Færslur

Geldingadalur

Grindavík hefur að geyma ýmsa þjóðsagnakennda staði og álagabletti. Hér getur að líta upplýsingar um nokkra þeirra. Bæjarfélagið hefur, því miður, sýnt stöðunum lítinn sóma í seinni tíð. Þeir, sem vita um og/eða þekkja fleiri slíka staði í umdæmi, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Álagahóll

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík.

Við Þorbjörn – inni í portinu – er gróinn hraunhóll, varðveittur í horni malbikaðs athafnaplans inni á milli verkunnarhúsanna (elsta hús Þorbjörns h/f var jafnan nefnt Resikó því það þótti stór áhætta að hefja síldarsöltun á árunum í kringum 1950 og byggja verkunarhús yfir starfsemina).
Segir sagan að útgerðarmaður, löngur áður en hús voru reist þarna, hafi skirrast við ábendingum um að hólnum mætti ekki raska. Gerði hann það, en þó varlega. Þrátt fyrir það féll skömmu síðar á manninn bátur og hann lést. Var það talið til sannindamerkis um álfabyggð í hólnum.

Goðatóft

Goðatóft

Goðatóft við Hóp.

Þar voru kvíar, þegar fært var frá. Fram af henni er Vatnstangi. Þangað var vatnið sótt í kaffið og þótti bezta vatn hér í kring. Austar er hóll, sem heitir Öskuhóll. Hann er fullur af gamalli ösku. Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta.

Miðaftanshóll (frá Hópi)

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.

Þislar / Þyrnar

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Í austurjaðri Járngerðarstaðahverfis (gamla hlutans) uxu lengi þyrnar og þistlar. Sagan segir þennan gróður ávöxtinn, er óx upp af blóði kristinna manna og heiðinna, er rann þar saman, er Grindvíkingar börðust af mikilli hörku við Tyrki.

Sölvhóll

Sölvhóll

Sölvhóll.

Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að hún hefði, á meðan hún var á Járngerðarstöðum, jafnan séð til huldufólks við Sölvhól. Ekki hafi mátt hrófla við hólnum. Eitt sinn hafi bóndinn í Vallarhúsum tekið sig til og slegið hólinn, en daginn eftir drapst hjá honum kvíga. Sölvhóll sunnan við Járngerðarstaði tengist í hugum fólks, sem fyrrum bjó á Járngerðarstöðum, huldufólki og álfum. Vestan hólsins er Tíðarhlið, austan Hólsgarður og hádegishóll að sunnanverðu (sem sjórinn er reyndar nú búinn að taka til sín að mestu).

Járngerðarleiði

Járngerðardys

Járngerðardys.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Silfra

Silfra

Silfra.

Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum.

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu. Fast við það er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.

Títublaðavarða

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Önnur saga um að þessari vörðu mætti ekki raska. Meðan hún stæði myndi Grindavík vera óhætt (TÞ). Gömlu mennirnir á Járngerðarstöðum bættu jafnan í vörðuna eða hlóðu hana upp eftir þörfum. Nú stendur hún þarna, gróinn og hálffallin. Þetta var fyrsta varðan við Skipsstíginn er haldið var af stað frá bænum. Nú er hún fast utan við girðingu varnarliðsins. Innan hennar sést í Eldvörpin. Í þeim er (eða var) klettur er nefndur var Álfakirkjan.

Helghóll

Helghóll

Helghóll.

Upp af Silfru voru Eldvörpin en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur. Þar vestur af er Bjarnafangi (S.T.) eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum.
Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helghóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág (S.T.) eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Upp af Helghól er Lágafell.

Gíslavarða eða “Tyrkjavarða”

Gíslavarða

Gíslavarða.

