Tag Archive for: Árnastekkur

Rjúpa

Á Vatnsleysuströnd eru fjölmörg sel og stekkir frá nánast öllum bæjum þar fyrrum, jafnvel fleiri en ein/n frá sumum þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Saga seljanna og stekkjanna verður ekki sögð hér, enda hefur ítarlega verið um hana fjallað bæði annars staðar á vefsíðunni og víðar.
Í stuttu máli má þó segja að sagan hafi enduspeglað búskaparsögu landssvæðisins, frá upphafi þess til loka hinna gömlu búskaparhátta, sem óðum hafa fjarlægst okkur „nútímafólki“, eða við „nútímafólkið“ hefur fjarlægst því, þótt ekki væri nema hugafarslega.
Gallinn er hins vegar sá, ef marka má skráðar heimildir, að hvorki ábúendur né fornleifaskráendur virðast hafa áttað sig á forsögunni til vorra daga. Fornleifaskráningar bera a.m.k. þess skýr merki. Margra fornleifa er jafnan getið með vísan til örnefnalýsinga og annarra skráðra heimilda, einstaka er bætt um betur, s.s. „vörður“, sem oftar en ekki eru reyndar fornar refagildrur eða grenjamerkingar, en þá er því miður ógetið hinna mörgu fornleifa, sem hvergi er getið í skráðum skrám.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Reynsla FERLIRsfélaga er sú að verulega reynslu og góða innsýn í búsetusögu viðkomandi svæðis þarf til að skrá fornleifar af einhverju viti. Dæmi: Þegar félagsskapurinn byrjaði að leita uppi sel og selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, var í fyrstu byggt á skráðum heimildum, s.s. jarðabókinni 1703 og öðrum slíkum. Þannig var hægt að staðfesta a.m.k. 103 slíkar. Næsti áfanginn var að leita uppi öll skráð örnefni með selsörnefni. Í kjölfarið bættust 121 áður óþekkt selstaða. Loks var stefnt að því að skoða allar landfræðilegar aðstæður er gætu boðið upp á selstöður, þ.e. dalverpi upp frá fornu bæjarstæði, graslendi í skjóli fyrir austanáttinni, graslendi við læk, við á eða vatnsstæði þar sem mætti a.m.k. merkja einhverjar mannvistarleifar, s.s. stekk, vörðu, nátthaga, fjárskjól eða smalabyrgi.

Hraunssel

Hraunssel.

Niðurstaðan varð 444 skráðar selstöður á landssvæðinu.
Hafa ber í huga að sel á Reykjanesskaganum eru að mörgu leiti ólík seljum í öðrum landshlutum þar sem bússmalinn var jafnan fluttur í sel inni djúpum grónum dölum yfir sumarið. Mörg þau selin urðu síðar að kotbýlum að seltiðinni lokinni. Á Skaganum eru hins vegar aðeins örfá dæmi um slíkar umbreytingar.
Reykjanesskaginn er hraunum þakin að vestanverðu, en austurhlutinn hefur boðið upp á djúpa dali (Kjalarnes og Kjós). Þrátt fyrir tilbrigðin virðast húsaskipan seljanna löngum hafa verið þau sömu, þ.e. baðstofa, búr og eldhús, ýmist innbyggt eða frístandandi.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Margar selstöðurnar hafa ýmist verið endurbyggðar, jafnvel oftar en tvisvar, eða fluttar um set. Líklega hefur aðgengi að vatni haft mest um það að segja hverju sinni. Nokkur dæmi eru um að bæir einstaka hverfa með ströndinni hafi tekið sig saman og byggt upp selstöðuþyrpingu, s.s. Brunnastaðahverfi, Knarrarneshverfi og Breiðagerðishverfi sem og Grindavíkurbændur, sem byggðu selstöður sínar um stund á Selsvöllum, færðu þær á Baðsvelli og síðan aftur á nýjan stað á Selsvöllum. Forn sel eru á Skaganum sem hvorki hafa verið fornleifaskráð né þeirra getið í örnefnaskrám.

