Tag Archive for: Ásláksstaðir

Vatnsleysutrönd

Á 20. öldinni urðu miklar breytingar á mannlífi, híbýlum, verfærum og atvinnuháttum á Íslandi.

Ásláksstaðir

Nýibær – Farmal í forgrunni.

Um aldamótin 1900 voru t.d. u.þ.b. helmingur húsa í Reykjavík úr torfi og grjóti, önnur hús voru úr timbri sem og einstaka steinhlaðin. Bílar og dráttarvélar þekktust ekki. Fólk ferðaðist um á milli staða fótgangandi, á hestum eða hestvögnum undir lok aldarinnar. Hér er ætlunin að lýsa u.þ.b. eitt hundrað ára tímabili í aðstæðum og staðháttum á bæjum Vatnsleysutrandar, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa orðið. Til viðmiðunar er t.d. notuð túnakort tveggja bæja; Hlöðuness og Ásláksstaða frá árinu 1919 í samanburði við uppfært túnakort af sömu bæjum árið 2024. Á kortunum má glögglega sjá hinar miklu breytingar sem þar hafa orðið á mannvirkjum á ekki lengri tíma.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – túnakort 1919.

Haustið 1894 hafði Björn Þorláksson frá Munaðarnesi, Mýrasýslu, farið til Noregs þar sem hann keypti sláttuvél og rakstrarvél fyrir búnaðarskólann á Hvanneyri. Það munu hafa verið fyrstu heyvinnuvélarnar sem komu til landsins. Fyrstu heyvinnuvélarnar, sláttuvélar og síðan rakstrarvélar, bárust hingað rétt fyrir aldamótin 1900 og eftir því sem meira var sléttað af gömlu túnunum og nýræktir bættust við breiddist þessi vélanotkun út. Víða nýttust sláttuvélarnar einnig vel á sléttum engjum.
Þessar nýmóðis vélar var í fyrstu beitt fyrir hesta, en eftir að fyrsta fyrsta dráttarvélin var keypt til landsins vorið 1926 tók hún smátt og smátt við af hestaflinu. Líklega er rakstrarvél það vinnutæki sem hestum var hvað síðast beitt fyrir hérlendis. Með tilkomu dráttarvélanna lærðu bændur í fyrstu að aðlaga gömlu heyvinnuvélarnar að þeim, en upp frá því óx tæknivæðingin hröðum skrefum.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Dráttarvélavæðingin náði þó til fæstra grasbýla og þurrabúða á Vatnsleysutrönd því hvorutveggja fór að mestu í eyði um aldamótin 1900. Eftir tórðu enn stærri býlin í nokkra áratugi og náði einstaka bóndi að eignast Farmal Cup áður en yfir lauk.

Akfær vagnvegur fyrir bifreiðir ofan bæjanna á Vatnsleysutröndinni var lagður á fyrstu áratugum nýrar aldar. Áður byggðust samgöngurnar á slóðum millum bæja eða kirkjugötunni til og frá kirkjum sveitarinnar. Byrjað var á Suðurnesjaveginum frá Reykjavík 1904 og árið 1908 náði hann að Stóru-Vatnsleysu. Árið 1909 var byrjað á veginum frá Keflavík og mættust vegavinnuflokkarnir í Vogum árið 1912. Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík tilkeflavíkur. Ári seinna tókst að aka bifreið fyrsta sinni til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi. Fyrsta bifreiðin, semvitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til landsins 20. júni 1913. Ökumaður og farþegar skyldu bifreiðina eftir í Keflavík og fóru sjóleiðina heim til Reykjavíkur.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í bókinni „Frá Suðurnesjum“, útgefin 1960, segir í formála m.a.: „Það mun vera allfast í eðli manna, einkum er þeir taka að reskjast, að líta til baka um farinn veg, staldra við, og rekja í huga sér atvikin, stór og smá. Ganga í anda forna slóð og tína upp brotasilfrin, sem hlaupið var yfir í hugsunarleysi, sem vel má verða öðru fólki, í nútíð og framtíð, til fróðleiks og skemmtunar.
Sú kynslóð, sem nú er á förum, hefir lifað þær mestu breytingar, sem yfir okkar þjóð hafa gengið í efnahags- og menningarlegu tilliti. Því lengra, sem líður frá og meiri breytingar verða, því ótrúlegri verða frásagnir eldri eða látinna manna um það, sem einu sinni var.“