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

Hjálmagjá (Húsatóptum)

Hjálmagjá

Hjálmagjá.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Harðhaus

Hjálmagjá

Hjálmagjá t.v. og Harðhaus framar.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Álfakirkja (Hóp)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við bæinn að Hópi við Hópið er Hópsvör. Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Fast vestan við Vatnsstæðið er stakur klettur, sem heitir Einbúi. En milli Vatnsstæðis og Skiparéttar, er síðar getur, er hraunhryggur og strýta, sem heitir Álfakirkja. Suður af Vatnsstæðinu er Skiparétt. Þetta er grjótrétt, sem skipin voru sett upp í.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Þar austur af er stór hóll, sem heitir Langhóll. Álfarnir, sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna, sem fyrr var getið.

Þórkötluleiði

Þórkötludys

Sigurður Gíslason við dys Þórkötlu.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Heródes

Heródes

Heródes.

Sunnan og fast við Miðbæ er steinn er stendur upp úr jarðveginum. á austurhlið hans, efst er áletrun. Segir sagan að steininn megi ekki færa úr stað því þá hljótist af verra. Ekki er vitað með vissu fyrir hvað áletrunin stendur eða hvaðan nafnið Heródes er til komið, en áreiðanlegt er talið að hvorutveggja er mjög gamalt.

Þjófagjá

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil.

Þorbjarnarfell

Þjófagjá.

Þjóðsagan; “Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.”

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar [í Hagafelli]. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Festarfjall

Festarfjall

Festarfjall.

Hraun er næsta jörð við Ísólfsskála og Krýsuvík. Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða. Merkjalína sú, sem Gísli gaf mér upp, var þannig: úr austanverðu Festarfjalli úr berggang, sem þar er, og nefndur er Festi. Er það alláberandi stuðlabergsgangur, hálsfesti tröllkonu nokkurrar.
Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu. Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að láta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.

Festarfjall

Festarfjall.

Þjóðsagan; “Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.”

Kapellulág

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík. Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág. Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Kapellulág

Kapellulág.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.

Hraun

Dysin við Hraun.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir.

Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.

Geldingadalur

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurveguinn um Méltunnuklif.

Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn við gömlu þjóðleiðina.

En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Örnefnaskrár
-http://bokasafn.rnb.is/default

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Esjuberg

Inga Katrín D. Magnúsdóttir skrifaði um “Álagabletti og álfabyggðir – Bönn og boðskap” í Smárit Byggðasafns Skagfirðinga XIX árið 2016:

Álagablettir

“Ætlunin var að taka saman upplýsingar um þekkta álagabletti, sem hafa gengið undir því heiti. Fljótlega kom í ljós að erfitt er að fjalla um álagabletti án þess að fjalla um huldufólksbyggðir, þar sem slíkir staðir eru oft nátengdir. Vandaðist þó málið, því svo virðist að ekki sé alltaf gerður greinarmunur á álagablettum, huldufólksbyggðum, dysjum/kumlum, haugum og féþúfum í frásögnum. Ekki er að því hlaupið að skilgreina og aðgreina sagnastaði á borð við þessa, því svo virðist sem munnleg hefð og skilningur fólks á stöðum, sem hafa yfir sér ákveðnar umgengnisreglur og varúð, sé ákaflega flæðandi og opin. Svo virðist sem heitið álagablettur hafi verið notað sem regnhlífarhugtak yfir hina ýmsu staði þar sem þurfti að hafa varann á. Helsta niðurstaðan er sú að [landsmenn] eru ríkir af þessum athyglisverða menningararfi og þurfa að gæta að umgengni sinni, því víða leynast faldir fjarsjóðir, álfar og álög.

Álfakirkja

Álfakirkja (fjárskjól) í Hraunum.

