Færslur

Grænaborg

Gengið var frá íþróttahúsinu í Vogum að Grænuborg austar með ströndinni. Síðan var ströndin gengin til baka, í gegnum Voga, framhjá Vogatjörn og upp að Arahólsvörðu.

Vogar

Vogar.

Á leiðinni að Grænuborg var fylgst með mófuglunum þar sem þeir lágu á eggjum sínum eða fylgdust með hinum aðkomandi furðufuglum. Endurnar hreyfðu sig varla á hreiðrum sínum þótt nokkrir tvífætlingar ættu leið framhjá.
Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot.

Grænaborg

Grænaborg.

Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbæt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.
Talsvert fuglalíf er við strandlengjuna við Voga og fjaran víða álitleg. Gróður er fjölbreytilegur og gott er að njóta þar friðsemdarinnar svo nærri þéttbýlinu.
Vogatjörn og Mýrarhúsatjörn eru í Vogum. Aðrar tjarnir eru og á Vatnsleysuströndinni, s.s. Gráhella í Brunnastaðahverfi og tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjörn og Bakkatjörn.

Vogar

Vogar – tjarnirnar.

Tjarnirnar eru eins og nöfn þeirra flestra gefa til kynna, nefndar eftir nærliggjandi bæjum sem auðvelt er að finna þegar gengið er um ströndina. Þessar tjarnir og næsta nágrenni þeirra eru á náttúruminjaskrá. Þær eru mjög lífríkar og við þær og á er fjölbreytt fuglalíf.
Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennileg sveit. Hún er löng og mjó, um 15 km á lengd og 10 km á breidd. Þar er lítið rennandi vatn, því hraunið gleypir allt rigningarvatn og leysingarvatn.

Byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni en þó sundurslitin. Hver einasti bóndi hér áður fyrr var útvegsbóndi og áttu þeir mismargar fleytur.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Margir bændur voru framfarasinnaðir og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt, sem sést best á því að það var bóndi í Vogum sem keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Það var bóndi á Vatnsleysuströnd sem hreyfði því fyrstur manna að friða skyldi Faxaflóa fyrir erlendum veiðiskipum. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fyrstur kenndi mönnum að veiða síld og nota hana til beitu. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fór til Noregs, aflaði sér þekkingar sem varð til hagsbóta fyrir útgerð við Faxaflóa. Grindvíkingur keypti fyrsta netið af útvegsbónda á Vatnsleysuströnd og svona mætti lengi telja.

Grænaborg

Tóftir við Grænuborg.

Gott þótti undir bú í Vogum og miklir hagar voru á Strandarheiði. Þá stunduðu Vogamenn mjög útræði og var stutt að sækja á fengsæl mið. Frægar fiskislóðir undan Vogastapa nefndust Gullkista. Um miðja 19. öld hófu verslanir að senda skip á Vogavík til að taka fisk. Var þá reist fiskhús á hólma við sunnanverða víkina. Upp úr 1870 stofnuðu bændur á Vatnsleysuströnd verslunarfélag með bændum á Álftanesi og fjölgaði þá ferðum fisktökuskipa á Vogavík.Víkin var löggilt sem verslunarhöfn árið 1893, þótt hafnarskilyrði þættu þar löngum fremur erfið. Um aldur notuðust sjómenn við áraskip í Vogum og síðar trillur, en árið 1930 hófu heimamenn þar útgerð vélbáta. Var þá gerð þar stöplabryggja og reist fiskhús. Árið 1942 var byggt þar fyrsta frystihúsið og einnig miklar hafnarbætur upp úr því.

Arahólavarða

Arahólavarða.

Gengið var upp Hafnargötu frá höfninni, framhjá Vogatjörn. Ungdómurinn var önnum kafinn þar við sílaveiðar. Ljóst er að snemma beygist krókurinn.
Gengið á Arahól að Arahólsvörðu. Arahólsvörðuna lét Hallgrímur Scheving reisa árið 1890. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna, sá hét Sveinbjörn Stefánsson. Tilgangurinn er ekki ljós nema þá sem prýði fyrir plássið.

Fyrir skömmu komu í ljós nokkrar mógrafir í fjörunni sunnan Bræðraparts í Vogum. Vitað var til þess að mór væri í fjörunni og hefur hann verið sýnilegur á háfjöru í mörg ár við sunnanvert Sæmundarnef. Einnig er vitað um mógrafir suður af Steinsholti og upp af Vogavík en þær eru nú að miklu leiti grónar grasi. Má telja að þessar grafir séu um hundrað ára gamlar.

Mógrafir

Mógrafir.

Fá munnmæli eru til um mógröft í sveitarfélaginu en þó var sagt um þessar grafir líkt og annarstaðar á landinu að aðgæslu hafi verið þörf við gröftinn því mikil hætta hafi verið á að þær féllu saman. Vinna við mógröft þótti erfið, fylgdi því mikið erfiði að stinga móinn, stafla honum og færa heim að bæ til þurrkunar. Líkt er og að þessar mógrafir hafi verið stungnar í gær svo vel hefur sandurinn varðveitt þær fyrir briminu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Helga Ragnarsdóttir – Munnlegar heimildir: Guðrún Lovísa Magnúsdóttir – Særún Jónsdóttir (haft eftir Jóni G. Benediktssyni frá Suðurkoti).
-http://www.vogar.is/displayer.asp?cat_id=142

Grænaborg

Rétt við Grænaborg.