Selsbúskapurinn, sem verið hafði með einhverjum smábreytingum allt frá landnámi, lagðist af skömmu fyrir aldamótin 1900. Útselin fyrrum, sem var bæði ætlað að bæta um betur jarðnæðið í neðra og staðfesta landamerki viðkomandi jarða, færðust undir lokin smám saman nær bæjunum í takt við fækkun heimilis- og þjónustufólksins. Í lok hins gamla bændasamfélags í upphafi 20. aldar urðu selstöðurnar og stekkirnir nánast komnir inn að túngarði viðkomanda bæja. Hafa ber í huga að fyrir þann tíma voru nánast engir túnbleðlar til umleikis þá. Með miklum dugnaði og þrautseigju tókst bændum, með aðstoð vinnu- og útróðramanna, að græða upp velli, lægðir og jafnvel holt, sem barin voru jafnvel niður af handafli með sleggjum og síðan borin á þau þari og sló til uppgræðslu.

Árnastekkur

Árnastekkur.

FERLIR hefur jafnan borðið gæfu til þess að allir er til hefur verið leitað hafa verið fúsir til að útskýra og gefa upplýsingar um fornar minjar á sínum landssvæðum. Flestir eru nú, því miður, nú horfnir til annarra starfa handan við Móðuna miklu. Segja má því að www.ferlir.is sé lifandi vefsíða um minjar hins liðna!

Að þessu sinni leituðu FERLIRsfélagar að Rauðstekk, Brunnhólsstekk, Árnastekk og Vorkvíum – og skoðuðu.
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir um framangreindar minjar.

Rauðstekkur

Rauðstekkur.

Um Árnastekk segir: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“

Rauðstekkur er sagður „nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi með stefnnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur.

Um Brunnhól segir: „Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er llítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum.
Stekkurinn gæti einnig með réttu verið nefndur Arnarbælisstekkur.

Þá er getið um Vorkvíar, sbr. „Vorkvíar eða Vorkvíablettur heitir nokkuð stór grasmói í vikinu milli veganna“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrslu II“ frá árinu 2014 koma fram athuganir á framangreindum minjastöðum:

Árnastekkur

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Ofar nokkuð í Strandarheiði var Árnastekkur við Árnastekkshæð“, segir í örnefnskrá Hlöðuness. Árnastekur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn.
Tvær tóftir um 5x10m að stærð og snýr nálega austur -vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5x7m að stærð…. og síðan kemur einhver steypa…“.

Rauðstekkur
„Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: „Fyrir innan Arnarbælishólanna er Rauðstekkur, og var grjóthrúga upp á hólnum, sem hér Rauðhóll. Í sömu heimild segir: „Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið í 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.“

Rauðstekkur

Rauðstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkurinn er greinilegur. Hann er um 1.3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk [í Kúadal].
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir.
Stekkurinn er 13×3.5m á stærð, snýr noður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðin að hluta. Hann skiptist í 4 hólf. Hólf I er syðst. Það er sporöskjulaga og er innanmál þess 3x2m og í veggjum þess sjást grjóthleðslur. Hólf II norðan við hólf II. Það er 2.5x2m að innanmáli og snýr norður-suður. Í veggum þess sjást grjóthleðslur líkt og í hólfi II. Á milli hólfs II og III er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er norðan við hólf II og á milli þeirra er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er sporöskjulaga og er op á suðvesturhliðinni. Innamál hólfsins er 4x3m og snýr norður-suður.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Stekkurinn er efst í hæsta hól Arnarbælis, í sprungnum hraunhól. Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 10x4m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð veggja utanmáls er 0.3m en innanmáls er mesta hæð um 1m. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk tóftarinnar var.“
Bæði Rauðstekkur og Brunnhólsstekkur bera keim að fyrrum heimaseljum, þ.e. tvískiptir stekkkir með hliðar(geymslu)tóft.

Vorkvíar
„Vorkvíar eru lítil tóft í litlu viki inn í hólinn Stakk. Til vesturrs við hana er Vorkvíablettur. lítið flatlent og sléttað tún. Tóftin er einföld og gróin. Ekki sést í grjóthleðslurþ Mesta hæð veggja er um 0.4m. Óvíst er að þetta sé kvíatóft.“

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1. mín.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 42 og 48-49.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.

Vorkvíar

Vorkvíar.

