Færslur

Mosfellsbær

Í Álafosskvos í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos.

“Árið 1896 hófst ullarævintýrið á Álafossi en þá lét Björn Þorláksson (1854-1904) bóndi og hreppstjóri á Varmá reisa ullarvinnsluhús hér á árbakkanum og nýtti vatnsaflið til að knýja tóvinnuvélarnar. Fyrsta húsið sem reist var á staðnum stendur enn en hverfur inn í húsaþyrpinguna í brekkunni hér fyrir handan.

Smám saman myndaðist húsahverfi í kringum verksmiðjureksturinn sem efldist jafnt og þétt, ekki síst í tíð Sigurjóns Péturssonar (1888-1955) en hann rak Álafossverksmiðjuna frá 1919 til dauðadags. Hér ofar í brekkunni getur að líta brjóstmynd af Sigurjóni.

Húsin í Álafosskvos eru frá ýmsum tímaskeiðum. Á árbakkanum stendur gamla sundlaugarbyggingin, ein sú elsta á landinu, vígð árið 1933 og eina sundlaugin í Mosfellssveit um áratugaskeið. Sundlaugarhúsið hefur fengið nýtt hlutverk eins og önnur hús hér í kvosinni. Enginn ullariðnaður er stundaður lengur í Álafosskvos en hér er þó ullarafurðasala þannig að gamli ullarandinn svífur enn yfir vötnunum.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos. “Í tíð Sigurjóns Péturssonar var öflugt félags- og íþróttalíf hér á Álafossi. Hann gekkst m.a. fyrir svoköllum Fánadögum á 3. og 4. áratugnum í fjáröflunarskyni fyrir íþróttaskóla sem hann starfrækti á staðnum. Þá voru m.a. sýndir leikþættir, keppt í íþróttum og margt fleira sér til gamans gert en til að njóta betur skemmtiatriða á Fánadögum og öðrum mannamótum að Álafoss voru mótuð sérstök sæti í brekkuna. Dansað var í stóru samkomutjaldi og selt inn, hálftíma í senn. Þegar draga tók úr aðsókninni á einum dansleiknum kallaði Sigurjón yfir svæðið: “Allir inn í tjald, næsti hálftími verður þrjú korter!”
Myndir hér að ofan er tekin á Fánadögum árið 1936. Húsið lengst til vinstri er leikhús. Hægt var að opna austurhlið hússins og blasti þá leiksviðið við áhorfendum sem sátu í brekkunni.”

Álafoss

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni.

Álafoss

Álafossverksmiðjan um 1920. Fremst á myndinni er gripahús, en búrekstur var lengi stundaður á Álafossi jafnhliða verksmiðjurekstrinum. Fjær er verksmiðjuhúsið, sem reist var árið 1896 og stendur enn. Greinilega má sjá rörið, sem liggur frá stíflunni niður í verksmiðjuhúsið, en vatnsaflið var notað við ullarvinnsluna. Fólk er á ferli í kringum Álafosslaugina, en í fjarska má greina fjallsnípuna Reykjaborg, en skammt þaðan á Varmá upptök sín.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Álafoss

Dýfingar við Sundlaugina ofan við Álafoss.

Álafoss og nágrenni voru friðlýst sem náttúruvætti þann 25. apríl 2013. Friðlýsta svæðið er 1. 4. hektarar að stærð og nær yfir fossinn og næsta nágrenni hans, þar á meðal Álanes, sem er einn af eldri skógum bæjarins.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa, en áin og fossin tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst urrarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Vatn var leitt í sveru röri niður í tóvinnuhúsið, sem enn stendur neðar í brekkunni. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni, sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Hægt var að synda um 100 metra án þess að snúa við og haft var á orði á sínum tíma að á Álafossi væri lengsta sundlaug í heimi. Þegar innilaug var vígð að Álafossi árið 1933 dró smám saman úr notkun útilaugarinnar, enda tók áin að kólna verulega vegna virkjunarframkvæmda í Reykjahverfi.
Má enn sjá leifar af stíflunni og tveimur dýfingapöllum ofan við fossinn.

Almenningi er heimil för um náttúruvætti Álafoss, en fylgja skal merktum stígum og leiðum.

Álafoss

Álafoss.