Færslur

Brunnastaðasel

Gengið var yfir Hrafnagjá frá Reykjanesbraut, upp Vogaheiði áleiðis upp í Knarrarnessel og Brunnastaðasel, síðan niður heiðina á ný, niður að Snorrastaðatjörnum með viðkomu í Nýjaseli.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Hrafnagjá liggur, að sumir segja, frá Háabjalla og alla leið í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Af loftmyndum að dæma eru skil á milli Hrafnagjá Vatsleysumanna og Hrafnagjár Vogamanna. Hvað sem því líður er gjáin falleg og gefur Almannagjá lítið eftir á köflum. Hæst er Hrafnagjá um 30 metrar, þ.e. ofan Voganna.
Gjárnar upp Vogaheiðina eftir að gengið hefur verið yfir Hrafnagjá heita m.a. Huldugjá, Litla-Aragjá, Stóra-Aragjá, Klifgjá, Gjáselsgjá, Holtsgjá og Brunnastaðaselsgjá.
Á Huldugrjárbarmi er Pétursborg. Gjáin er nokkuð há á kafla. Litla-Aragjá og Stóra-Aragjá eru óljóslega sagðar heita eftir Ara, fornmanni í Vogum, en ekki eru til skráðar heimilir um það. Sá möguleiki er fyrir hendi að Aranafnið sé jafnvel tilkomið af fuglsnafninu örn. Þar sem bergveggurinn er hæstur í Stóru-Aragjá heitir Arahnúkur.

Arasel

Arasel.

Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnast tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt alla leið í Snorrastaðatjarnir.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Í bergveggunum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Stóra-Aragjá nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá þegar komið er austar í heiðina.
Í norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jólin. Mikil leit var gerð, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – stekkur.

Brunnastaðaselið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil heilleg kví og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma. Ofar er Brunnastaaðselsvarða og heimildir eru um Brunnastaðaselsvatnsstæði.
Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilhyert bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar við Snorrastaðatjarnir, en hvergi sést merki um þann bæ. Í Jarðabókinni 1703 segir um Snorrastaði: “Forn eyðijörð og hefur um langan aldur í eyði legið… Nú er allt land þessarar jarðar lagt undir brúlkun ábúenda í Vogum hvoru tveggja, og hefur yfir hundrað ár verið svo”. Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Gjasel-210

Gjásel.