Örnefni fylgja einnig þessum lögmálum og vísa ekki einungis til nafns staðar, heldur þeirra hugmynda sem fólk hafði og hefur jafnvel enn um þann tiltekna stað. Örnefni geta verið heimild um skynjun fólks á tilteknu rými, þó svo að fyrirbærið sjálft sé e.t.v. horfið. Þetta gildir t.a.m. um tóftir og húsaleifar sem hafa horfið inn í landslagið en staðurinn dregur enn nafn af húsinu og hlutverki þess.
Örnefni og sögur lita landslagið og blása í það lífi með því að tengja það viðburðum. Sagnatengd örnefni geta þannig varðveitt minningar á milli kynslóða. Helgi Sigurðsson, einn upphafsmaður örnefnasöfnunar hér á landi, segir að örnefni séu: „nokkurskonar fornmenjar; því þau eru, flest öll, óhræranlegir, varanlegir fornir hlutir […], víðsvegar um landið, og tengdir við sögurnar, sumir með mannaverkum, sumir án þeirra, og flestir upphaflega verk náttúrunnar.“ Með því að veita landslaginu líf á þennan hátt geymast upplýsingar og fróðleikur um byggðina, átrúnað, þjóðhætti og ýmislegt fleira.
Örnefni geta verið stöðug og óbreytt í langan tíma, en þau geta einnig breyst hratt.

Þjóðsögur

Álfahöll

Álfahöll.

Íslendingar hafa löngum verið taldir mikil sagnaþjóð og stafar það af miklum og ríkulegum bókmenntaarfi. Fleiri eru þó fjársjóðirnir því oft gleymist í menningararfsumræðunni að til eru fjölmargar þjóðsögur, sagnir og ævintýri sem varðveittust í munnlegri geymd í gegnum aldirnar þar til þær voru skráðar.
Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, sagði um þjóðsögurnar: „þessari sagnagrein hafa fáir gefið gaum til forna sem vera bar, og þeir sem lögðu nokkra rækt við hana hafa orðið fyrir aðkasti og þó eru slíkar sagnir jafnskilgetnar dætur þjóðarandans sem bóksögurnar sjálfar sem enginn hefur enn getað oflofað.“
Þjóðsögur eru margbrotnar og runnar af mörgum rótum „upp úr hversdagslífi manna og hugarburði, hugsun og hjátrú, gömlu og nýju.“ Þjóðsögur sem varðveittust í munnlegri geymd lutu öðrum lögmálum en bóksögur, þær slípuðust til og breyttust með tímanum og því samfélagi sem þær þrifust í.

Álfabyggð

Þjóðsögur.

Enginn veit nákvæmlega hversu gamlar þjóðsögur eru, sumar virðast eiga rætur í heiðni á meðan aðrar eru yngri. Þrátt fyrir að þjóðsögur væru vinsælt afþreyingarform meðal almennings voru þær ekki hátt skrifaðar meðal embættismanna og taldar til bábilja. Snemma bar á óbeit yfirvaldsins á því sem tengdist hinni svokölluðu hjátrú eða alþýðutrú. Prestar og aðrir embættismenn höfðu megnustu andúð á hvers kyns hindurvitnum og „kerlingabókum“ og var beinlínis embættisskylda þeirra að útrýma slíkum frásögnum. Andúð yfirvaldsins á þjóðsögum kom bersýnilega í ljós þegar söfnun og ritun munnmælasagna hófst á 19. öld, því margir sagnamenn og -konur vildu ekki láta nafn síns getið eða láta hafa slíkt efni eftir sér.

Álfaborgir

Álfaborgir.

Trúarlíf alþýðunnar hefur áður verið afar líflegt og fjölbreytt. Ekki aðeins viðhafðist hér ríkistrúin, kristni, heldur virðist fólk hafa trúað á ýmsar aðrar verur í sínu nánasta umhverfi, þar á meðal huldufólk. Álfatrúin hefur að öllum líkindum verið bæði sterk og útbreidd hér á landi, miðað við þann aragrúa af sögnum sem til eru af huldufólki. Sú trú hefur haldist lengi, e.t.v. ekki í sömu mynd en að einhverju leyti þó. Landslagið ber víða enn menjar þjóðtrúarinnar í örnefnum, þótt álfatrúin sé e.t.v. liðin undir lok að mestu.
Umgengnis- og siðareglur tengdar álagablettum Þjóðsögur mótuðust með þjóðinni sem ól þær og ýmislegt má lesa úr þeim um hugsunarhátt og venjur fólksins. Þær geta virkað sem einskonar vegvísir til þess samfélags sem þá var.

