Færslur

Járnbrautarvegur

Gísli Sigurðsson ritaði eftirfarandi grein um vegagerð í nágrenni Hafnarfjarðar í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1966:
“Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Hverjir það voru, sem forgöngu höfðu í því, að leitað var til ríkisstjórnar um atvinnumál, veit ég ekki, en tel þó, að það hafi verið Gísli Sigurðssonbæjaryfirvöld kaupstaðanna. Þessi viðleitni varð til þess að stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það mun hafa verið hinn ungi Geir G. Zoëga verkfræðingur, er þá hafði verið skipaður vegamálastjóri, sem mældi út veginn og fann honum stað. Vegurinn átti að liggja út af Suðurlandsbraut um austanverða Sogamýri, vestan Blesugrófar, og upp austurenda Digranessháls, rétt austan við bæinn Digranes, þar sem gömlu göturnar lágu um hálsinn, þaðan niður að Kópavogslæk og yfir hann fyrir neðan Fífuhvamm, um mýrina þar, um Nónskarð og niður holtið úr skarðinu yfir Arnarneslæk um Kringlumýri, um Vesturmýrina rétt undir Hofstaðaholti, um Bjarnakrika, vestan Vífilsstaða og túns út á Svínahraun eða Vífilsstaðahraun, eins og það nú er kallað. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Þessi vegur átti sem sagt að bæta úr allri þörf fyrir flutninga milli kaupstaðanna, bæði mannflurninga og vöruflutninga. Mig minnir, að til þessarar dýrtíðarvinnu ætti að verja um það bil 500.000.00 – fimm hundruð þúsund krónum – úr ríkisskassanum. Reykvíkingar áttu að leggja veginn úr Sogamýri suður að Miðaftanshól, en Hafnfirðingar frá Miðaftanshól niður í Hafnarfjörð. Hverjir verkstjórar voru frá Reykjavík vissi ég aldrei, en Sigurgeir Gíslason skyldi vera verkstjóri Hafnfirðinga. Hann mun og hafa verið sá maðurinn, er ráða skyldi menn til vinnu í vegagerð þessa. Faðir minn hafði komið mér þarna í vinnu. Og nú var aðeins beðið eftir því að kallið kæmi, að vinnan skyldi hefjast.

Sigurgeir Gíslason

1. febrúar 1918. Það hlýtur að hafa verið þennan dag, sem vinnan byrjaði, því daginn eftir, 2. febrúar sem er kyndilmessa, ætlaði pabbi í verið upp í Grindavík, það var gamall siður, að menn skyldu vera komnir til verstöðva sinna þennan dag eða að minnsta kosti leggja þá af stað í verið. Þó lítil von væri með vinnu, fóru menn á hverjum degi, hverjum morgni að heiman niður á götu til þess að eigra þar milli vinnustöðva, hvort þar væri handarvik að fá. Ég mun þá eins og fleiri daga hafa farið niður á götu og gengið þar milli stöðva í snapi eftir vinnu, en ekkert bólaði á vinnu frekar en fyrri daginn. Á tíunda tímanum, er ég nálgaðist húsið, þar sem við bjuggum þennan vetur, Vesturbraut 10 í kjallara, slagafullum, mætti ég pabba. Sagði hann mér, að þá um morguninn hafi Sigurgeir verkstjóri farið með vinnuflokk til vegagerðar upp í hraun. Dýrtíðarvinnan væri að byrja. Ég yrði því að tygja mig til ferðar þegar í stað. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, fór inn til mömmu, drakk kaffisopa og mun hafa fengið brauð með. Nesti fór ég ekki með, en slíkt var þó nauðsynlegt, þar sem vinnan var svo langt í burtu, að ekki var tiltökumál að fara heim í mat í hádegi. Mamma lofaði að senda bóður minn, ellefu ára, með mat til mín. Ég lagði svo af stað, og innan stundar var ég kominn á staðinn og hitti Sigurgeir að máli. Hann úrskurðaði mig í vinnuflokk sinn. En verkstjóri fyrir öðrum flokk var Jón Einarsson, velþekktur verkstjóri.
VJón Einarssonið byrjuðum undir Miðaftanshól. Skyldi flokkur Jóns Einarssonar halda austur og upp af hólnum til móts við Reykvíkinga, en flokkur Sigurgeirs skyldi halda niður hraunið. Strax var ég settur í að bera grjót á handbörum móti ungum manni, Halldóri M. Sigmundssyni. Vorum við vinnufélagar allan tímann, sem við vorum í þessari vinnu.
Hælar voru settir niður til að fara eftir með veginn. Mælt var fyrir vegarbrúnum og þar settar niður stikur. Sérstakir menn voru til þess settir að hlaða vegarbrúnirnar. Ekki var skortur á hæfum mönnum í slík störf í Hafnarfirði. Þar var hver snillingurinn öðrum fremri. Sigurgeir hafði langa þjálfun í vegarlagningum um hraun Hafnfirðinga og Hafnfirðingarnir langa þjálfun í að hlaða vegarkanta, bæði heima í Firðinum og með Sigurgeir út um land. Þeir eru ekki margir vegarkantarnir, sem nú verða séðir, en þó eru þeir til og bera vott um vandaða vinnu, bæði handlagni og góða útsjón. Aðrir voru settir til að ryðja hólum og hæðum niður í lægðir. Svo vorum við strákarnir látnir bera grjótið að lagningarmönnunum eða smágrjót í púkkið við veginn.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning.

