Örnefndin Svartiklettur og Svíri hafa verið til í Grindavík og þá sem mið á Járngerðarstaðasundið. Ætlunin var að reyna að staðsetja klettinn í fjörunni. Meðferðis var höfð gömul ljósmynd frá því í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Járngerðarstaði segir m.a.: „Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör [Fornavör], þá Suðurvör og síðan Norðurvör sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör. Þar var uppsátur Skálholtsskipa og síðar útgerðin. Þegar S.T. fékk lóð þarna og gróf niður í kálgarði sínum voru þar fyrir vaðsteinar og brýniskubbar o.fl. í axlardýpt.
Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó í fjörunni. Þar upp af heitir Svíri, klettahryggur sem aðskilur Hópið frá sjónum. Út af honum kemur vestri garður hafnarinnar. Vegur liggur eftir Svíra fram á bryggjurnar sem eru innan á hafnargarðinum. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.“ Hér í lokin má sjá svolitla villu í lýsingunni, sennilega vegna þess að Svíri var horfinn þegar hún var gerð. Bæði Svartiklettur og Svíri (Svíravarða) voru til, en hin síðarnefnda var eyðilögð þegar bryggjur í Hópinu (Svíragarður) voru gerðar. Ekki er ólíku saman að jafna er unnið var undir Hraðfrystihús Þórkötlustaða. Þá var allt grjót sótt í nálæga grjótgarða. Þannig voru t.d. hinir löngu garðar ofan við Hraun sóttir og notaðir í undirlagið (Sigurður Gíslason). Í dag er mikil eftirsjá af þeim görðum. Þetta voru vandaðar hleðslur enda fékk bóndinn á Hrauni dannebrogsorðuna fyrir verkið á 19. öld.
Á Svíravörðu og á Svartakletti voru þríhyrnd innsiglingarmerki. Þótt bæði hafi sjórinn brotið ströndina sem næst honum hefur legið, þ.m.t. af Svartakletti, og mennirnir brotið undir sig landið ofanvert og hlaðið á það varnargarði, má enn sjá það sem eftir er af Svartakletti í fjöruborðinu skammt austan við Staðarvör (Skálholtsstaðarvör). Steinsteypt ræsi liggur um Svartaklett svo segja má að nú sé Snorrabúð stekkur (eða Svartiklettur steinn).
Utan við Svartaklett urðu endalok þjónustufars og þar með hluta af sjó- og verslunarsögu Grindavíkur um aldarmótin 1900.
Þjónustufar þetta, gufuskip, nefndist Oddur, oftast nefnt Bakka-Oddur. Það var í eigu Lefoliiverslunarinnar á Eyrarbakka. Útgerðin gerði út skip, sem hún sendi til Grindavíkur og allt vestur fyrir Reykjanes með vörur að sumrinu til. Fyrsta skipið gekk undir nafninu Den Lille. Á eftir því kom bátur, sem hét Oddur (Bakka-Oddur eða Bakkabáturinn).
„Sumarið 1888 gerði Lefoliiverslun samning við Grindvíkinga, sem tryggði þeim fyrirgreiðslu við femrinhu og afffermingu vélbáts, sem þangað áti að sigla á vegum verslunarinnar. Undir samning þennan skrifuðu Einar Jónsson í Garðhúsum, Sæmundur Jónsson á Járngerðarstöðum og P. Nielsen, verslunarstjóri. Oddur V. Gíslason var vitundarvottur. Sumarið 1892 skrifaði hann grein í Sæbjörgu undir fyrirsögninni „Bravo „Oddur““. Í greininni segir Oddur m.a.: „Víst má Grindavík muna sína aðra, þegar saltfiskur var reiddur á hestum til Keflavíkur, og konur báru salt á baki sjer úr Vogum og Keflavík og ekki ólíklegt, að viðskipti Grindavíkur til Eyrarbakka fari vaxandi….“.
Helstu verkefni Bakka-Odds, sem var um 35-45 tonna járnskip, voru fisk- og saltflutningar en einnig flutti hann ýmsar vörur til vertíðarmannanna, s.s. smjör og rúgmjöl. Saltið var aðallega flutt á haustin en fiskurinn á vorin, þegar vetrarvertíð var lokið. Algengt var, að vermenn færu þá með bátnum austur á Eyrarbakka, og hefur Sæmundur Jónsson sagt svo frá ferðum Bakka-Odds í kringum lokadaginn 11. maí.: „Þá voru vermenn mjög önnum kafnir að binda þorskhausa og fleira í pakka til flutnings austur með Oddi, enda fóru þeir þá líka margir með bátnum austur á Bakka… Oft var skrítið að sjá þegar hann fór austur um lokin, því að þorskhausa baggarnir voru margir og þeim hlaðið hátt upp.“
Fyrir vermennina hafa ferðir Bakka-Odds verið til mikils hagræðis, enda ólíkt þægilegra að flytja færur og skreið með bátnum heldur en á reiðingshestum yfir hraun og vegleysur.
Sem strandferðaskip þjónaði Bakka-Oddur hlutverki sínu með sóma um árabil. Bakka-Oddur endaði daga sína uppi í fjöru í Grindavík haustið 1904. Átti hann í það sinn eitthvert smávægilegt erindi til Grindavíkur og var rétt nýlagstur við akkerisfestar utan við Svartaklett, þegar gerði suðaustan rok og hafrót svo mikið, að keðjurnar slitnuðu og bátinn rak upp í fjöru. Ekki var báturinn mikið brotinn eftir volkið, en svo fór að sjórinn braut hann þarna í fjörunni, og var hann þá rifinn og seldur í brotajárn.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing AG fyrir Járngerðarstaði.
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur 1996, bls. 180-181.
-Sigurður Gíslason frá Hrauni.