Á 20. öldinni urðu miklar breytingar á mannlífi, híbýlum, verfærum og atvinnuháttum á Íslandi.
Um aldamótin 1900 voru t.d. u.þ.b. helmingur húsa í Reykjavík úr torfi og grjóti, önnur hús voru úr timbri sem og einstaka steinhlaðin. Bílar og dráttarvélar þekktust ekki. Fólk ferðaðist um á milli staða fótgangandi, á hestum eða hestvögnum undir lok aldarinnar. Hér er ætlunin að lýsa u.þ.b. eitt hundrað ára tímabili í aðstæðum og staðháttum á bæjum Vatnsleysutrandar, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa orðið. Til viðmiðunar er t.d. notuð túnakort tveggja bæja; Hlöðuness og Ásláksstaða frá árinu 1919 í samanburði við uppfært túnakort af sömu bæjum árið 2024. Á kortunum má glögglega sjá hinar miklu breytingar sem þar hafa orðið á mannvirkjum á ekki lengri tíma.
Haustið 1894 hafði Björn Þorláksson frá Munaðarnesi, Mýrasýslu, farið til Noregs þar sem hann keypti sláttuvél og rakstrarvél fyrir búnaðarskólann á Hvanneyri. Það munu hafa verið fyrstu heyvinnuvélarnar sem komu til landsins. Fyrstu heyvinnuvélarnar, sláttuvélar og síðan rakstrarvélar, bárust hingað rétt fyrir aldamótin 1900 og eftir því sem meira var sléttað af gömlu túnunum og nýræktir bættust við breiddist þessi vélanotkun út. Víða nýttust sláttuvélarnar einnig vel á sléttum engjum.
Þessar nýmóðis vélar var í fyrstu beitt fyrir hesta, en eftir að fyrsta fyrsta dráttarvélin var keypt til landsins vorið 1926 tók hún smátt og smátt við af hestaflinu. Líklega er rakstrarvél það vinnutæki sem hestum var hvað síðast beitt fyrir hérlendis. Með tilkomu dráttarvélanna lærðu bændur í fyrstu að aðlaga gömlu heyvinnuvélarnar að þeim, en upp frá því óx tæknivæðingin hröðum skrefum.
Dráttarvélavæðingin náði þó til fæstra grasbýla og þurrabúða á Vatnsleysutrönd því hvorutveggja fór að mestu í eyði um aldamótin 1900. Eftir tórðu enn stærri býlin í nokkra áratugi og náði einstaka bóndi að eignast Farmal Cup áður en yfir lauk.
Akfær vagnvegur fyrir bifreiðir ofan bæjanna á Vatnsleysutröndinni var lagður á fyrstu áratugum nýrar aldar. Áður byggðust samgöngurnar á slóðum millum bæja eða kirkjugötunni til og frá kirkjum sveitarinnar. Byrjað var á Suðurnesjaveginum frá Reykjavík 1904 og árið 1908 náði hann að Stóru-Vatnsleysu. Árið 1909 var byrjað á veginum frá Keflavík og mættust vegavinnuflokkarnir í Vogum árið 1912. Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík tilkeflavíkur. Ári seinna tókst að aka bifreið fyrsta sinni til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi. Fyrsta bifreiðin, semvitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til landsins 20. júni 1913. Ökumaður og farþegar skyldu bifreiðina eftir í Keflavík og fóru sjóleiðina heim til Reykjavíkur.
Í bókinni „Frá Suðurnesjum“, útgefin 1960, segir í formála m.a.: „Það mun vera allfast í eðli manna, einkum er þeir taka að reskjast, að líta til baka um farinn veg, staldra við, og rekja í huga sér atvikin, stór og smá. Ganga í anda forna slóð og tína upp brotasilfrin, sem hlaupið var yfir í hugsunarleysi, sem vel má verða öðru fólki, í nútíð og framtíð, til fróðleiks og skemmtunar.
Sú kynslóð, sem nú er á förum, hefir lifað þær mestu breytingar, sem yfir okkar þjóð hafa gengið í efnahags- og menningarlegu tilliti. Því lengra, sem líður frá og meiri breytingar verða, því ótrúlegri verða frásagnir eldri eða látinna manna um það, sem einu sinni var.“
Nánast allir bændur á Ströndinni voru útvegsbændur, þ.e. höfðu viðurværi sitt af sjósókn og nokkrar skepnur sér til búbóta. Flestir bæir eða bæjarhverfi höfðu selstöður í ofanverðri heiðinni. Í langflestum tilvikum var um fjársel að ræða, en þau höfðu flest lagst af um og eftir 1870. Eftir það var fært frá heima við bæi.
Á flestum þeirra voru jafnan tvær kýr, nokkrar kindur og einstaka hross. Rafmagn þekktist ekki. Vatn fékkst einungis úr nálægum brunnum og vatnsstæðum.
Við útgerðina voru aðallega notuð sexmannaför eða minni skip. Áttæringar voru þó til á stærri bæjum þar sem gert var út frá heimverum. Útver tíðkuðust ekki á norðuströnd Reykjanesskagans, að Hólminum undir Stapa frátöldum.
Skinnklæði vou alíslensk, gerð úr sauðskinni, kálfskinni og hrosshám. Skinnbrækur til skiptanna, sjóhattar sauaðir úr mjúum striga og olíubornir.
Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans með því að setja mótora í báta og kaupa kúttera og gufuknúna togara. Þetta markaði m.a. upphaf atvinnubyltingar á Vatnsleysutrönd og gerði það að verkum að fólk leitaði síður atvinnu hjá einstaka bændum. Býli lögðust af við lát ábúendanna og afkomendurnir fluttust í nærliggjandi þéttbýli.
