fóru allir aðkomumenn, hver til síns heima. þegar leið á tók heimþráin aðkomumenn föstum tökum.

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftir kili bátanna á klöppinni.

Svo næsta vetur þegar kom fram í janúar var hugurinn jafn sterkur að komast í verið. Þetta líkist dálítið farfuglalífi.“

Umfjöllun Ágústs Lárussonar birtist m.a. í Sjómannadagsblaði Snæfjellsbæjar og í Sjómanndagsblaði Grindavíkur árið 1999.

Sjá meira HÉR.

ÓSÁ.

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8h0

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)