Kvöldvaka

Kvöldvaka.

Frásagnir voru í hávegum hafðar á kvöldvökum þegar fólk sat við vinnu í baðstofunni og virðast jafnvel hafa þjónað einhverskonar uppfræðsluhlutverki. Sögur geta verið svo miklu meira en dægradvöl og skemmtun, því þær bera með sér lærdóm og visku, fordóma, trú og hjátrú. Fólk segir iðulega þær sögur sem því finnst tilgangur með. Í mörgum sögum má finna siðaboðskap um það hvernig fólk á að haga sér í samfélagi við aðra menn og jafnvel aðrar verur, hvaða gildi og dygðir hafa átti í heiðri og ekki síður hvað taldist til synda sem mönnum var refsað fyrir.

Garðabær

Þorgarðsdys á Arnarnesi í Garðabæ.

Ákveðnar umgengnisreglur giltu um ýmsa staði í landslaginu. Sumum stöðum mátti ekki raska, suma mátti ekki slá og við aðra mátti ekki ærslast og stundum allt í senn. Vissum stöðum mátti ekki fara framhjá án þess að viðhafa sérstakt afhæfi og brytu menn gegn umgengnisreglum var voðinn vís.
Sumstaðar þurftu menn að fara með bæn eða vers eða leggja stein við staðinn og það átti sérstaklega við þegar menn áttu leið hjá í fyrsta sinn. Þetta átti t.d. við um dysjar.

Álagablettir

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkssteinn á mörkum Urriðakots.

Víða um land eru blettir þar sem sagt er að álög hvíli á. Þessa bletti var talið að ekki mætti slá eða raska og ef svo var gert var hætt við að menn yrðu fyrir tilfinnanlegum óhöppum.
Margar sagnir segja frá því að menn hafi brotið gegn bönnum og uppskorið ýmis óhöpp, skepnumissi eða veikindi í kjölfarið.
Jónas Jónasson segir frá álagablettum í Íslenskum þjóðháttum: „Álög á menn eru ekki mér vitanlega til í trú manna og hafa ekki verið til langs tíma önnur en þau, sem heitingar eða bölbænir kunna að hafa verkað. Að vísu hafa menn haft framundir þetta trú á því að ummæli álfa eða huldufólks bæði til góðs eða ills gegni mikils, og sama gildir um ummæli trölla. Einkum hvíla víða álög á ýmsum blettum, túnblettum eða engjateigum, sem ekki má slá, því ef það er gert koma einhver tilfinnanleg óhöpp fyrir þann, er það gerir. Blettir þessir (bannblettir) eru víða til á landi hér, og er enn víða varazt að slá þá. Slík álög liggja og á fleiru en slægjublettum, en minna ber á því.“

Álfaklettur

Við Merkurgötu stendur stór álfasteinn sem virðist standa úti á miðri götu. Sagan segir að til hafi staðið að brjóta hann niður árið 1937 en það hafi ekki tekist vegna hulduveru sem býr inni í steininum. Járnkarl sem átti að nota til að brjóta hann niður stendur enn upp úr steininum. Álfasteinninn í Merkurgötu er friðaður af Hafnarfjarðarbæ. Merkurgata er á milli Vesturgötu og Vesturbrautar, skammt frá bæjartorginu við verslunarmiðstöðina Fjörð.

