Færslur

Fornleifar

“NÝVERIÐ [2001] kom út skýrsla á vegum samgöngumálaráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi.
Forn-11Flestir sem starfa að íslenskri menningu hljóta að fagna henni enda er þar tekin afdráttarlaus afstaða með nauðsyn þess að efla menningartengda ferðaþjónustu. Í skýrslunni eru settar fram hugmyndir um leiðir sem ríkisvaldið hefur til að styðja þennan vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs. Er öruggt að þær verði til góðs ef þær komast í framkvæmd.
Í skýrslunni er sú forsenda gefin að hér á landi séu ekki fornleifar sem vert sé að kynna (s. 17) og þess vegna beri fyrst og fremst að leggja áherslu á bókmenntir og sögu þjóðarinnar í menningartengdri ferðaþjónustu. Á þeim grundvelli er sett fram ákveðin skoðun á framvindu Íslandssögunnar og hvaða atriði á hverju tímabili séu helst líkleg til að vekja áhuga.
Forn-12Það er full ástæða til að efast um nauðsyn þess eða gagnsemi að ríkisvaldið byggi stefnu sína í ferðaþjónustu á einni tiltekinni söguskoðun, og víst er að í þessu tilfelli hefur þessi afstaða byrgt sýn á þá fjölmörgu möguleika aðra sem eru á vexti á þessu sviði. Ekki er hægt að kenna um áhugaleysi, því í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn aukinna fornleifarannsókna (s. 11, 23). Þar ræður fremur skortur á þekkingu á íslenskum fornleifum og möguleikum til að hagnýta þær.

Íslenskar fornleifar
Það er almenn skoðun en röng að ekki séu á Íslandi miklar eða merkilegar fornleifar. Íslendingar notuðu að vísu lengstaf forgengileg byggingarefni eins og torf og tré þannig að mannvirkjaleifar skera sig ekki úr í landslaginu eins og byggingar úr steini myndu gera. Það þýðir hinsvegar ekki að leifarnar séu ekki til eða að þær séu ekki áhugaverðar.

Forn-13

Á vegum Fornleifastofnunar er unnið að skráningu fornleifa um allt land og hefur nú verið safnað upplýsingum um 53.000 íslenska fornleifastaði. Skráningin nær til um 44% landsins þannig að ætla má að alls séu 120.000 fornleifastaðir á landinu öllu. Það er því enginn skortur á fornleifum þó að viljann skorti til að nýta þær.
Í nýlegri könnun um áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi kemur í ljós að flestir nefna fornleifar sem það atriði menningararfsins sem þeir höfðu mestan áhuga á. Hinsvegar kom í ljós að þessir ferðamenn töldu gæði kynningar á fornleifum hvað lakasta og var um þetta atriði mestur munur á væntingum ferðamanna og frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu (Rögnvaldur Guðmundsson: Sagnagarður Íslands, 2000). Með öðrum orðum þá stöndum við ekki undir þeim væntingum sem erlendir ferðamenn hafa um eðlilega þjónustu á þessu sviði.

Dæmi frá Orkneyjum
Forn-10Á Orkneyjum er ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugreinin og hafa eyjaskeggjar um 3,5 milljarða íslenskra króna í tekjur af henni árlega. 23% ferðamanna nefna fornleifar sem meginástæðuna fyrir því að þeir heimsækja eyjarnar, en 73% nefna fornleifar sem eina af ástæðunum, þannig að tekjur hinna tuttugu þúsund Orkneyinga af fornleifum einum eru á bilinu 1-2 milljarðar íslenskra króna (upplýsingar frá Orkney Enterprise). Til Íslands koma tvöfalt fleiri ferðamenn og ætti því að vera raunhæft markmið að við gætum haft 2-3 milljarða tekjur á ári af þessari auðlind. Eins og er eru tekjur Íslendinga af fornleifum varla meiri en nokkrar milljónir á ári.
Ástæðan fyrir því að ég tek Orkneyjar sem dæmi er að þar eru hvorki pýramíðar né kastalar sem setja svip sinn á landslagið heldur eru fornleifar þær sem vekja svo mikinn áhuga ekki ólíkar þeim íslensku að eðli og umfangi. Munurinn liggur í því að hinar orkneysku fornleifar hafa verið rannsakaðar og staðirnir í kjölfarið gerðir aðgengilegir gestum. Orkneyingar hafa verið lengi að við þetta og verið óhræddir við að fjárfesta í rannsóknum, kynningu á rannsóknarniðurstöðum og aðgengi að fornleifastöðum.

Hvernig getum við hagnýtt íslenskar fornleifar?
Forn-14Það eru margar leiðir til að hagnýta íslenskar fornleifar. Aðeins er fjallað um eina þeirra í áðurnefndri skýrslu, þá að gera fornleifauppgröft sem síðan er byggt á við kynningu á viðkomandi stað. Það er dýrasta leiðin og sú sem lengstan tíma tekur.
Ódýrari leiðir eru einnig til. Ljóst er að fjölmarga uppgrafna íslenska minjastaði mætti gera aðgengilega og kynna fyrir gestum. Í þeim skilningi má líta á eldri rannsóknir sem vannýtta auðlind.
En það þarf heldur ekki uppgröft til að hagnýta fornleifar. Sandblásin verbúð á eyðiströnd eða vallgróin beitarhúsatóft á lækjarbakka geta sagt meira um lífshætti og lífskjör Íslendinga á liðnum öldum en margar blaðsíður af ritmáli. Slíkar fornleifar er að finna um allt land og eru nánast endalausir möguleikar á því hvernig hægt er að nýta þær í ferðaþjónustu. Kynning á slíkum minjastöðum byggist á því að líta á þá sem hluta af landslaginu og skynjun þess. Það gerbreytir upplifun ferðamannsins af íslenskri náttúru þegar honum er bent á minjar um íslenskt samfélag og komið í skilning um þá lífshætti sem hér tíðkuðust og þá lífsbaráttu sem hér fór fram. Það er ekki ómerkileg saga.
Forn-20Fornleifar hafa þann meginkost fyrir ferðaþjónustu að þær eru staðbundnar og krefjast þess að menn ferðist til að hægt sé að skoða þær – öfugt við bókmenntir sem hver sem er getur notið í stofunni heima hjá sér. Þær hafa líka þann kost að þær eru dreifðar um allt land, sem þýðir að hægt er að hafa áhrif á hvert ferðamenn fara með því að stjórna uppbyggingu fornleifastaða.
Skynjun okkar Íslendinga af fortíðinni byggist nær alfarið á sögum og rituðu máli. Það er sérstaða okkar því fæstar aðrar þjóðir eiga jafnmikinn sagnaarf og við, eða eru jafnmeðvitaðar um hann. Það er sjálfsagt fyrir okkur að nýta okkur þessa sérstöðu í ferðaþjónustu, en það er ástæðulaust að láta hana takmarka möguleika okkar. Erlendis er mönnum tamara að skynja fortíðina í gegnum hluti – byggingar, listaverk eða gripi – og þeir búast við því að þeim sé miðlað upplýsingum með sama hætta þegar þeir koma hingað. Hversvegna eigum við að valda þeim vonbrigðum?”

Heimild:
-Orri Vésteinsson, Mbl. 7. des. 2001 – Fornleifar eru auðlind.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.