Færslur

Hellisheiðarvegur

Ætlunin var að rekja gamla Hellisheiðarveginn (elstu göngu- og reiðgötuna) frá Lyklafelli upp í Hellisskarð. Áður hafa tvær götur verið raktar frá Elliðakoti upp fyrir Lyklafell og auk þess Dyravegurinn frá Lyklafelli að Nesjavöllum.
HellisheiðarvegurGatnamót Hellisheiðarvegar og Dyravegar eru skammt ofan við Lyklafell. Þar er vegurinn greinilegur þar sem hann liggur upp brekku til austurs og síðan liðast hann austur Norðurvelli, upp að Bolavöllum og beygir til suðurs undir Húsmúla. Vörðuð leið er vestar. Þar mun hafa verið um vetrarveg að ræða, sem sennilega hefur verið varðaður 1878. Sú leið er styttri frá Draugatjörn að Lyklafelli, en torfarnari þegar jörð er auð.
Skammt sunnar á heiðinni er svonefndur Sýslusteinn. Kíkt var á hann í leiðinni.
Þegar skoðaðar eru fornleifaskráningar af svæðinu kemur glögglega í ljós að Hellisheiðarvegur hinn forni er ekki talinn til fornleifa því hans er ekki getið – þrátt fyrir að vera auðrakinn svo til alla leiðina.
KortSem fyrr sagði liggur
Hellisheiðarvegur upp á Norðurvelli og áfram um Bolavelli norðanverða. Við suðvestanverðan Húsmúla liðast gatan um grasgrónina og er víðast mjög greinileg. Þó hefur vatn grafið hana umtalsvert niður í seinni tíð. Afleggjari (sennilega svonefndur Nautastígur) liggur síðan svolítið upp í Múlann gegnt Draugatjörn og um Mógil. Austan þess beygir gatan áleiðis að Kolviðarhól sunnan Sleggjubeinsdals, áleiðis að Hellisskarði. Varða er efst í skarðinu.
Skv. lýsingu mun Hellisheiðarvegur hafa legið upp að sunnanverðri Draugatjörn og síðan áfram áleiðis að Kolviðarhóli og áfram upp Hellisskarð. Á þeim kafla hefur nánast alveg gróið yfir veginn.
Sýslusteinn“Hellisheiðarvegur hefur verið fjölfarinn fjallvegur um aldaraðir, í dag þegar við ferðumst um í heitum, öruggum bílum okkar er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar hafa þurft að leggja á sig til að komast á milli staða. Á þessum fjallvegum var oft háð barátta upp á líf og dauða, enda voru mannskaðar á Hellisheiði tíðir. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir hafa dáið á ferð sinni um Hellisheiði. Engar heimildir eru til um mannskaða fyrir lok 18. aldar. Ónákvæmar ritaðar heimildir og frásagnir af mannsköðum eru að finna í annálum. En oft var staðsetning þessara mannskaða ekki nákvæmari en svo að í heimildum var skráð, að þetta margir menn hefðu orðið úti á Suðurlandsfjórðungi, svo dæmi séu tekin. Hér er ein stutt dæmisaga um ferðalög um Hellisheiði.

Hellisheiðarvegur

Um miðja 19. öld fóru þrjár manneskjur úr Ölvesi á grasafjall vestur á Hellisheiði og í Hengladali. Fólk þetta var bóndinn á Hvoli, unglingspiltur og kerling ein við aldur, er um fjölda ára hafði farið til grasa á þessar stöðvar. Þau voru þrjá sólarhringa í ferðinni og lágu við tjald. Kvöld eitt, er þau komu í tjaldstað, hafði bóndinn með sér gamlan göngustaf um tveggja álna langan, snjáðan mjög og feyskinn. Kvaðst hann hafa fundið stafinn, reistan upp við hraunskúta þar allfjarri. Kerling spurði bónda, hvort hann treysti sér að finna staðinn, þar sem stafurinn hefði verið. Hann kvaðst mundu geta það. Fýsti kerlingu mjög að fara þangað, og varð það úr, að þau fóru öll og fundu staðinn. Er þau litu inn í hraunskútann, sáu þau aflanga mosahrúgu. Þau hrófluðu við henni; kom þá í ljós, að undir henni var mannsbeinagrind, en mosahrúgan hafði með tíma og árum myndast ofan á þeim. Voru nú beinin tínd upp í poka og flutt fram í Ölves og nokkru síðar grafin í Arnarbæliskirkjugarði á messudegi.

