Í Þjóðviljanum 1955 skrifar Elías Guðmundsson “Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt”:
“Fyrrverandi héraðslæknis, Skúla Árnasonar, er lézt að heimili dóttur sinnar og tengdasonar hér í bænum 17. sept. sl., var getið í blöðum bæjarins um og eftir útför hans í stuttum eftirmælagreinum, skráðum af menntamönnum er þekktu hann persónulega. Í greinum þessum er Skúla lýst sem lærdómsmanni og lækni, einnig að nokkru sem bónda og dýravini, er fór sömu mjúku líknarhöndunum um manninn og málleysingjann, lá aldrei á liði sínu en gerði ætíð sitt bezta. Af því að svo undarlega vill nú til að engin af þessum Skúlagreinum á neitt skylt við venjulegt líkræðulof né eftirmælaöfgar, eins og öllum kunnugum er ljóst þá hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvað þar var, sem gerði Skúla þannig. Svona góðan, svona sannan og raunverulega mikinn mann. Ég fullyrði að það var ekki presturinn sem kenndi honum undir skóla, ekki menntaskólinn hér í Reykjavík né læknaskólinn og ekki heldur sú stofnun er hann hlaut framhaldskennslu í erlendis og hef ég þó ekki neina löngun tii að kasta hinni minnstu rýrð á neinn af þessum fjórum framangreindu aðilum. Heiðurinn og þökkina fyrir það hvernig Skúli var ber engum öðrum en foreldrum hans og heimili þeirra. Þar dvaldi hann öll sín bernsku- og uppvaxtarár. Þarna mótaðist maðurinn.
Hús og heimili foreldranna voru meðal annars hans búnaðarskóli, eins og verkin sönnuðu síðar meir og sýndu ríkulega ávexti af.
Þegar litið er um öxl 60-80 ár aftur í tímann, til bernsku-, unglings- og námsára Skúla læknis er það tvennt sem ekki verður hjá komizt að athuga, en það er hinn stórfenglegi búferlaflutningur sýslumannsins Árna Gíslasonar, föður Skúla, frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu í Skaftafellssýslu, til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu, og svo hið dæmafáa illæri, fjárfellir og þar af leiðandi hvers konar hörmungar er þá gengu yfir landið árum saman.
Klofningar í Krýsuvíkurhrauni.
Búferlaflutningur Árna Gíslasonar frá Klaustri að Krýsuvík fór fram á tveim árum, 1879 og 1880. Fyrra vorið, þ.e. 1879, fluttist nokkuð af heimilisfólkinu, aflaði heyja og fleira um sumarið, en svo um haustið var féð rekið, 1265 fjár, á stað að austan en eitthvað týndi það nú tölunni á leiðinni sem von var til, því margar og illar eru torfærur á þeirri löngu leið. Þá voru ekki brýrnar komnar. Næsta vor, þ.e. 1880, fluttist svo það sem eftir var af fólkinu, stórgripir allir og búslóð. Síðastur frá Klaustri og í einskonar sérfylkingu fór sýslumaður sjálfur ásamt þáverandi síðari konu sinni, Elínu Árnadóttur ættaðri frá Dyrhólum í Mýrdal, og þeim tveim börnum þeirra er til fullorðinsára komust, Ragnheiði og Skúla, en þau voru bæði fermd saman í Prestbakkakirkju á Síðu rétt áður en lagt var af stað að austan.
Krýsuvík, Arnarfell t.v. og Bæjarfell t.h.
Þáttur nýfermda drengsins, Skúla, í þessu ferðalagi var sá að hann rak stóðhross föður síns, eitthvað innan við tuttugu að tölu, flest ung. Þó voru í þessum hópi tvær nokkuð gamlar hryssur, báðar fylfullar og verður þeirra að nokkru getið síðar. Þrátt fyrir dugnað sinn og kappgirni virðist roskni sýslumaðurinn hafa tekið þetta ferðalag vestur um Suðurlandsundirlendið fremur rólega. Gistingastaði hans alla hirði ég ekki að telja, en skal þó geta þriggja þeirra, en á þeim hverjum um sig sat hann einn dag um kyrt, hvíldi fólk sitt og hesta og gisti tvær nætur.
Geitahlíð.
Á vali þessara gististaða má sjá það að hann hefur einkum gist frændur og venzlafólk, en ekki valið sérstaklega úr þá staði er mesta höfðu björg í búi.
Þeir þrír staðir er Árni dvaldi á daglangt á vesturleiðinni voru þessir: Dyrhólar í Mýrdal, æskuheimili frú Elínar, Breiðabólstaður í Fljótshlíð, hjá séra Skúla bróður sínum, en þriðji og síðasti gististaðurinn var kot eitt vestarlega og neðan til í Flóanum, í grennd við Eyrarbakka, nafn á því man ég ekki, en þar bjó frændkona hans fátæk. Í þeim litla flutningi er Árni hafði með sér í þessari ferð, er var lítið annað en nauðsynlegt nesti var kistill einn er hann geymdi í peninga sína. Kistilinn, sem vitanlega var læstur, opnaði hann einu sinni í ferðinni, en það var áður en hann fór úr kotinu frá fátæku frændkonunni. Ekki opnaði hann kistilinn svo mikið að neinn sæi ofan í hann, en þó nógu mikið til þess að hann kom hægri hendi sinni inn undir lokið, en undan lokinu kom svo hnefinn fullur af silfurpeningum, þeim er þá giltu hér sem gjaldmiðill. Þetta lagði hann á borðið hjá fátæku frænkunni að skilnaði, mælt í hnefum en ekki talið.