Þar sem svo langt var heim, að ekki voru möguleikar á að fara í mat, átti sú regla að gilda að borða vel heima áður en farið væri til vinnu. Ferðin aðra leiðina skyldi greidd sem vinna. Svo átti að vinna sleitulaust til kl. 12 á hádegi. Þá var gefin hálf stund til matar. Síðan var unnið fram til kl. 5 e.m. og ekkert kaffihlé. Þetta fyrirkomulag þætti víst ómögulegt nú til dags. En þessu uðrum við verkamenn að hlíta í þá daga. Dálítið var þetta óþægilegt fyrst í stað, en þetta vandist þegar fram í sótti, og að síðustu vorum við farnir að kunna þessu allvel…
Alla tíð mættumst við verkamennirnir við hús Jóns Einarssonar, Strandgötu 19. Þaðan héldum við upp í hraunið, eftir stíg, sem þar lá og þeir Sigurgeir og Jón þekktu vel…

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Eins og áður segir um verkið, var hólum jafnað í holurnar og kantar hlaðnir, en það sem til vantaði, var borið á handbörum og fyllt þannig upp. Var þetta allmikilvinna, en undir stjórn þeirra Sigurgeirs og Jóns miðaði verkinu allvel áfram. Þegar eftir stuttan tíma, var smiður fengin til til að skerpa og herða járnkarla og fleyga sem notaðir voru. Var smiðjan borin upp eftir einn morguninn. Smiðurinn var Sveinn járnsmiður Sigurðsson, ætaður frá Syðri-Gróf í Flóa. Fyrst í stað var smiðjan undir berum himni, en brátt var skúr fluttur upp eftir fyrir smiðjuna. Þá var einnig annar skúr fluttur upp eftir, það var matar- og áhaldaskúr. Bættist nú hagur manna, því nú var farið að matast inni. En ekki var skúrinn stærri en það, að ekki komst nema annar flokkurinn í skúrinn í einu. Flokkarnir urðu því að skiptast á að borða…

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól.

Ég man það enn, að mikil gleði var í kjallarnum á Vesturbraut 10, þegar ég kom heim með fyrstu útborgunina. Þá var hitað kakaó og snúðar keyptir til hátíðarbrigða. Svo var farið og skuldir greiddar, en þá var ekki mikill peningur eftir. En að vera skuldlaus var sama og hafa lánstraust. Þeirri reglu héldu við móðir mín alltaf. Vinnan gekk með sama hætti frá degi til dags og áfram mjakaðist vegurinn, sjö metra breiður og byggður með það fyrir augum, að járnbraut lægi á öðrum kanti hans, þegar þar að kæmi…
Þegar hér var komið sögu, hafði flokkur Jóns Einarssonar náð upp að Miðaftanshól. Þá sneri hann við og bætti upp í skörðin, sem orðið höfðu í flokki Sigurgeirs. Var enn um stund haldið áfram verkinu. En þar kom samt, að fé það þraut, er ríkisstjórnin hafði lagt til þessarar vegagerðar. Þá var lokið þessari dýrtíðarvinnu, og við héldum heim síðasta kvöldið. Vorum við þá farnir að una þessu vel, sem nú yrði kallað harðrétti, að eta einmælt allan vinnutímann…”
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt.