Jónas virðist ekki endilega gera greinarmun á álögum álfa og annars konar álögum, því fá ummælin að fljóta með sem heimild um bæði.
Hugmyndir eru um að möguleg tengsl séu á milli álagabletta og miltisbrandsgrafa. Fornleifafræðingar hafa m.a. velt upp þeirri spurningu hvort álagablettir séu staðir þar sem miltisbrandssýktar skepnur hafi verið huslaðar. Að hrófla við sýktri jörð fylgir áhætta, bæði fyrir menn og skepnur. „Þetta hefur meðal annars verið rætt í sambandi við þessa svokölluðu álagabletti sem eru út um allt og við erum oft að grafa í. Það er talið að þetta séu í mörgum tilfellum staðir sem leifar af miltisbrandi geti leynst.
Þessar hugmyndir um álagablettina eru oft fólgnar í því að skepnur drepist af að bíta gras á þeim. Margir vilja halda því fram að það hafi gerst í raun og veru og hafi þá tengst miltisbrandi.“ Mjög athyglisvert væri ef þetta reynist vera satt, en enn eiga eftir að fara fram rannsóknir á sannleiksgildi þessara vangaveltna. Komi í ljós að hugmyndin eigi við rök að styðjast hafa sagnir um álagabletti hagnýtt gildi ekki síður en menningarlegt, þar sem fælingarmáttur álagablettasagna hefur hindrað að fólk hróflaði við stöðum þar sem miltisbrandur kann að leynast.

Veðurtengd álög
Munnmæli eru um að sláttur eða rask á sumum álagablettum geti valdið veðrabrigðum eða óveðri.

Híbýli huldufólks

Álfabyggð

Það er ástæða fyrir því að svæðið við Kópavogskirkju er látið í friði en þar er talið að sé blómleg álfabyggð. Sagan segir að þegar Borgarholtsbrautin var lögð hafi Kópavogsbúinn Sveinn Gamalíelsson varað álfana við áður en steinar voru sprengdir í burtu, álfarnir hafi þá fært sig. Álfarnir í Borgarholtinu virðast hrifnari af börnum en fullorðum og er sagt að þeir hafi átt á samskiptum við leikskólabörn.

Margar þjóðsögur lýsa því að fólki hafi orðið á þau mistök að gerast nærgöngult huldufólkshíbýlum. Huldufólki fannst að sér vegið ef mannfólkið var með ærslagang eða stundaði grjótkast við bústaði sína og að sjálfsögðu hefndist fólki fyrir hvers kyns jarðrask á eða við bústaði þeirra. Það sama gilti um heyslátt nærri híbýlum þeirra, því eins og mennirnir þurfti huldufólk að stunda heyskap. Ef menn ásældust bletti sem þóttu teljast til túna huldufólks, gat þeim hefnst illilega fyrir. Þessir blettir voru oft kallaðir álagablettir eða huldufólkstún og forðaðist fólk að slá eða raska þeim á nokkurn hátt. Slíkar reglur eru þó ekki alltaf nefndar í tengslum við híbýli huldufólks, sem vekur spurningar um hvort slíkar umgengnisreglur hafi ekki gilt allstaðar eða hvort þær hafi þótt svo sjálfsagðar að ekki hafi verið talið naðsynlegt að nefna þær.
Á sumum stöðum má sjá að menn hafa sett álfabyggðir og álagabletti í einhverskonar samhengi. Oft er fjallað um tengsl álagabletta og álfabyggða sem sjálfsagðan hlut. Fólk hefurnotað hugtakið álagablett sem einhverskonar yfirheiti fyrir álfabyggðir, hauga, dysjar, féþúfur og aðra álagatengda staði.

Grásteinar

Álfasteinn

Grásteinn á Áltanesi. Dæmi um stein, sem vegagerðamenn reyndu að kljúfa, en urðu frá að hverfa.

Svonefndir “Grásteinar” eru oft nefndir í samhengi við huldufólksbyggðir en einnig án þeirra. Spurningar vakna um hvort þeir hafi verið taldir huldufólksbyggðir eða hvort lýsingin á steininum standi ein og sér. Í þjóðsagnasöfnum má finna sögur sem segja frá huldufólkshíbýlum í steinum.