Litlistekkur
Gengið var um Knarrarnesland og skoðaðar minjar, sem ekki hafði verið litið á áður í fyrri FERLIRsferðum. Þessarra minja er getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum.
Fjóla Jóhannsdóttir (72 ára) dvelur nú í húsi skammt sunnan við Stóra Knarrarnes. Hún hefur verið tengd svæðinu í yfir hálfa öld, en hún er gift Guðmundi

Árnastekkur

Árnastekkur.

Viggó Ólafssyni frá Stóra Knarrarnesi. Kritur hafa löngum verið millum fólks á Knarrarnestorfunni vegna landamerkja-ágreinings – og það þrátt fyrir að nægt land virðist vera þarna til handa öllum lítilmátlegum til allra nútímaþarfa. Gömul fyrrum „Nes“ og „Höfði“ virðast hafa færst um set í baráttunni og jafnvel landamerkjasteinar lagt land undir fót. Þátttakendur í deilunni hafa og verið skipulagsyfirvöld í Vogum, sem varla hafa skilið hvað snýr upp eða niður í þeim málum. En í sæmilega litlu, en upplýstu sveitarfélagi, þar sem starfsfólk fær greitt fyrir að leysa vandamál frekar en að búa þau til, ætti að vera tiltölulega auðvelt að skapa sátt meðal þegnanna. Það er a.m.k. eitt af opinberum markmiðum stjórnsýslunnar.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þegar fulltrúi FERLIRs mætti á staðinn voru fyrstu viðbrögðin þessi: „Ertu frá skipulagsyfirvöldum í Vogum?“ „Nei“, var svarið. „Ertu að skoða eitthvað um landamerkin?“ „Nei“, var svarið. „Ertu sérfæðingur?“ „Nei“, var svarið enn sem fyrr. „Ég er áhugamaður um fornar minjar á Reykjanesskaganum og hef verið að reyna að staðsetja þær eftir því sem gamlar heimildir segja til um – og nútímaugað nær að sjálfsögðu“. Þetta dugði – að vera hvorki fulltrúi né sérfræðingur – til að fá hlýrra viðmót og viðhlítandi upplýsingar, sem leitað var að, enda áhugamaðurinn bæði afhuga deilnaþátttöku og launum fyrir verkið. Reyndar hefur þátttakendum FERLIRs hvarvetna verið vel tekið af fólki, sem búið hefur yfir upplýsingum um minjar og forna tíð.
Fjóla sýndi FERLIR í framhaldi af þessu gamla loftmynd af Stóra Knarrarnesi. Á henni voru tvo hús; Vesturbær, þ.e. hið gamla Stóra Knarrarnes, og Austurbær (jafnan nefndur Austurbær II), auk hinna gömlu tófta Stóra Knarrarness. Hið merkilega við loftmyndina er það að á henni séstvel móta fyrir Gamlabrunni, en hann var einmitt eitt af viðfangsefnum FERLIRs þessu sinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Stóra Knararrness er getið í Jarðabókinni 1703. Jörðin er þá konungseign. Þann 9. september 1447 er jarðarinnar getið í bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr). Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Seinna, eða 1584 segir: „Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eru 5 vættir fiska.“ Árið 1703 er ein hjáleiga í eyði sem heitir Helgahús.
Í Knarrarnesi var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær 1703: “Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.”

Knarrarnes

Krosshólar.

Á milli Knarrarnessbæjanna var hlaðinn garður á landamerkjum. Hann sést enn að mestu leiti. Í örnefnalýsingur segir frá huldufólksbústað á mörkunum: “Milli Túna Litla-Knarrarness og Stóra-Knarrarness var merkjagarður. Hann lá um þrjá hóla sem nefndust Krosshólar og var á þeim mikil huldufólkstrú. Krosshóll syðsti, Mið-Krosshóll og Krosshóll nyrsti.” Þarna hafði átt að vera álfakirkja, líkt og svo víða í stökum hraunhólum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Fjóla sagðist jafnan hafa heyrt þessa hóla nefna Hulduhóla. Sú trú hafi verið með heimilisfólki að at byggi huldufólk þótt hún hafi aldrei séð slíkt fólk þar á ferli, “ en það væri ekki að marka“. Ekki sagðist hún hafa heyrt „Krosshólanöfnin“ nefnd fyrr.
Tveir brunnar eiga að hafa verið við Stóra Knarrarnes skv. örnefnalýsingum – Gamli Brunnur og Nýi Brunnur: “Þá voru Brunnarnir, Gamli Brunnur og Nýi Brunnur.”
Fjóla sagði að Þuríður Guðmundsdóttir, húsfreyja í Stóra-Knarrarnesi, hafi sýnt henni Gamlabrunn. Þær hafi gengið niður gamla brunnstíginn, sem þá var augljós, og beint að brunninum. Hleðslur hafi á verið fallnar inn í hann. Hún væri hrædd um að brunnurinn væri nú kominn undir sjávarkambinn.