Heimild:
-Gísli Sigurðsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1966

Járnbrautarvegurinn

Járnbrautarvegurinn – Miðaftanshóll fjær.

Járnbrautarvegur

“Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni.
Hafnarfjardarhraun-2Þessar hleðslur vitna um vegasögu okkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrri hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.
Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.
Hafnarfjardarhraun-4Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.
Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum.

Hafnarfjardarhraun-6

Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm. Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri.
Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Hafnarfjardarhraun-10Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.
Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.
Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Midaftansvarda-21

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1904-1912. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.
Hafnarfjardarhraun-12Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann. Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.
Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé.

Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða Hafnarfjardarhraun-15áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.
Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.
JarnbrautEr glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.”

Heimildir:
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.
-Unnið af Jónatan Garðarssyni.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Járnbrautarvegur

Komið hefur verið upp upplýsingaskilti um Atvinnubótaveginn (Járnbrautarveginn) í Hafnarfjarðarhrauni:
Atvinnubotavegur-skilti-23“Atvinnubótavegurinn [í Hafnarfjarðarhrauni] var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hér liggur hann yfir Garðahraun sem er hluti Búrfellshrauns. Hraunið á upptök sín í Búrfelli og nær fram í sjó bæði í Skerjafirði og Hafnarfirði. Upplýsingaskilti um hraunið er hjá húsi Náttúrufræðistofnunar.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Hér strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera.
Atvinnuleysi var í sögulegu hámarki í kjölfar stríðsins þar sem markaðir fyrir íslenskan fisk erlendis Atvinnubotavegur-skilti-24höfðu hrunið og öll aðföng orðið erfiðari. Árið 1917 var ákveðið að landsstjórnin veitti mönnum atvinnu með því að leggja góðan veg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þáverandi landsverkfræðingur Geir G. Zoëga mældi fyrir legu vegarins sem vera átti 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn lá frá Suðurlandsvegi vestan Elliðaánna, þaðan vestan við Digranes í Kópavogi, norðan við Hnoðraholt og að Vetrarmýri hjá Vífilsstöðum. Þaðan var hann lagður hér yfir hraunið og um það svæði þar sem Sólvangur í Hafnarfirði er nú, um Hörðuvelli og átti að enda við Lækjargötu í Hafnarfirði.
Atvinnubotavegur-skilti-25Verkamennirnir, sem unnu þann hluta vegarins sem hér liggur, bjuggu í Hafnarfirði. Vinnan hófst í febrúar, hún var erfið og slítandi en kaupið sæmilegt. Framan af höfðu þeir ekkert skýli til að hlýja sér í en þegar á leið var settur upp vinnuskúr þar sem þeir gátu leitað sér skjóls í misjöfnum veðrum. Augljóst er að það var ekkert áhlaupaverk að jafna veg yfir hraungjótur sem væri nægilega sléttur fyrir járnbrautarteina en víða má sjá vandaðar hleðslur og eru þær áberandi hér rétt framan við skiltið.
Þegar fjárveitingin til atvinnubótavegarins var uppurin var verkinu sjálfhætt. Stríðinu lauk, atvinnuleysið minnkaði og hugmyndir um lagningu járnbrautar lognuðust út af. Vegurinn nánast gleymdist og var að stórum hluta aldrei nýttur, svo sem hér í Vífilsstaðahrauni, þar sem hann hefur aðlagast umhverfinu og gróið á köflum. Hann ber verkkunnáttu og dugnaði vegagerðarmanna á fyrri hluta síðustu aldar gott vitni.”

Heimild:
-Texti á skilti við atvinnubótaveginn í Hafnarfjarðarhrauni.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.