Í kringum 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa orðinn meiri en sveitafólks, og þessi þróun hélt áfram. Í lok aldarinnar bjuggu rúm 90% Íslendinga í þéttbýli, þar af yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.
Á 20. öldinni breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið og lífshættir gerbreyttust á skömmum tíma. Vélvæðing varð upphafið að atvinnubyltingu um land allt. Þá urðu miklar breytingar á húsakostinum. Í byrjun aldarinnar voru torfbæir enn algengir, en smám saman tóku steinhús að ryðja sér til rúms. Með aukinni þéttbýlismyndun urðu timburhús algengari, síðar fjölbýlishús og raðhús. Eftir Jamestown-strandið utan við Hafnir árið 1881 þar sem heill timburfarmur af úrvalsviði rataði í land eftir strand, byggðust upp nokkur timburhús á Ströndinni, t.d. Ytri-Ásláksstaðir. Fyrstu steinsteyptu húsin voru síðan reist um 1928 (s.s. Sjónarhóll og Knarranes).
Bæirnir í Hlöðversneshverfinu fóru flestir í eyði um 1900, s.s. Atlagerði, Gerði og Gerðiskot. Búskap var hætt í Narfakoti um 1920, þótt bærinn væri notaður til búsetu eftir það, Hlöðunes fór í eyði 1959 og Halldórsstaðir um 1960. Í Ásláksstaðahverfinu var búið á Innri-Ásláksstöðum til 1930 og á Ytri-Ásláksstöðum til 1980. Ekki er vitað hvenær Fagurhóll fór í eyði, en það hefur að líkindum verið fyrir 1900. Ábúð í Garðhúsum var hætt um 1920 er fólkið flutti að Móakoti. Þar var búskap hætt um 1925. Á Sjónarhóli, arftaka Innri-Ásláksstaða, var búið fram til 1943, en eftir það var húsið notað sem athvarf.
Til er frásögn kaupamanns sem réðst til vinnu á bæ á Vatnsleysuströnd 1925. Þá var 20. öldin tæplega genginn þar í garð, hvorki hvað varðar húsakost eða verkmenningu snerti. Þarna bjó hann í torfbæ, útihús voru öll úr torfi og grjóti, fjósflórinn hellulagður. Akvegurinn hafði verið aðlagaður bílaumferð, en heimkeyrslur flestar gerðar fyrir vagna. Slegið var með orfi og ljá og heyið rakað, sætt og bundið. Myllusteinn var jafnan við bæjarvegginn. Þjóðlífið var í hnotskurn eins og það hafði verið í þúsund ár.
Kolur voru gerðar til ljósa um aldir, síðar lýsislampar. Eldker voru notuð til að flytja eld og ljós milli bæjarhluta og híbýla. Lýsislampar komu síðan til sögunnar og loks olíuluktir. Steinolíulampinn var fundinn upp 1855 og segja má að hann, ekki stærri en hann var, hafi verið fyrsti boðberi tæknivæðingar heimilanna sem gaf til kynna tæknibyltingu nútímans inn í hið rótgróna bændasamfélag, sem hér hafði þá staðið tiltölulega lítið breytt í þúsund ár.
Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar“ segir m.a. um Vatnsleysuströnd: „Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennilegasta sveit hér á landi. Þar eru hvergi kúahagar né slægjur. Byggðin er á örmjórri ræmu með fram sjónum, en þó sundur slitin. Bæirnir hafa verið reistir á hraunbrúninni við sjóinn. Með mikilli atorku og erfiðismunum hefur bændum tekist að rækta þar víðlend tún, breyta hraunjaðrinum við sjóinn í iðgræna gróðurspildu. Þetta eru afrek margra kynslóða, en hlýtur að vekja undrun aðkomumanna, því hvergi á byggðu bóli er land jafn-óaðgengilegt til ræktunar sem hér. Allt var grjót upphaflega, jarðvegur sama sem enginn, og í hafstormum bar sædrifið salt á land, en holskeflur muldu kletta og tættu upp túnjaðrana.
Þá er þessi litla sveit merkileg fyrir það, að hún var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins. Það var á árum hinna opnu skipa. Hver einasti bóndi sveitarinnar var þá útvegsmaður, og sumir áttu margar fleytur. Þeir voru atvinnurekendur í stórum stíl. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomumenn og fólk var margt í sveitinni, eða jafnvel fleiri. Menn þessir komu úr innsveitum, norðan úr Skagafirði, austan úr Skaftafellssýslu og af öllu svæðinu þar á milli.“ Vinnuhjú fengu í sumum tilvikum að byggja sér kotbýli í námunda við bæina þar sem það bjó uns jarðnæði losnaði annars staðar.
Sveitin á Ströndinni tók miklum breytingum á 20. öld. Minningarnar um mannlífið felast nú í skrifum manna eins og Guðmundar Björgvins Jónssonar, Björns Eiríkssonar og Árna Óla, auk leifa mannvirkjanna; hlaðinna garða, brunna, varða, stekkja, nausta, hrófa og sjóhúsa, auk gróinna og samanfallinna veggja híbýlanna sem þar stóðum fyrrum.
Heimildir:
-https://www.landneminn.is/is/namsefni-fyrir-innflytjendur/saga-landafraedi-og-lifsstill
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/1900-2000-leidin-til-samtimans
-Strönd og vogar, 1981, Árni Óla, bls.7.
-Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð, 1960, bls. 7.
-Þjóðlíf í Þúund ár, Daniel Bruun, bls. 11.
-Íslensk þjóðmenning, 1987, bls.364.
-Sjósókn, endurminningar Erlends Björnssonar frá Breiðabólstöðum, 1945.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dr%C3%A1ttarv%C3%A9l
-Bjarni Guðmarsson, 1997. Saga Keflavíkur 1890-1920, bls. 25-30.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.