Hellisheiðarvegur

Nóttina eftir að beinin voru grafin, dreymdi bóndann á Hvoli, sem fann þau, að maður kæmi til hans. Kvaðst hann vera sá, er beinin átti, þakkaði bónda fyrir að hafa flutt þau í vígða mold. En um leið otaði hann fram öðrum fætinum og kvartaði um, að þar vantaði fremsta köggulinn á stóru tána. Í þrjár nætur dreymdi bóndann sama drauminn, og bar draumamaður sig mjög illa. Sagði þá bóndi drauminn kerlingunni, er með honum var, þegar beinin fundust. Kerling ráðlagði honum að fara vestur á heiðina, þar sem beinagrindin hafði legið, og leita köggulsins, og það gerði bóndi. Eftir nokkra leit fann hann beinið og hafði heim með sér. Þegar næst var messað í Arnarbæli, hafði bóndinn köggulinn með sér í vestisvasa sínum. 

Varða

Þegar messan var úti, laumaði hann köggulinum svo lítið bar á ofan í nýorpið leiði. Eftir það gerði sá dauði ekki vart við sig.
Var nú spurn haldið fyrir um, hver sá hefði verið, er þarna hafði beinin borið. Var það hald flestra, að þau væru af manni, er úti varð á heiðinni fyrir 36 árum og var úr Biskupstungunum. Samkvæmt því hefur það gerst á áratugunum 1820 til 1830.”

Elsti akvegur Hellisheiðarvegar er skammt suður af gömlu götunni gegnt Húsmúla. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. 

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar
á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.” segir í örnefnaskrá.
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður (061), og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum.” segir í Austantórum.

Varða

“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. . Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksvegur

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í
Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.” segir í Landnámi Ingólfs 2.
HellisheiðarvegurSamkvæmt Birni Pálssyni var aðhald fyrir hesta sérstaklega hlaðið upp við Eiríksveg fyrir þá sem hlóðu veginn.
Eiríksvegur sést greinilega víða, t.d. í Hrauntungu þar sem ný íbúðabyggð á að rísa. Vegurinn sést koma undan núverandi þjóðvegi og liggur, þráðbeinn til ASA yfir allt hið væntanlega íbúðahverfi. Girðing afmarkar nú svæðið í Hrauntungu en Eiríksvegur liggur áfram ASA við suðurhlið hennar í um 200 m áður en hann fjarar út skammt norðan við. Vegurinn liggur um mosavaxið hraunlendi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: “Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og Hellisheiðarveguróvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 “hárnálarbeygjur” á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.” segir í Landnámi Ingólfs.
Í Lýsingu Ölvershrepps frá 1703 [í Sýslu- og sóknarlýsingum] segir m.a.: “Fyrir austan … SæluhúsiðBæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellisheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis.”  Þar segir ennfremur í lýsingu frá 1840: “Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.” “Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, Hveragerði og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Húsmúlarétt

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.” segir í Sögu Kolviðarhóls.

Á skilti við Húsmúlarétt stendur eftirfarandi:
“Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings á vorin og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Af afrétti Ölfushrepps, sem þetta svæði tilheyrir, gekk fé úr fleiri hreppum.
Í gömlum Hellisskarðmunnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusingar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnu lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.”

Á skilti við sæluhúsið við Draugatjörn stendur eftirfarandi m.a.:
“Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um hér á landi, en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp á Kolviðarhól 1844.
Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og Laskaður garðursegir m.a.: “Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. “Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu milli tjarnarinnar og Kolviðarhóls.”

Þegar FERLIR var á ferð við Húsmúlaréttina mátti sjá hvar hlöðnum garði, almenningi, vestan við hana hafði verið raskað – og það verulega, sennilega með vélskóflu.

Norðurvellir heita grasvellirnir nyrst og næst Lyklafelli og Bolavelli austast norðvestan Húsmúla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason, Myndir AÞE; Júlí 2006.
-centrum.is
-Fornleifaskráning v/Hellisheiðarvirkjunnar, Fornleifastofnun Íslands.
-Fornleifaskráning í Hveragerði – Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands 2002.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – uppdráttur ÓSÁ.