Stóra-Eldborg ofan Klofninga.
Annarri fátækri frændkonu, systurdóttur sinni, þarna í Eyrarbakkanágrenninu, þurfti Árni að líta eftir um leið og hann fór vestur um. Gjafir til hennar veit ég ekki um, en af henni tók hann sex ára gamlan dreng með sér til Krýsuvíkur, ól hann upp og kom til manns. Piltur þessi var Stefán Stefánsson og var á fullorðinsárum oft nefndur túlkur. Á þessari löngu ferð Árna Gíslasonar og fjölskyldu hans, var lokaáfanginn að sjálfsögðu hin 16 km langa bæjarleið, sem er á milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Að sjálfsögðu eru landamerkin milli þessara jarða þarna á milli bæjanna og eru þau um leið sýslumörkin á milli Árnessýslu að austan en Gullbringusýslu að vestan.
Þegar komið er spölkorn vestur fyrir sýslumörkin, þ.e. inn í Krýsuvíkurland, þá er fyrsta verulega gróna landið á þeirri leið svonefndir Klofningar, en þar fækkaði tveimur í hrossarekstrinum hjá Árna. Fylfullu hryssurnar voru orðnar æði þunglamalegar svo hann skildi þær eftir þar í Klofningunum, næsta dag fór hann svo og vitjaði þeirra, var þá sitt folaldið komið hjá hvorri.
Þegar nú að þarna var komið til hins fyrirheitna lands, Krýsuvíkur, virðist svo sem Árni hafi fundið einhverja þörf hjá sér til þess að beina huga konu sinna og barna að öðru en heimilisástæðunum og búskaparafkomunni og er mér sagt að hann hafi þá kastað fram eftirfarandi stöku: Vorið blíða lífgar lýð lengist óðum dagur. Gyllir fríða Geitarhlíð geislinn sólar fagur.
Geitarhlíð heitir fjall eitt fagurt, skammt til austurs frá Krýsuvík, sem hér er um kveðið. Hvort vísan er ort fyrsta kvöld Árna í Krýsuvík, veit ég ekki með vissu, en hitt er víst að hún er ort á vorkvöldi í Krýsuvík og að Árni er höfundurinn.
Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Árni Gíslason var skemmtilegur tækifærisvísnahöfundur. Stökur hans oft svipmiklar. Kímnigáfu var Árni gæddur og henni góðri. Þann eiginleika tók Skúli í arf. Báðir fóru þeir feðgar vel með skophneigð sína.
Það er hverjum manni auðskilið mál að búferlaflutningur Árna Gíslasonar hlaut óhjákvæmilega að draga á eftir sér marga illa dilka. Fyrst og fremst það að flytja mikinn fjölda sauðfjár úr góðu sauðfjárplássi í annað miklu lakara, en það hefur engum manni tekizt án þess að verða fyrir stórtjóni, þegar svo þar ofan á bætist það ólán að þurfa fyrstu árin að mæta einhverjum þeim verstu harðinda- og fellisvetrum sem komið hafa. Svo var nú bráðapestin á einu leitinu, mjög mögnuð orðin hér um suðurkjálkann þá og hið óhagvana fé að austan mjög næmt fyrir henni. Þá má geta tófubitvargsins er þá var svo magnaður hér um Reykjanesskagann að slíks eru engin dæmi. Fyrsta vorið sem Árni átti fé sitt í Krýsuvík fundust tíu tófugreni í Krýsuvíkurlandareign og er þó ekki trúlegt að öll kurl hafi komið til grafar, svo margar eru holurnar í Krýsuvíkurhraununum…
Þegar við Skúli heitinn læknir ræddum um þessa tíma og þá erfiðleika er við var að stríða, heyrðist mér ævinlega á honum að hann hefði talið tófupláguna versta. Til skilningsauka á þessum málum vil ég greina hér frá tveimur atvikum er Skúli sagði mér frá persónulegum viðskiptum sínum við tófur.
Klofningar – greni.
Þetta umtalaða vor er fjölskyldan flutti til Krýsuvíkur, skeði það að áliðnu vori að Skúli var að smala í áðurnefndum Klofningum, en er leið hans lá yfir laut eina grasigróna verður hann var tófuyrðlinga nokkurra í grasinu þar í lautinni. Það varð fangaráð Skúla að hann fór úr utanyfirbuxunum, batt með snærisspottum utanum skálmarnar neðst, tíndi svo yrðlingana, sem reyndust vera 9 talsins, upp í buxurnar og labbaði svo með feng þennan á bakinu heim að Krýsuvík.