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Nánast allir bændur á Ströndinni voru útvegsbændur, þ.e. höfðu viðurværi sitt af sjósókn og nokkrar skepnur sér til búbóta. Flestir bæir eða bæjarhverfi höfðu selstöður í ofanverðri heiðinni. Í langflestum tilvikum var um fjársel að ræða, en þau höfðu flest lagst af um og eftir 1870. Eftir það var fært frá heima við bæi.
Á flestum þeirra voru jafnan tvær kýr, nokkrar kindur og einstaka hross. Rafmagn þekktist ekki. Vatn fékkst einungis úr nálægum brunnum og vatnsstæðum.

Við útgerðina voru aðallega notuð sexmannaför eða minni skip. Áttæringar voru þó til á stærri bæjum þar sem gert var út frá heimverum. Útver tíðkuðust ekki á norðuströnd Reykjanesskagans, að Hólminum undir Stapa frátöldum.
Skinnklæði vou alíslensk, gerð úr sauðskinni, kálfskinni og hrosshám. Skinnbrækur til skiptanna, sjóhattar sauaðir úr mjúum striga og olíubornir.

Vogar

Minni-Vogavör.

Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans með því að setja mótora í báta og kaupa kúttera og gufuknúna togara. Þetta markaði m.a. upphaf atvinnubyltingar á Vatnsleysutrönd og gerði það að verkum að fólk leitaði síður atvinnu hjá einstaka bændum. Býli lögðust af við lát ábúendanna og afkomendurnir fluttust í nærliggjandi þéttbýli.
Í kringum 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa orðinn meiri en sveitafólks, og þessi þróun hélt áfram. Í lok aldarinnar bjuggu rúm 90% Íslendinga í þéttbýli, þar af yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.

Hlöðunes

Hlöðunes 2024.

Á 20. öldinni breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið og lífshættir gerbreyttust á skömmum tíma. Vélvæðing varð upphafið að atvinnubyltingu um land allt. Þá urðu miklar breytingar á húsakostinum. Í byrjun aldarinnar voru torfbæir enn algengir, en smám saman tóku steinhús að ryðja sér til rúms. Með aukinni þéttbýlismyndun urðu timburhús algengari, síðar fjölbýlishús og raðhús. Eftir Jamestown-strandið utan við Hafnir árið 1881 þar sem heill timburfarmur af úrvalsviði rataði í land eftir strand, byggðust upp nokkur timburhús á Ströndinni, t.d. Ytri-Ásláksstaðir. Fyrstu steinsteyptu húsin voru síðan reist um 1928 (s.s. Sjónarhóll og Knarranes).

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir 2024.

Bæirnir í Hlöðversneshverfinu fóru flestir í eyði um 1900, s.s. Atlagerði, Gerði og Gerðiskot. Búskap var hætt í Narfakoti um 1920, þótt bærinn væri notaður til búsetu eftir það, Hlöðunes fór í eyði 1959 og Halldórsstaðir um 1960. Í Ásláksstaðahverfinu var búið á Innri-Ásláksstöðum til 1930 og á Ytri-Ásláksstöðum til 1980. Ekki er vitað hvenær Fagurhóll fór í eyði, en það hefur að líkindum verið fyrir 1900. Ábúð í Garðhúsum var hætt um 1920 er fólkið flutti að Móakoti. Þar var búskap hætt um 1925. Á Sjónarhóli, arftaka Innri-Ásláksstaða, var búið fram til 1943, en eftir það var húsið notað sem athvarf.

Hlöðunes

Gömlu Halldórsstaðir 2024.