Knarrarnes

Stóri-Knarrarnesbrunnur. Nú kominn undir kampinn.

Þegar litið var eftir brunninum (2006) mátti sjá að hann var horfinn undir sjávarkambinn, enda hafði Fjóla ða orði að kamburinn hafi gengið þar verulega inn á umliðnum árum. Brunngötunni var fylgt sunnan við gömlu tóftirnar af Stóra Knarrarnesi. Hleðslur er norðan hennar. Þar sem brunngatan endar var brunnurinn, en þar er kamburinn nú. Hnit var tekið af staðnum þar sem brunnurinn var, skv. loftmyndinni.
Nýi Brunnur sést hins vegar vel enn skammt norðan Vesturbæjar. Steypt hefur verið ofan á lokið og er timburbretti ofan á því.
Aðspurð um önnur merkilegheit á svæðinu sagði hún að ágætt dæmi um vitleysuna þarna um kring vera nýreist sumarhús á holti austan við Knarrarnes. Leyfi hafi verið gefið fyrir hjólhýsi, en nú væri komið þar kofi auk trjáa. Yfirvöldum í Vogum hafi verið tilkynnt um að þar hefði fundist grunnur, sennilega undan fornri kirkju. „Þvílíkt og annað eins“. Þarna á holtinu hafi verið gamall skúr, sem nú væri löng horfinn, og væri um að ræða mótun eftir hann.

Knarrarnes

Knarrarnes. Minna-Knarrarnes nær.

Það verður nú að segjast eins og er að þær framkvæmdir, sem átt haf sér stað á holtinu, særa augu gamalla sjáenda er enn geta skynjað samhengi lands og búsetu á annars fornfrægri strönd.
Fjóla vildi einnig vekja athygli á gömlu mannvirki austar með ströndinni, sem væri svonefndur Halagarður. Þetta væri hlaðinn garður utan um matjurtagarð, sem hreppurinn hafi látið hlaða í atvinnubótavinnu skömmu eftir aldarmótin 1900. Hann stæði enn óhreyfður. Hleðslurnar sjást vel, enn þann dag í dag.
Í örnefnalýsingum er getið um Árnastekk. „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð …,”
Austurbærinn Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Árnastekk í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995), bls. 31: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót vestri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimidlir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð, en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“ Hér er um að ræða svipaða lýsingu og af Árnarétt eða Arnarétt ofan við Garð.
Um Knarrarnes minna (sem nú virðist stærra, ef tekið er miða af húsastærð), segir m.a. í Jarðabókinni 1703: „Jarðadýrleiki er óviss, konungseign.“ Þann 9. september 1447 segir í fyrrgreindu bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey: „Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö (30 hdr) og Breiðagerði fyrir (10 hdr)… Árið 1703 hafa “túnin spillst af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.”
Breiðagerðis er jafnan getið sem eigarbýlis, en fjallað verður um þá jörð nánar í annarri FERLIRslýsingu (ásamt Auðnum og Höfða). Það er m.a. getið um brunn: “Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar.” Enn sést móta fyrir honum sunnan gömlu tóftanna.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Í örnefnalýsingum er getið um Litlastekk. Þar segir: “Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður.” Í annarri örnefnalýsingu segir: “Litlistekkur er beint upp af bæ og suður af Auðnaborg …” “Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
Sesselja Guðmundsdóttir lýsir Litlastekk í bók sinni. Þar segir (bls. 35): „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem gæti heitið Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.“
Frábært veður – mófuglasöngur, kyrrð og angurværð á miðsumarskvöldi.Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Fjóla Jóhannsdóttir.

Knarrarnesholt

Knarrarnesholt.