Þegar Skúli kemur í hlaðið mætir hann Guðmundi Hannessyni bónda á Ísólfsskála, er þá var að koma neðan af svokallaðri Skriðu, frá því að vinna gren þar.
Guðmundur þessi var orðlögð ágætisskytta, en er hann hafði heyrt sögu Skúla úr Klofningunum, varð hann æfareiður honum fyrir það að hafa tekið yrðlingana. Taldi Guðmundur það tiltæki Skúla geta valdið því að hann næði ekki tófunni. En hvað um það, þrátt fyrir reiði Guðmundar leggja þeir báðir af stað austur eins og leið liggur, allt þar til er þeir finna hina áður umgetnu laut, þar sem Skúli fann yrðlingana. En er þeir félagar höfðu hreiðrað um sig og legið um klukkutíma í hraungjótu einni að austanverðu við lautina, sjá þeir allt í einu tvær tófur á hraunbrúninni vestan lautarinnar, en þá varð Guðmundi að orði: „Þurftu þær nú að koma báðar í einu, bölvaðar”. Lét hann samt fjúka þarna á þær og báðar lágu.
Kleifarvatn.
Annað atvik, sem ég vil geta gerðist 6-7 árum síðar; var Skúli þá kominn í Latínuskólann en dvaldi að venju heima í Krýsuvík í jólafríinu.
Var það þá venja hans utan sjálfra hátíðisdaganna, þegar veður leyfði það, að ganga með byssu um Krýsuvíkurland, skjóta rjúpur og eitra fyrir tófuna. Í einum slíkum leiðangri var það eitt sinn að hann rakst á för eftir eina kind rétt hjá Kleifarvatni. Snjóföl var svo að vel sáust förin og rakti Skúli þau vestur með Sveifluhálsinum sunnanverðum, allt vestur í svonefnda Seltóu þar sér hann kindina er reyndist þá vera einn af sauðum föður hans. En þannig var þá ástatt með þennan sauð að tófa ein hafði að miklu leyti hringað sig utan um hálsinn á honum og var að sjúga úr honum blóðið. Að hrista tófuna af sér hafði sauðnum ekki tekizt. Þegar nú að Skúli kemur þarna á vettvang þá verður það úrræði hans að skjóta tófuna þarna á hálsinum á sauðnum og þá auðvitað kindina um leið. Útigenginn, ljónstyggur fjallasauðurinn kunni ekki betra ráð að þýðast.
Krýsuvík 1887.
Sumarið 1894 er ég var 10 ára gamall dvaldi ég í Krýsuvík, en þá um vorið lauk Skúli læknanámi og kom vitanlega að þyí loknu heim að Krýsuvík. Dagur einn snemma í ágústmánuði er mér minnisstæður frá því sumri. Það var verið að breiða nokkuð hrakta há á svonefndum Ræningjahóli í sunnanverðu túninu um tíuleytið árdegis, sást þá koma ríðandi maður á rauðum hesti, allmikill í sæti, að austan. Þegar til kom þá reyndist þetta að vera hinn góðkunni myndarbóndi Þórður á Vogsósum og hafði hann með að fara bréf frá Magnúsi Stephensen landshöfðingja, hvar Skúli var beðinn um að taka að sér þjónustu læknisembættis í Grímsneshéraði í Árnessýslu. Við þessari beiðni varð Skúli og lagði af stað austur að tveim dögum liðnum. Ég kann naumast að lýsa því hver áhrif þetta „Skúla-mál” hafði á Krýsuvíkurheimilið. Allir söknuðu Skúla og hryggðust við burtför hans, en glöddust þó af því hve fljótt hann fékk þarna álitlegt embætti. Söknuður þess að missa Skúla var heimilisfólkinu bættur með því að lesa því að minnsta kosti kafla úr bréfum hans, er bárust að austan, ég held með hverri ferð sem féll.
Þegar þess er gætt að frú Elín Árnadóttir, móðir Skúla, var ein sú allra bezta kona sem ég hefi þekkt, og Árni Gíslason, faðir hans, sá maður sem hann var og ég hefi lítilsháttar reynt að lýsa hér, þegar þess er ennfremur gætt að Skúli erfði í ríkum mæli alla beztu kosti beggja foreldranna, þá hlaut vel að fara.
Ég hefi engan gamlan mann þekkt sem hefur átt kost á að vera umvafinn jafn mörgum og ástríkum kærleiksföðmum og Skúli læknir.” – Elías Guðmundsson.
Í Íslenskum æviskrám segir um Árna Gíslason; sýslumaður í Krýsuvík, 1820–1898, sonur Gísla í Vesturhópshólum og bróðir sr. Skúla á Breiðabólstað. Sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur.
Heimild:
-Þjóðviljinn, 5. tbl. 08.01.1955, Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt, – Elías Guðmundsson, bls. 7 og 8.
-Ísl. æviskrár I, bls. 44.
Krýsuvík 1881.