Til er frásögn kaupamanns sem réðst til vinnu á bæ á Vatnsleysuströnd 1925. Þá var 20. öldin tæplega genginn þar í garð, hvorki hvað varðar húsakost eða verkmenningu snerti. Þarna bjó hann í torfbæ, útihús voru öll úr torfi og grjóti, fjósflórinn hellulagður. Akvegurinn hafði verið aðlagaður bílaumferð, en heimkeyrslur flestar gerðar fyrir vagna. Slegið var með orfi og ljá og heyið rakað, sætt og bundið. Myllusteinn var jafnan við bæjarvegginn. Þjóðlífið var í hnotskurn eins og það hafði verið í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Útihús við Móakot 2024.

Kolur voru gerðar til ljósa um aldir, síðar lýsislampar. Eldker voru notuð til að flytja eld og ljós milli bæjarhluta og híbýla. Lýsislampar komu síðan til sögunnar og loks olíuluktir. Steinolíulampinn var fundinn upp 1855 og segja má að hann, ekki stærri en hann var, hafi verið fyrsti boðberi tæknivæðingar heimilanna sem gaf til kynna tæknibyltingu nútímans inn í hið rótgróna bændasamfélag, sem hér hafði þá staðið tiltölulega lítið breytt í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Fagurhóll við Ásláksstaði 2024.

Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar“ segir m.a. um Vatnsleysuströnd: „Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennilegasta sveit hér á landi. Þar eru hvergi kúahagar né slægjur. Byggðin er á örmjórri ræmu með fram sjónum, en þó sundur slitin. Bæirnir hafa verið reistir á hraunbrúninni við sjóinn. Með mikilli atorku og erfiðismunum hefur bændum tekist að rækta þar víðlend tún, breyta hraunjaðrinum við sjóinn í iðgræna gróðurspildu. Þetta eru afrek margra kynslóða, en hlýtur að vekja undrun aðkomumanna, því hvergi á byggðu bóli er land jafn-óaðgengilegt til ræktunar sem hér. Allt var grjót upphaflega, jarðvegur sama sem enginn, og í hafstormum bar sædrifið salt á land, en holskeflur muldu kletta og tættu upp túnjaðrana.

Halldórsstaðir

Gamall Famal við Halldórsstaði 2024.

Þá er þessi litla sveit merkileg fyrir það, að hún var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins. Það var á árum hinna opnu skipa. Hver einasti bóndi sveitarinnar var þá útvegsmaður, og sumir áttu margar fleytur. Þeir voru atvinnurekendur í stórum stíl. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomumenn og fólk var margt í sveitinni, eða jafnvel fleiri. Menn þessir komu úr innsveitum, norðan úr Skagafirði, austan úr Skaftafellssýslu og af öllu svæðinu þar á milli.“ Vinnuhjú fengu í sumum tilvikum að byggja sér kotbýli í námunda við bæina þar sem það bjó uns jarðnæði losnaði annars staðar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Sveitin á Ströndinni tók miklum breytingum á 20. öld. Minningarnar um mannlífið felast nú í skrifum manna eins og Guðmundar Björgvins Jónssonar, Björns Eiríkssonar og Árna Óla, auk leifa mannvirkjanna; hlaðinna garða, brunna, varða, stekkja, nausta, hrófa og sjóhúsa, auk gróinna og samanfallinna veggja híbýlanna sem þar stóðum fyrrum.

Heimildir:
-https://www.landneminn.is/is/namsefni-fyrir-innflytjendur/saga-landafraedi-og-lifsstill
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/1900-2000-leidin-til-samtimans
-Strönd og vogar, 1981, Árni Óla, bls.7.
-Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð, 1960, bls. 7.
-Þjóðlíf í Þúund ár, Daniel Bruun, bls. 11.
-Íslensk þjóðmenning, 1987, bls.364.
-Sjósókn, endurminningar Erlends Björnssonar frá Breiðabólstöðum, 1945.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dr%C3%A1ttarv%C3%A9l
-Bjarni Guðmarsson, 1997. Saga Keflavíkur 1890-1920, bls. 25-30.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.

Móakot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, segir m.a. frá bæjunum í Ásláksstaðahverfi.

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið, sem nú stendur, var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum árið 1881.

Lúðvík og Friðrik Davíðssynir eru eigendur að jörðinni og er Atlagerði, Móakot og Nýjibær í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða þann 16. október 2017 kl. 17:09.

Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Atlagerði

Atlagerði

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða, móðurjörð hvrefisins. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.

Fagurhóll
Fagurhóll var í suðausturhorni Áslákstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus.

Nýibær

Nýibær

Nýibær (Hallandi).

Nýibær hét áður Hallandi. Tóftir bæjarins sjást enn. hann var byggður 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.

Móakot
Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðuhluta Ásláksstaðarjarðarinnar og er nú sameinuð aðaljörðinni.

Sjónarhóll

Sjónarhóll

Sjónarhóll. Innri-Ásláksstaðir að baki.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „homapati“ Sjónarhól. Árið 1885 hafði Lárus keypt hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi hálflendunnar Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðbær. Bær vinnukonu á Sjónarhól, sennilega byggður á tóftum Fagurhóls.

Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott. Núverandi steinhús var byggt 1929. Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, keypti Sjónarhól og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir. Sjónarhóll t.h.

Um aldamótin 1900 bjuggu á Innri Ásláksstöðum Magnús Magnússon og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Eftir að Magnús brá búi og fluttist til Hafnarfjarðar lagðist jörðin undir Sjónarhól og hús Innri-Ásláksstaða voru eftirleiðis notuð sem útihús.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 261-272.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi.

Ásláksstaðir

Gengið var frá Strandarvegi á Vatnsleysuströnd áleiðis að Gerðistangavita á Atlagerðistanga. Lagt var af stað frá gamla samkomuhúsinu Kirkjuhvoli.

Gerðistangaviti

Gerðistangaviti.

Við veginn að norðanverðu er gróinn hóll. Við hann er hlaðið umhverfis ferkantaðan lítinn túnvöll eins og svo víða þarna norðan af. Sjá má hvernig grjótið hefur verið borið til í litlar hrúgur og þúfurnar sléttaðar. Síðan hefur frostið verið að hjálpa grjótinu að ganga upp úr sverðinum. Handan við hólinn er annar völlur og aðrir utan við hlaðin heimatúngarð við gamla tvískipta tóft. Sunnan hennar er heillega hlaðinn veggur. Norðvestan við hana er einnig hlaðinn veggur, nær kominnn í kaf í jarðveginn. Sjórinn gengur inn á hann í háflæði. Svo er að sjá að landið hafi lækkað þarna nokkuð frá því sem var því víða eru túnbleðlar undir sjó.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir og Narfakot eru vestar, en austar eru Ytri-Ásláksstaðir. Aðrir bæir á Ásláksstaðatorfunni eru (voru) Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandinn, Miðbæjarbúð, Móakot og Knarrarnes.
Úti á Altagerðistanga er vitinn. Við hann er tóft sem sjórinn er smám saman að brjóta niður, ágætt dæmi um ágang sjávar þarna við ströndina og breytingarnar sem hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Vitinn stendur á tanga, en sunnan og vestan við hann eru smáar víkur og vogar. Austar er samfelld strönd utan við Brunnastaðahverfið.
Mikið fuglalíf er við ströndina.
Þetta svæði er kjörið til kvöldgöngu eða styttri gönguferða.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 43 mín.

Atlagerðistangaviti

Atlagerðistangaviti og Atlagerði.

Vatnsleysuströnd

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is þann 8. desember 2004 kl 15:06. Fréttin fjallar um að þrjú hross hafi á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst sl. fimmtudag, tvö á sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Hross í nágrenni Sjónarhóls hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra.

Miltisbrandur

Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar. Að sögn embættis yfirdýralæknis og sóttvarnarlæknis hefur rannsókn á blóðsýni úr hrossunum á Tilraunastöðinni að Keldum leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða.

Bóndinn á Minna-Knarrarnesi, Birgir Þórarinsson, og eigandi hrossanna telur landbrot í landi Sjónarhóls síðastliðinn vetur líklegustu skýringuna á því hvernig miltisbrandur barst í hrossin. Að sögn Birgis er hugsanlegt að þegar land náði lengra fram hafi sýktar skepnur verið urðaðar á þessum stað en miltisbrandsgró geta lifað áratugum, jafnvel öldum saman í jarðvegi.
„Það eina sem menn vita er að sjórinn braut bakkann neðan bæjarins síðastliðinn vetur í landi Sjónarhóls og að ekkert annað jarðrask hefur verið þarna.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landbúnaðarráðuneytið hefur að tillögu yfirdýralæknis fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965.
Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn.

Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.
Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.
Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir og Móakot fjær.

Í tilkynningu frá lanbúnaðarráðuneytinu segir að afar ólíklegt sé að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta sé á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.
Sjórinn er smám saman að brjóta af ströndum Reykjanesskagans og draga hann til sín. Víða má sjá í gamlar hleðslur, bein og annað undan bökkum þegar ströndin er gengin.
Miltisbrandur er ein þeirra vá, sem fornleifafræðingar þurfa jafnan að gæta varfærni við þegar grafið er í fornar dysjar, kuml eða svonefnda „álagbletti“ því þar er líklegt að grafið hafi verið sýkt dýr, en síðan saga verið búin til um staðinn varnaðarins vegna.

Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd.

Narfakotsbrunnur
Helgi Davíðsson í Vogum (84 ára) er manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Á svæðinu eru nokkrar athyglisverðar minjar, auk bæjartóftanna, garða, útihúsa, nausta og vara – leifar mannanna verka fyrri tíðar. Má þar t.d. nefna svonefnt Hlöðversleiði. Svæðið, sem hér verður tekið fyrir, er í raun tvískipt; annars vegar Halldórsstaðir, Hlöðunes og Narfakot vestan Atlagerðistanga og hins vegar Móakot, Ásláksstaðir, Nýibær (Hallandi) og Sjónarhóll.

