Árnahellir er einn af hellagersemum landsins. Varla þar að taka fram að hellirinn er á Reykjanesskaganum. Hér er birt umfjöllun um hellinn á mbl.is árið 2002 er hann var friðlýstur.
“Árnahellir í Leitahrauni skammt norðvestan Þorlákshafnar friðlýstur – Neðanjarðar-frumskógur hraunstráa og dropsteina.
Sigurður Sveinn Jónsson, formaður Hellarannsóknar-félags Íslands, undirritar samstarfssamning við Náttúruvernd ríkisins sagði við munna Árnahellis í gær að samkvæmt samningum við hlutaðeigandi taki félagið að sér ráðgjöf, eftirlit og umsjón með friðlýstum hellum og hellum á friðlýstum svæðum.
Undraheimur hraunstráa og dropsteina opnaðist fyrir umhverfisráðherra sem og sveitarstjórnarmönnum er skriðu niður þröng göng ofan í jörðina og heimsóttu Árnahelli, einn af merkari hraunhellum jarðarinnar, í gær. Hellirinn, sem er mjög viðkvæmur, var friðlýstur í af þessu tilefni til að komandi kynslóðir geti einnig notið hans.
ÁRNAHELLIR er einstakur hraunhellir í Leitahrauni norðvestan Þorlákshafnar, er kenndur við Árna Björn Stefánsson hellaáhugamann sem fann hann árið 1985. Árnahellir mun vera með merkilegri hraunhellum vegna ósnortinna hraunmyndana sem í honum finnast. Hellirinn er yfir 150 metra langur og liggur á um 20 metra dýpi. Breidd hans er um og yfir 10 metrar en frekar lágt er til lofts.
Úr hellisloftinu hanga hraunstrá og þarf að gæta þess þegar hellirinn er heimsóttur að rekast ekki í þau því þau eru stökk og mjög viðkvæm. Hraunstráin eru um 5-10 mm í þvermál, sum hol að innan og önnur með gifsútfellingum. Lengstu stráin munu vera um 60 cm löng. Á gólfi Árnahellis eru dropsteinar og eru þeir stærstu yfir einn metri á hæð og um 7 cm í þvermál. Dropsteinarnir standa í hópum eða breiðum á hellisgólfinu.
Sigurður Sveinn Jónsson, formaður Hellarannsóknar-félags Íslands, segir að hraunstráin og dropsteinarnir myndist þegar hraunið er næstum því storknað. Vökvi í kvikunni, sem hvarfast ekki mjög greiðlega við þær steindir sem til verða í berginu við storknun, kreistist út í holrými og sprungur og drjúpi niður úr loftinu. Það sem falli til jarðar hlaðist upp og myndi dropsteina. Þetta gerist á tiltölulega stuttum tíma.
Ekki er hugmyndin að gera hellinn að ferðamannastað. Sigurður segir að það sé ekki hugmyndin að gera Árnahelli að ferðamannastað, en sæki menn um leyfi til að fara niður í hellinn og séu tilbúnir að greiða þann kostnað sem af því hlýst verði orðið við því. Samkvæmt samningnum ber að nota það fé, sem Hellarannsóknarfélagið fær vegna þessa, til verndunar hraunhella á svæðinu. Hann segir að lengi hafi verið í umræðunni að gera einhvern einn ákveðinn helli aðgengilegri fyrir almenning og lýsa upp. Nefnir hann Arnarker, Raufarhólshelli og hella í Bláfjöllum sem dæmi um hella sem koma til greina. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu hellisins en Hellarannsóknar-félag Íslands hefur beitt sér fyrir verndun hans síðustu ár. Árnahellir er annar hellir landsins sem er friðlýstur með sérstakri friðlýsingu en Jörundur í Lambahrauni var friðlýstur árið 1985. Auk þeirra eru nokkrir hellar á friðlýstum svæðum sem njóta verndunar.
Við hellisop Árnahellis var við sama tækifæri undirritaður samningur milli Náttúruverndar ríkisins og Hellarannsóknar-félags Íslands um ráðgjöf, eftirlit og umsjón með friðlýstum hraunhellum og hraunhellum á friðlýstum svæðum. Sagði umhverfisráðherra mjög ánægjulegt að þessu samstarfi hefði verið komið á fót. Umsjón með Árnahelli hefur því verið falin Hellarannsóknarfélagi Íslands fyrir hönd Náttúruverndar ríkisins.
Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, sagðist ánægður með að loksins skuli gengið frá samkomulagi við Hellarannsóknarfélagið. Hann vonaðist eftir liðsinni hellaáhugamanna við að gera gersemar í hellum á Snæfellsnesi aðgengilegri á næstu árum, sagðist gera sér vonir um að nýr heimur myndi opnast þar á næstu árum.
Allir þekktir hraunhellar hafa skaðast vegna ágangs. Árni, sem hellirinn er nefndur eftir, sagði við friðlýsinguna í gær, að hann hefði ákveðið eftir þennan merka fund árið 1985 að hafa lágt um tilvist hellisins og vinna að friðlýsingu á rólegum nótum. Allir þekktir hraunhellar landsins hefðu skaðast verulega vegna ágangs og viðkvæmar hraunmyndanir hefðu jafnvel verið fjarlægðar kerfisbundið. Sagði hann að smám saman hefði kvisast út hvar hellinn væri að finna og upp úr 1990 hefðu hraunstráin farið að láta á sjá, þó aðeins á þeirri leið sem mest var gengin. Þegar hraunstrá hefðu fundist á leiðinni upp úr hellinum hefði verið ljóst að þetta væri komið úr böndunum og lokaði Hellarannsóknarfélagið hellinum með járnhliði árið 1995, með samþykki landeiganda.
Til að komast innst í hellinn, þar sem hinar einstöku jarðmyndanir eru, þarf að skríða niður um stutt en þröng göng. Fyrir það op hefur verið lokað með járnplötu sem er læst. Með friðlýsingunni eru heimsóknir í hellinn og framkvæmdir á svæðinu sem raskað geta hellinum takmarkaðar, nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins eða umsjónaraðila hellisins. Auk þess gildir auglýsing um friðlýsingu dropsteina um hellinn, sem og aðra hella landsins, samkvæmt henni er óheimilt að brjóta eða skemma á annan hátt dropsteinsmyndanir.
Mennirnir eru dægurflugur á mælikvarða jarðsögunnar. Árni B. Stefánsson minnti við friðlýsinguna á að mennirnir væru dægurflugur á mælikvarða jarðsögunnar. Jarðmyndirnar hefðu varðveist í tæp 5 þúsund ár, 160 kynslóðir manna, þrátt fyrir jarðskjálfta og hræringar. “Við erum sjálf um það bil 56. liður frá Óðni, svo myndanirnar eru þrisvar sinnum eldri en æsir. Megi hellir þessi varðveitast um ókomin ár og verða okkur og komandi kynslóðum til sóma,” sagði Árni.
Við þetta má bæta að félagar HERFÍ hafa undanfarið reynt að leita leiðar inn úr Árnahelli í von um að rásin liggi áfram upp Leitarhraunið og sameinist hinni mikilfenglegu hraunrás Búra.
Heimild:
-mbl.is – föstudaginn 26. júlí, 2002.