Haugar og dysjar
Ekki var talið ráðlegt að raska haugum og dysjum og víða máttu menn ekki fara framhjá þeim án þess s.s. að leggja grjót við staðinn. Ef menn vanræktu það var voðinn vís. Haugum og dysjum fylgir oft sú sögn að þar hafi verið heygðir fornmenn eða -konur og þá vakna spurningar um hvort grjótkastið geti hafa stafað af jákvæðum hvötum, s.s. af virðingu við staðinn eða til þess að sporna gegn niðurbroti náttúruaflanna. Nokkrir staðir eru þó þekktir, þar sem grjótkast var form refsingar en ekki virðingar. Sem dæmi má nefna að sá sem fyrstur fór framhjá Steinkudys í Reykjavíkurlandi átti að kasta í dysina grjóti til vanvirðingar við konuna sem þar var dysjuð. Erfitt er að meta hvort slíkir varúðarstaðir teljist til álagabletta þar sem oft er óljóst hvað eigi að gerast, sé gengið gegn boðunum, en víða er gefið í skyn að brot gegn umgengnisreglum hafi í för með sér óhöpp.

Féþúfur

Féþúfur

Féþúfur eru víða.

Margir liðu skort hér á landi vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna á öldum áður. Peningar voru fremur sjaldséðir meðal alþýðunnar. Sumir, sem voru svo heppnir að hafa fé á milli handanna, fengu á sig nirfilsorðspor. Níska var, ásamt græðgi, talin til höfuðsyndar og það endurspeglast í þjóðsögum. Til eru sagnir um að sumir hafi falið fé í jörðu til að koma því undan þeim sem ásældust það og þóttu þeir oft einstakir nískupúkar. Slíkar sagnir má bæði finna í tengslum við hauga og féþúfur.
Græðgi endurspeglast í sögnum sem segja frá því hvernig fólk reyndi að auðgast snarlega og afla fjár með öðrum leiðum en að vinna fyrir því. Þar á meðal eru aðgerðir sem fela í sér finnabrækur og flæðarmýs.

Sauðhóll

Samkvæmt fornleifaskrá Reykjavíkur er álfabyggð í hóli við blokkina Vesturberg 2–6 í Breiðholti. Hóllinn er rúmum tíu metrum frá blokkinni og er kallaður Sauðhóll. Blokkin átti að standa þar sem hóllinn er en það var talið óráðlegt vegna álfanna. Skammt frá er grunnskólinn Fellaskóli, hóllinn er mjög grýttur og segir sagan að kennarar við skólann hafi sagt börnunum að hann væri bannhelgur til að koma í veg fyrir að börn meiddu sig við leik.

Aðrir fóru, ef svo má segja, hefðbundnari leiðir og sóttust eftir því að grafa í hauga og féþúfur til að freista þess að hirða góssið. Þá var trú manna að heiðnir fornmenn hefðu látið heygja fjársjóði sína með sér og bera sumir haugar þess merki að reynt hafi verið að grafa í þá. Við slíka iðju hefur ætíð eitthvað komið uppá og þá helst það að fólki sýnist kirkjur eða bæjir brenna eða það sér stórflóð fyrir augum sér.
Féþúfum mátti ekki raska, ekki frekar en landamerkjavörðum, og þær geta í ákveðnum skilningi fallið undir álagabletti. Yfir þeim liggur meira en aðeins varúð.
Mönnum hefnist fyrir að raska álagablettum og urðu fyrir beinum skaða, oft skepnumissi eða óhöppum. Röskuðu menn féþúfum voru viðurlögin oft óraunveruleg þ.e. þeim sýndist bær eða kirkja brenna en bruni átti sér yfirleitt ekki stað. Slíkur „sýndarskaði“ er þó ekki algildur og víða var talað um raunverulegan skaða í kjölfar féþúfurasks. Raunverulegur bruni heyrir til undantekninga í kjölfar röskunar á féþúfu, nema ef fjallað er um staðinn sem álagablett, því allskyns óhöpp gátu komið upp ef þeim var raskað.

Ágirnd, níska og álög

Álffakirkja

Álfakirkja við Stakkavík í Selvogi.