Brunnur við Narfakot

Í örnefnaskrá fyrir Hlöðunes segir að “Halldórsstaðir stóðu í Halldórsstaðatúni og í því rétt við Halldórsstaðastíginn er svo nefnt Hlöðuversleiði. Á þar að vera heygður landnámsmaður Hlöðuness, sem þá ætti að hita Hlöðversnes og er af sumum nefnt.”
Rústir Halldórsstaða eru sunnan við Narfakot, sem stendur nær sjárvarkambinum. Sunnan þess eru tóftir Hlöðuness. Norðar, við ströndina eru rústir sjávarhúsa og aðrar minjar. “Allar varir Hlöðuneshverfis voru nefndar einu nafni Hlöðunesvarir. Vestust var Hlöðunesvör. Ofan vararinnar var Hlöðuneskampur og á honum var Hlöðuneskamphús, og Hlöðunesnaust eða Hlöðunesskiparétt.” segir í örnefnaskrá.
Helgi sagði fyrrnefnt leiði vera í eða upp á litlum ílöngum hól í Hlöðunestúninu, milli Narfakots og Hlöðuness. Hann hafi einhverju sinni sett stein upp á hólinn, en steinninn væri nú horfinn. Hlöðversleiðið væri ómerkt, en enn væri vitað hvar það væri.
Sesselja Guðmundsdóttir sagði að Klemens Kristmannsson (f. 1917, d. 2005) hafi gengið með henni um túnið í júní 2004 og sýnt henni staðinn þar sem „Hlöðvershaugur stóð, ílöng þúst, líktist leiði.“ Túnið var sléttað út ca 1944. Húsfreyjan þá, Silla, var ekki ánægð með rótið þegar hún frétti af því.. Heimild er um brunn við Hlöðunes, svonefndan Hlöðunesbrunn. Hann er skammt norðan bæjarins, við girðinguna að Narfakoti.
Brunnur „Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum.” Brunnurinn við Narfakot er austan við núverandi íbúðarhús og brunnurinn við Halldórsstaði er rétt norðan við rústir bæjarins.
Hlöðunes er reyndar mjög gamalt býli. Þann 9. september 1447 er jarðarinnar getið í bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö (30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr)… Árið 1584 segir: „Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska“. Árin 1547-48 er Minni- og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. Atlagerði er orðin hjáleiga 1703. Ásláksstaðakot er og hjáleiga 1847. “Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann. Þá er Miðbær, og eitt sinn var svo nýbýli ofan þjóðvegar, Garðhús … “Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú. Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bærinn í Ásláksstaðahverfi.” Árið 1703 (Jarðabókin) segir: „Túnunum segir bóndinn að spilli tjörn, sem þar liggur innan mitt í túninu og líka nokkur önnur tjörn minni, ogso Fornmannaleiðiinnangarðs, líka gjörir sjáfarángur nokurt mein, þó ei til stórbaga á heimajörðinni. Engjar eru öngvar. Útihagar um sumar og vetur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.”
Helgi sagði reyndar tvö fornmannaleiði vera við Hlöðunes. Guðrún Kristmannssdóttir, dóttir Kristmanns Runólfssonar, bónda í Hlöðunesi, sýndi honum þau. Það austara er vestast í túni Halldórsstaða, austan í lágum grónum hól. Á því er lítill steinn. Helgi sagði Kristmann hafi eitt sinn þurft að bregða sér til Reykjavíkur, en þá hefðu komið menn að bænum til að plægja. Hann hafði gleymt að segja þeim frá leiðinu svo þeir plægðu yfir það. Þetta hefði Kristmanni leiðst mjög.
 Helgi sagði Guðrúnu og hafa sýnt honum annað leiði, vestar, norðan undir bæjarhólnum. Þar ætti að vera svonefnt Hlöðversleiði, en líklega hefði Hlöðunes heitið Hlöðversnes fyrrum. Á því er einnig lítill steinn. Leiðið er á tiltölulega sléttu túni og rétt sést móta fyrir því, óreglulega. Mörkin á Halldórsstöðum og Hlöðunesi voru þarna við hlaðinn garð, sem enn sést að hluta. Kom garðurinn þar rétt austan við brunninn. Svonefnt Hlöðversleiði er því innan garðs á Hlöðunesi, en hitt leiðið, austara, er í Halldórsstaðatúni.
Grunnurinn af Hlöðuneshúsinu sést á bæjarhólnum, hlaðinn kjallari.
Þá var skoðað svæðið í og kringum Ásláksstaði. Hús og bæir við Ásláksstaði eru Hlöðversleiðieftirfarandi: Syðst Sjónarhóll, yfirgefið tveggja hæða steinhús með risi. Þá Ásláksstaðir vestar. [Sjónarhóll stendur í Innri-Ásláksstaðalendi, sem nú eru rústir fast við Sjónarhólshúsið, en Ytri-Ásláksstaðir, eru þar sem Helgi Davíðsson var alinn upp – SG]. Ásláksstaðahúsið var byggt árið 1884, að sögn Helga, upp úr timbri, sem barst á land með Jamestown er skipið strandaði utan við Hafnir 1881. Síðar var járnið rifið utan af húsinu og það forskallað. Nú væri húsið svo fúið að það mætti heita ónýtt. Norðan við Áláksstaði var Nýibær (rústir), en hann hét áður Hallandi. Vestan við Ásláksstaði væri ryðbrunnið bárujárnshús, Móakot. Stundum er talað um Ytri-Ásláksstaði.
Eitt hið merkilegasta við Ásláksstaði er fornar heimildir um legstað. Þar segir (FF,239): “Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad lengd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, líkleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis öfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadar hit stærsta herum 250.” Sama lýsing er tekin upp í örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði. Viðbótin þar er eftirfarandi: „Tvö aflöng leiði voru í túni Lárusar [sennilega í landi Sjónarhóls] niður undir Hallanda (nú Nýjabæ). Það voru talin leiði fornmanna, en ekki heyrði Vilborg getið um nöfn þeirra. Hún segir þó, að þar kunni að liggja Áslákur og Ásláka …”
Helgi sagðist kannast við leiði þetta, eða öllu helstur þessi, því þarna mótaði fyrir tveimur leiðum samföstum. Um væri að ræða upphækkun í Ásláksstaðatúninu á smá parti. Hún sæist þegar staðið væri á hlaðinu á Ásláksstöðum með stefnu á vitann (Atlagerðistangavita) í norðvestri. Það hafi jafnan verið trú þeirra, sem til þekktu, að þarna munu hafa verið leiði. Helgi sagðist einhverju sinni hafa rekið niður járntein í upphækkunina og þá komið niður á steina.

Móakot

Móakot – Hjónaleiði fremst.

Í örnefnalýsingu er flötin þarna nefnd Hofmannaflöt sem styður söguna um Hjónaleiðið. Helgi sagði girðingu hafa verið þarna skammt frá milli tjarnarinnar (Hallandatjarnar) og leiðisins. Sunnan liggur kúagatan gamla frá bæ yfir að Fagurkoti. Enn sést móta fyrir henni. Einnig tóftum HelgiFagurkots sunnan leiðisins. Um var að ræða hjáleigu frá Ásláksstöðum. Samnefndur hóll er skammt suðvestar (með þúfu á). Hesthústóft er austan við bæjarhúsið. Rafn Símonarson fæddist þarna, en það mun hafa verið í kringum 1904. Norðvestan við fagurkot er myndarlegur hóll Álhóll (Álfhóll segja sumir). Álasund er neðan hans og þangað gekk áll, að sögn Helga. Öskuhóll er skammt sunnan við leiðið. Þangað var öskunni frá Ásláksstöðum hent. Ef vel er að gáð má sjá öskuna í hólnum. Enn sunnar, sunnan vegarins, er hlaðin varða á hól, svonefnt Kánabyrgi.
Heimild er til um Móakotsbrunn. Brunnurinn er rétt austan við húsið. Hann er fallega hlaðinn og mjög heillegur. Einnig er til heimild um Hallandabrunn: „Hallandabrunnur var framan bæjar í túninu.” segir í örnefnaskrá, hét líka Nýjabæjarbrunnur því Hallandi heitir því nafni núna.“ Brunnurinn sést enn.
Um Ásláksstaðabrunn segir í heimildum (örnefnalýsing fyrir Ásláksstaðahverfið): “Ásláksstaðir eiga þrjú túnstykki í Norðurtúni. Túnstykki niður við Tjörn, túnstykki niður að Vesturkofa og túnstykki niður á Ásláksstaðabrunni.” Brunnurinn er norðvestan við húsið, fallega hlaðinn.
Loks má nefna Sjónarhólsbrunn, en hans er reyndar ekki getið í örnefnalýsingum. Brunnur er þó skammt sunnan við húsið, lokaður með bárujárni.
Í örnefnaskrám er og heimild um huldufólksbústað. Þar segir: “Huldukona var sögð vera í hól rétt sunnan við húsið á Sjónarhóli. Var steinn fremst í hólnum, og voru þar taldar dyr. Lárus hómópati hjálpaði huldukonunni eitt sinn við barnsfæðingu.”Â
HelgiHelgi kannaðist ekki við þennan hól. Allir hólar sunnan við Sjónarhól væri meira og minna grónir, á steina. Þó er einn hóll sunnan við túnið er snýr steinum mót norðri einna líklegastur. Einnig hóll sunnan túnsins, rétt sunnan þjóðvegarins. Þessir hólar eru þó hvorugir „rétt sunnan við húsið“.
Í lýsingum er getið um Rauðstekk: “Fyrir innan Arnarbælishólana er Rauðstekkur, og var grjóthrúga uppi á hólnum, sem hét Rauðhóll. Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við Deili og gengið 7-8 mínútur.“ Fram kemur í lýsingunni að ekki er vitað um mannvirki þar sem þessi Rauðstekkur á að vera. Hins vegar segir í bók SG (Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -1995) að “Rauðstekkur er nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan við Krummhól og er um 8 mín. gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlaveg með stefnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.” FERLIR hefur áður komið við í Rauðstekk og fjallað um hann í annarri lýsingu þar sem rústunum er lýst.
Ætlunin er að ganga fljótlega með Helga Davíðssyni um svæðið og gaumgæfa fleira er merkilegt getur talist.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Sveinbjörn Rafnsson (Frásögur af fornaldarleifum, bls.239).
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Helgi Davíðsson.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir.

 

Ásláksstaðir

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru“. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati“ Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.“

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
„Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.“

Í „Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum“ segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

„Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina“.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.