Sögur þar sem menn grafa í féþúfur og hauga til að freista þess að ná í grafargóssið hafa yfirbragð varúðarsagna sem menn hafa nýtt til varúðar. Þær minna á að skjótfenginn gróði borgar sig sjaldnast og mönnum hefnist fyrir ágirnd, græðgi og nísku.
Fjölmargar sagnir eru til um að nágrannar hafa rifist yfir veiði í vötnum og hvað gerist ef menn aðstoða ekki nágranna sinn. Yfirleitt enda slíkar sögur með ósköpum.

Álfar

Hamarinn

Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að þar sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum að kvöldi til um jól. Gunnar gekk á hljóðið og fann dyr. Fór hann inn í híbýli álfanna en lét sig fljótt hverfa þegar söngnum lauk. Hamarinn er fyrir ofan Lækinn í Hafnarfirði, við hliðina á Flensborgarskólanum.

Vegna þess hve erfitt er að aðgreina álagabletti og huldufólksbyggðir er rétt að skoða betur hvaða hugmyndir fólk hafði um huldufólk. Heitin álfar og huldufólk virðast hafa verið notuð sem samheiti yfir sömu verurnar. Þó lítur út fyrir að hugtakið álfar hafi fyrir sumum verið hálfgert níðyrði. Oft er sagt í neikvæðri merkingu að einhver sé álfur eða komi fyrir eins og álfur út úr hól, og átt við að viðkomandi viti ekki neitt eða sé verulega utanvið sig. Álfaheitið var því stundum tengt hjákátlegu fólki. Kona ein er sögð hafa atyrt dreng fyrir óæskilegt athæfi og kallaði hún hann álf. Þá á huldukona að hafa sagt: „Við huldufólkið erum ekki meiri álfar en þið mennirnir.“
Alla jafna þótti ekki ráðlegt að styggja huldufólk með uppnefningum og aðeins var það kallað álfar ef engin neikvæð merking var lögð í heitið. Þetta hefur þó sannarlega ekki verið algilt og víðast virðast heitin hafa verið notuð jöfnum höndum.

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja, meint álfakirkja í Garðahrauni, var flutt um set vegna vegagerðar.

Ljóst er að þegar við tölum um álfa eða huldufólk í dag, leggjum við ekki sama skilning í fyrirbærið og gert var í fornnorrænni trú, og það eru ekki sömu verur og birtast t.a.m. í Eddukvæðunum. Álfar í norrænni trú virðast hafa verið guðlegar verur og virðast þeir hafa haft sömu stöðu og goð og jötnar. Á meðan Ísland var að byggjast virðast menn hafa notað fremur orðið náttúruvættir í stað álfa eða huldufólks. Álfatrúin hélst langt fram á 20. öld, en Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir í bókinni Íslenskir þjóðhættir að „mennsk stúlka trúlofaðist huldumanni úti í Fljótum nú fyrir fám árum (nokkru eftir 1900)“.
Þá segjast margir núlifandi menn og konur hafa komist í tæri við huldufólk, dreymt það eða séð. Segja má að enn lifi í huldufólkstrúarglæðum.

Huldufólk í „lífi og leik“

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll stóð suður af gamla Arnarnesbænum en er nú inni á einkalóð. Sagt er að á honum hvíli álög og ef hann yrði sleginn þá myndu bestu mjólkurkýrnar í fjósinu falla niður dauðar. Þrátt fyrir að fjósið og kýrnar séu löngu farnar af Arnarnesinu þá er hann enn vaxinn háum stráum. Sagan segir að breskur sjáandi hafi skoðað hólinn að beiðni íbúa og hafi átt erfitt með svefn eftir að hafa fundið inngang álfanna inn í hólinn. Eins og áður segir er hóllinn á einkalóð og því líklegast best að skoða hann úr fjarlægð, þá einnig til að forðast álög og svefntruflanir.

Þjóðtrú er lifandi afl og hún breytist í tímans rás. Þannig má segja að þjóðtrú seinni alda beri ekki eins mikinn goðablæ og sagnir fyrri alda bera vitni um. Álfarnir í seinni tíð eru í flestu afar líkir mannfólkinu, en þó ósýnilegir mönnum öðrum en skyggnum og þeim sem þeir vilja birtast. Sumir sögðu eina sjáanlega mun á huldufólki og mönnum hafi verið sá að þá vantaði miðnesið á nefi. Aðrir sögðu þá hafa bungu í stað lautar neðan við miðnesið og niður að efri vör. Að gáfum þótti huldufólk bera af mönnum, sem og í andlegum málum.
„Álfar eru að sumu leyti fullkomnari en menn, en að sumu leyti ekki og jafnvel ófullkomnari og þrá því oft samband við mennina og samvistir við þá.“
Um híbýli álfa er sagt að þeir búi hvarvetna, ekki aðeins í klettum og hólum landsins, heldur einnig í lofti og sjó (og eru þá kallaðir marbendlar). Bústaðir þeirra þóttu oft mikilfenglegir og skrautlegir en einnig voru kotbændur í hulduheimi.
Af lýsingum að dæma þótti lítill munur á lifnaðarháttum huldufólks og manna. Huldufólk fæddist og dó, en taldist langlífara en menn. Dægradvöl þeirra var sú hin sama og í mannheimum, þeir stunduðu sinn búskap, borðuðu, drukku og skemmtu sér með hljóðfæraslætti og dansi. Eins og mannfólkið hélt huldufólkið fardaga, en þá höfðu þeir bústaðaskipti, venjulega um jóla- og nýársleitið. Búfénaður þeirra, kýr og kindur var talinn vænni en manna.

Miltisbrandur

Miltisbrandshörsl.

Margar sagnir eru til um að fólk sá kýr og kindur sem ekki tilheyrðu mannheimum og heyrði hljóð, bæði strokk- og rokkhljóð úr steinum og klettum, sem bendir til þess að vinna innan heimila huldufólks hafi verið eins háttað og í mannheimum. Almenn trú gerði ráð fyrir góðu og illu huldufólki. Góða huldufólkið var iðulega kristið, sótti kirkjur og stundaði helgisiði og vitna örnefni víða enn til þess. Þeir illu voru sagðir ókristnir og gerðu mönnum grikk og tjón.
Alla jafna var huldufólk alvarlegt og lítið fyrir glens og gáska í daglegu lífi, þrátt fyrir veglegar veislur á hátíðardögum. Margar sögur eru til af því að menn hafa gerst of nærgöngulir við híbýli álfa og hefnst fyrir. Þetta á bæði við börn og fullorðna en þó virðist huldufólk hafa fyrirgefið þeim er ekki vissu að um huldubústað væri að ræða. Til þess var ætlast að fólk sýndi huldufólksbústöðum virðingu og aðgát, eins og um mannabústað væri að ræða. Huldufólk reiddist ef menn sýndu græðgi og ásældust það sem huldufólkið taldi sig sjálft eiga. Oft lét huldufólkið þá vita af sér og varaði mannfólkið við, en sæi fólk ekki að sér var hefndin yfirvofandi.”

Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga XIX; Álagablettir og álfabyggðir – Bönn og boðskapur. Inga Katrín D. Magnúsdóttir 2016.
-https://www.glaumbaer.is/static/files/Gagnabanki/xix-alagablettir-netutgafa.pdf

Álfar

Íslenskir álfar eru ekki eins og þeir alþjóðlegu heldur eins konar huldufólk. En nú á dögum gera Íslendingar ekki mikinn greinamun á álfum og huldufólki. Álfar þessir búa mikið í þjóðsögum og þar er þeim lýst sem mannlegum verum sem iðka búskap sinn eins og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Það mun þá vera illt verk að styggja álfa og það gert með því að skemma búskap þeirra eða slá svokallaða álagabletti. Alla jafnan segir frá því í þjóðsögum að álfar þessir lifi yfirleitt í klettum, grjóti eða steinum.